Fjölskyldufyrirtækið Vísir í Grindavík var eitt af blómlegustu útgerðarfyrirtækjum landsins fyrir hrun. Útrás fyrirtæksins til Kanada kom félaginu í skuldasúpu sem ekki sér fyrir endann á og hefur haft veruleg áhrif á lítil bæjarfélög á landsbyggðinni. Síðasta orrustan í stríðinu um að standa vörð um fjárfestinguna í Kanada tapaðist í dómsal á Nýfundnalandi á dögunum.
Ekki sér fyrir endann á hremmingum útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík í tengslum við útrásarævintýri fyrirtæksins í Kanada árið 2007 þegar það keypti minnihluta í sjárvarútvegsfyrirtækinu Ocean Line International á Nýfundnalandi. Eftir að hafa dælt inn milljörðum í fyrirtækið í formi víkjandi lána og hlutafjár, standa stjórnendur Vísis eins og áhrifalausir áhorfendur á meðan meðeigendur þeirra halda um stjórnartaumana. Síðasta tilraun Vísismanna, sem var að knýja meirihlutaeigendurna Martin og Blaine Sullivan, sem stýra fyrirtækinu, til að selja sinn hlut fyrir dómstólum var vísað frá hæstarétti Nýfundnalands á dögunum.
Bónusgreiðslur, vaxtaskjól og óviðunandi tilboð
Eftir því sem Fréttatíminn kemst næst hafa Vísismenn áhuga á því að selja öðru sjávarútvegsfyrirtæki, Clearwater Seafoods, fyrirtækið en Sullivan-bræður eru á öndverðum meiði – vilja hanga á völdunum innan fyrirtækisins eins og hundar á beini. Vísismenn eru einnig ósáttir við stjórnun á fyrirtækinu og það hversu lítið þeir eru hafðir með í ákvörðunum um endurfjármögnun á lánum félagsins. Félagið hefur ekki fengið greidda krónu í vexti af lánum til Ocean Choice International og félags í eigu Sullivan-bræðra. Það myndaðist því vík milli vina þegar bræðurnir, sem gegna starfi forstjóra og framkvæmdastjóra framleiðslusviðs, sömdu við stærsta lánardrottin fyrirtækisins, Landsbankann, um árangurstengdar bónusgreiðslur þeim tveimur til handa eftir að samið var ótímabundið skjól frá vaxtagreiðslum á lánum félagsins, hvort heldur sem lánveitandinn hét Vísir eða Landsbankinn.
Ekki hjálpaði það heldur til í samskiptum Vísismanna og Sullivan-bræðra þegar bræðurnir buðu fjórum sinnum í hlut Íslendinganna á árunum 2013 og 2014. Fyrst tvívegis 30 milljónir kanadískra dollara (2,9 milljarða íslenska króna á núverandi gengi) sem dugði ekki einu sinni fyrir víkjandi láni Vísismanna. Síðan kom tilboð upp á 45 milljónir kanadískra dollara (4,3 milljarða á núverandi gengi) og loks tilboð upp 1 dollara (96 krónur á núverandi gengi) en þá áttu Vísismenn að fá að halda víkjandi láni sínu. Öllum þessum tilboðum var vísað beint heim til föðurhúsanna með þriggja stafa orði: „Nei“! Enda tilboðin langt fyrir neðan verðmat Vísismanna sem var á þeim tíma 70 milljónir kanadískra dollara (6,7 milljarðar á núverandi gengi).
Vísismenn hafa áfrýjað þessum úrskurði á æðra dómstig en ekki er ljóst hvort eða hvenær sú áfrýjun verður tekin fyrir. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, vildi í samtali við Fréttatímann ekki tjá sig um málið þar sem það væri á viðkvæmu stigi. Eftir stendur áður blómleg útgerð með 3,5 milljarða í neikvætt eigið fé, laskaða ímynd hér á landi eftir lokanir á fiskvinnslu á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri sumarið 2014, og milljarða króna erlenda fjárfestingu hvar þeirra raddir og skoðanir eru kæfðar af heimamönnum sem halda öllum þráðum í hendi sér. Martin Sullivan svaraði ekki fyrirspurn Fréttatímans í tölvupósti.

