Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Í sömu fötunum í 300 daga

$
0
0

Júlíanna Ósk Hafberg hefur í 300 daga gengið í sömu fötunum. Uppátækið var áskorun á hennar neysluvenjur en einnig félagsleg tilraun, hvort fólk tæki eftir því að hún gengi í sömu fötunum. 

„Upphaflega var þetta 30 daga tilraun. Ég var í skiptinámi í Danmörku og var mikið að velta fyrir mér umhverfismálum. Ég var komin á þann stað í lífinu að geta staðið með sjálfri mér og því sem ég trúi á,“ segir Júlíanna Ósk Hafberg en hún skoraði á sjálfa sig að ganga í sömu fötunum í 30 daga sem vatt upp á sig í 300 daga lífsstíl.

25265_Julianna_Osk_Hafberg-1
Mt: Júlíanna Ósk er nemi við fatahönnun og byggir útskriftarverkefnið sitt á reynslu sinni að ganga í 300 daga í sömu fötunum. Mynd/Rut

Júlíanna vandaði fatavalið en ýmislegt þurfti að taka með í reikninginn. „Ég gat til dæmis ekki keypt gallabuxur, ég vissi að ég myndi ekki endast í 30 daga í þröngum buxum. Ég hafði þægindi að leiðarljósi, eitthvað stílhreint og klassískt sem ég fengi ekki strax nóg af. Fötin urðu að vera hversdagsleg en líka eitthvað sem ég gæti klæðst í partíi.“

Tilraunin segir Júlíanna að sé bæði áskorun á sig sjálfa og félagsleg tilraun. „Ég vildi kanna hvort fólk tæki eftir því að ég væri alltaf í sömu fötunum, sem það gerði alls ekki. Við erum búin að koma því í hausinn á okkur að geta ekki klæðst sama kjólnum tvær árshátíðir í röð. Það pælir enginn í þessu nema við sjálf. Við kaupum og kaupum, hendum og hendum.“

Eftir 30 daga í sömu fötunum sá Júlíanna að tilraunin sparaði henni bæði tíma og peninga. Því var engin ástæða til að hætta. „Ég fór að bera virðingu fyrir fötunum mínum og eignum, þetta breytti alfarið mínum neysluvenjum.“ Handlagni Júlíönnu kom sér vel eftir ýmsar uppákomur. „Á djamminu varð skyrtan fyrir sígarettubruna, einnig tókst mér að flækja skyrtuna svo hún rifnaði upp. Það er líka það skemmtilega við þetta að laga flíkurnar í stað þess að henda þeim.“

Um þessar mundir er Júlíanna að undirbúa útskriftarverkefni í fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Verkefnið er byggt á reynslu og lærdómi hennar á þessum 300 dögum. „Hugmyndin er að vekja athygli á neysluhyggju og gera flíkur sem eru endingargóðar. Fötin verður hægt að nota á fjölbreyttan máta, snúa þeim við og binda.“

Júlíanna hyggst halda áfram að ganga sömu í fötunum. „Ég ætla að ná einu ári sem verður 4. maí, þá held ég partí. Spurning í hverju ég verð?“

Hér má sjá bloggsíðu Júlíönnu.

The post Í sömu fötunum í 300 daga appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652