Lítill hlutur fyrir mikinn pening
Spólum aftur til ársins 2007. Íslenska útrásin tók á sig margar myndir það árið, flestar metnaðarfullar og jafnframt fylgi þeim sá annmarki að þær voru ekki alltaf hugsaðar til enda. En það var stemning í samfélaginu. Allt var í blússandi gangi og fátt ef nokkuð var Íslendingum ógerlegt. Þessi hugsunarháttur leiddi til þess að Vísir, fyrir tilstilli Landsbankans, vildi leyfa Kanadamönnum að bergja af viskubrunni íslensku útgerðarinnar. Ákveðið var að ganga til samstarfs við kanadísku bræðurna Martin og Blaine Sullivan sem báðir voru hoknir af reynslu úr kanadíska sjávarútveginum. Nýtt félag, Ocean Choice International, í eigu Vísis annars vegar og Sullivan-bræðranna hins vegar, yfirtók rekstur Fishery Product International vopnað lánsfé frá Landsbankanum. Nú skyldi vígi Vesturheims falla fyrir íslensku víkingunum.
Heldur var gæðunum misskipt á milli hluthafanna í hlutfalli við eign þegar kom að greiðslu hlutafjár inn í nýja félagið. Sullivan-bræður greiddu rétt rúmar þrjár milljónir kanadískra dollara (173 milljónir íslenskra króna á þáverandi gengi) en Vísismenn greiddu rúmlega 23 milljónir kanadískra dollara (um 1,3 milljarður á þáverandi gengi). Sullivan-bræður fengu 51% hlut í Ocean Choice International en Vísismenn 49% hlut. Helsta ástæða þess að Íslendingarnir lentu í minnihlutaeign eru reglur í Kanada sem kveða á um að fyrirtæki, sem eiga aflaheimildir, mega ekki vera í meirihlutaeigu útlendinga. Ocean Choice International er einn stærsti aflaheimildaeigandi í Kanada og því lá það ljóst fyrir frá upphafi að íslenska útgerðin yrði aldrei í meirihluta í félaginu.
Frekari fjármögnun kaupanna var í formi láns frá Landsbankanum upp á 175 milljónir kanadískra dollara (10,2 milljarðar á þáverandi gengi), víkjandi láni frá Vísi upp á 31,3 milljónir kanadískra dollara (1,8 milljarður á þáverandi gengi) og láni frá dótturfélagi Vísis til félags í eigu Sullivan-bræðra upp 7,2 milljónir kanadískra dollara (416 milljónir á þáverandi gengi). Eins undarlega og það hljómar þá var lánið breytilegt skuldabréf sem hægt var að breyta í 19% hlut í Ocean Chioce International. Ekki verður í fljótu bragði séð hvernig það veð gagnast Vísismönnum þar sem þeir eiga nú þegar eins mikið í fyrirtækinu og kanadísk lög heimila. En það var ljóst frá upphafi að Vísismenn drógu hvergi af sér í mokstri á fjármunum inn í verkefnið. Því eins og Páll Hafsteinn sagði í viðtali við DV árið 2014: „Þetta er bara fjárfesting okkar í Kanada, sjávarútvegsfyrirtæki í Kanada, á því herrans ári 2007. Þetta var allt gert í samræmi við andrúmsloftið árið 2007.“
Útrás hafði áhrif á landsbyggðina
Ári seinna kom hrun. Og hruninu fylgdu vandræði fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Kanada. Og hruninu fylgdi gengishrap íslensku krónunnar. Í takt við vaxandi rekstrarerfiðleika Ocean Choice International þurfti Vísir að lækka verðmæti eignar sinnar í fyrirtækinu og í raun afskrifa stóran hluta lánsins til varúðar. Við það breyttist stöndugt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki með eigið fé upp á 1,8 milljarða á núvirði í árslok 2007 í tæknilega gjaldþrota hræ með neikvætt eigið fé upp á 6,8 milljarða í árslok 2008 – viðsnúningur upp á 8,7 milljarða. Fyrirtæki, sem fitnaði eins og púkinn á fjósbitanum af rúmlega 4% hluta af aflaheimildum íslensku þjóðarinnar, fékk niðurgang af landvinningum vestanhafs og nánast tærðist upp. Stofnað 1965 af Páli H. Pálssyni í Grindavík og hafði frá þeim tíma breitt úr sér um landið – komið upp fiskvinnslum á Djúpavogi 1999, Húsavík 2002 og Þingeyri 2004 ásamt höfuðstöðvum í Grindavík. Máttvana af útrásarskuldum þurfti fjölskyldufyrirtækið, sem er í eigu Páls og fjölskyldu hans, að fá 1,7 milljarða afskriftir af lánum, afslátt af veiðigjöldum og loka starfsstöðvum sínum á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík sumarið 2014 við litla hrifningu íbúa bæjarfélaganna og stéttarfélaga og flytja alla starfsemi heim til Grindavíkur.

Óvissan er verst
Afleiðing útgerðarútrásarinnar fannst víða. Á Djúpavogi misstu 20 manns vinnuna og bæjarfélagið missti 15% af útsvarstekjum sínum að sögn Gauta Jóhannessonar, sveitarstjóra á Djúpavogi. „Þetta var mikið högg en það var einhverju leyti mildað með úthlutun byggðakvóta þegar Vísir fór,“ segir Gauti í samtali við Fréttatímann en Djúpivogur fékk úthlutað 300 þorskígildistonnum á ári til 2018. Það jafngildir innspýtingu upp á um 190 milljónir frá íslenska ríkinu á hverju ári. Gauti segir að fólk á Djúpavogi hafi tekið þann pól í hæðina að bera sig vel en það sé ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að yfir bæjarfélagi eins og Djúpavogi hangi skuggi óvissu – óvissu sem fæli frá fjárfestingar og sé ekki til þess fallin að skapa stöðugleika. „Við sáum hvað gerðist þegar Vísir hætti skyndilega. Byggðakvótinn kom í staðinn og við erum þakklát fyrir það en hvað gerist þegar núverandi úthlutunartími er á enda? Fáum við sama kvóta eða minnkar hann? Það er óvissuþáttur sem er óþægilegt að lifa með,“ segir Gauti.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, tekur í sama streng varðandi ástandið á Þingeyri. Hann segir ástandið vera þokkalegt á Þingeyri eftir að bæjarfélagið fékk úthlutað sértækum 400 þorskígildistonna byggðakvóta. „Byggðakvóti verður hinsvegar alltaf umdeildur því hann er billeg og ófullkomin lausn til að bæta fyrir samfélagslega ósjálfbært og óréttlátt kvótakerfi,“ segir Gísli og bætir við að nú verði samfélagið fyrir vestan að nýta sér úthlutunartíma þessa kvóta til að skjóta rótum undir fjölbreyttari atvinnustarfsemi. „Ef það gerist ekki þá mun nagandi óvissan um hvort kvóti sé á svæðinu fylgja okkur um alla framtíð og það er ekki nein lífsgæði fólgin í því,“ segir Gísli.
Bjartari tímar
Á meðan þrjú bæjarfélög sleikja sárin eftir flótta Vísis standa eigendur félagsins í stórræðum við að hámarka fjárfestingu sína í Kanada. Bjartari tímar virðast þó vera framundan í rekstri kanadíska sjávarútvegsfyrirtækisins. Lækkandi gengi kanadíska dollarsins og lágt olíuverð gerði það að verkum að rekstur ársins 2015 var mjög góður. Fyrir dyrum stendur að endurfjármagna lánið frá Landsbankanum sem er á gjalddaga 8. apríl næstkomandi. Jafnframt liggur fyrir að Clearwater Seafood metur Ocean Choice International á 300 milljónir kanadískra dollara (28,9 milljarða). Takist Vísis-mönnum að fá sínu framgengt í réttarsal eða stjórnarherbergi fyrirtækisins vænkast hagur þess verulega. Þá gæti útgerðarrisinn vaknað af útrásarþynnkunni og jafnvel opnað aftur fiskvinnslur á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri og þannig reist við orðstír sem var tættur í spað í lokununum 2014.
Óskar Hrafn Þorvaldsson
oskar@frettatiminn.is
The post Vísir í Grindavík tapar stórfé á mislukkaðri útrás appeared first on Fréttatíminn.