Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Faðir Sigurðar Hólm vissi ekki um hann fyrr en eftir harmleikinn í Bjarnaborg

$
0
0

„Ég hef leitað uppi leiðið hans og sett þar engla. Það er mín leið til að biðja hann fyrirgefningar að hafa ekki verið til staðar fyrir hann,“ segir Magnús Magnússon, faðir Sigurðar Hólm, sem vissi ekki af tilvist sonar síns fyrr en mörgum árum eftir að hann fæddist, enda var hann kenndur öðrum manni við fæðingu.“

Saga Sigurðar Hólm Sigurðarsonar, sem sögð var í Fréttatímanum fyrir tveimur vikum, vakti mikla athygli en hann varð fyrir skelfilegu ofbeldi í bernsku og náði aldrei að fóta sig í lífinu. Hann dvaldi á stofnunum mest allt sitt líf, fyrst á barnaheimili og síðan í fangelsi í samtals 25 ár. Dóms er að vænta yfir tveimur mönnum í sakamáli sem var höfðað eftir að Sigurður Hólm lést í klefa sínum við grunsamlegar aðstæður í fangelsinu á Litla-Hrauni árið 2012, en hann var þá 49 ára.

25334, magnús, bjarnaborg, sigurður hólm

Faðir Sigurðar Hólm Sigurðarsonar heitir Magnús Magnússon. Hann var 19 ára og vann við að byggja lögreglustöðina við Hverfisgötu árið 1963. Þegar hann var á leið heim af skemmtistað, kvöld eitt um helgi, hitti hann konu sem var að stíga úr rútu, ásamt frænku sinni, fyrir framan bæjaríbúðirnar í Bjarnaborg.

„Við fórum að tala saman og hún bauð mér inn í kaffi. Hún var utan af landi og talsvert eldri en ég, en eitt leiddi af öðru og það fór þannig að ég eyddi nóttinni þarna,“ segir Magnús í samtali við Fréttatímann.

Magnús segist ekki hafa vitað fyrr en eftir þetta að hún var gift og maðurinn hennar var í fangelsinu á Litla-Hrauni. „Það var þekktur drykkju- og ofbeldismaður, mér stóð náttúrulega ekki á sama.“
Morguninn eftir kvaddi Magnús konuna en ekkert varð úr frekara sambandi þeirra enda átti hann ekki eftir að tala við hana í mörg ár.

Eilífur djöfulgangur

Húsið Bjarnaborg við Hverfisgötu, þar sem fátækt fólk fékk leigt af borginni, var sögufrægt að mörgu leyti. Það var eitt fyrsta fjölbýlishúsið sem var reist á Íslandi en líka fyrsta félagslega leiguhúsnæðið. Það er einungis 270 fermetrar að grunnfleti en þar höfðu búið allt að 170 einstaklingar á þriðja áratug 20. aldar, þegar mest var en fækkað nokkuð þegar frá leið. Þegar komið var fram á sjötta áratuginn, bjó þar bláfátækt barnafólk, þar á meðal margar einstæðar mæður í litlum íbúðum í húsinu, auk fólks sem hafði farið halloka vegna óreglu eða geðsjúkdóma. Þá höfðu nokkrir drykkjumenn afdrep í herbergjum á loftinu með tilheyrandi skarkala og háreysti.

Kolbrún, sem var nágranni Sigurðar Hólm í æsku, flutti þegar hún var 12 ára í Bjarnaborg árið 1962 ásamt móður sinni og Hjálmari eldri bróður sínum. „Ég var alltaf hrædd í Bjarnaborg, út af rónunum sem bjuggu á loftinu, það var eilífur djöfulgangur á nóttu sem degi, rifrildi, öskur og drykkjulæti. Það var erfitt að venjast því. Ég var líka hrædd að nota aðalinnganginn í húsið, þar var þröngur stigi upp á loftið, þar sátu þeir oft og reyktu þannig að erfitt var að komast um.

25334 bjarnaborgina

Muna vel eftir Sigurði Hólm

Kolbrún segir að það hafi verið hægt að komast bakdyramegin inn en þar hafi verið gamlir kamrar og skúrræflar á lóðinni sem henni hafi fundist ógnvekjandi. Henni og bróður hennar, Hjálmari, fannst hinsvegar Bjarnaborgin eins og höll í samanburði við braggann í Laugarneskampi, þar sem þau bjuggu áður. „Ljóminn fór þó fljótlega af þegar ég skildi hvernig hús þetta var,“ segir hún.

„Í Bjarnaborg var hlýtt en í bragganum frusu stundum saman sæng og koddi,“ segir Hjálmar. „En auðvitað var mjög sérkennilegt að hafa þessa róna á efri hæðinni, þeir voru iðulega að hrynja niður stigana í ölæði eða fljúgast á með tilheyrandi hávaða.“

Það var nýorðið hlýtt í Bjarnaborg, bæjaryfirvöld höfðu nefnilega sneitt hjá húsinu þegar lögð var hitaveita við Hverfisgötu, en séð sitt óvænna eftir deilur í borgarstjórn og lagt þangað hita allmörgum árum seinna, þá hafði verið sett klósett á jarðhæðina sem íbúarnir notuðu í sameiningu en áður var notast við kamra. Árið 1964 lét borgin síðan setja vatnssalerni í íbúðirnar og litlar handlaugar. Drykkjumennirnir á loftinu notuðu hinsvegar enn klósettið á jarðhæðinni og voru því sífellt á ferðinni.

25334, magnús, bjarnaborg, sigurður hólm

Bæði systkinin muna vel eftir Sigurði Hólm, sem átti heima þarna fyrstu árin, smábarni, sem flestir höfðu oft orðið varir við og jafnvel gaukað að því kexköku eða klappað á ljósan kollinn.

25334_magnus-10

„Mér finnst ótrúlegt að það hafi verið hægt að misþyrma honum svona, í öllu þessu nábýli en þarna var mjög hljóðbært,“ segir Kolbrún.
Hún segist muna eftir því að hann hafi verið bólginn og með marbletti á kinnunum þegar hann var yngri.

Hún fór síðan á heimavistarskóla og var ekki mikið heimavið í Bjarnaborg. Hjálmar bróðir hennar var sjálfur kominn með kærustu og tvö börn en bjó þar um nokkurra mánaða skeið hjá móður sinni árið 1968. „Eldri strákurinn lék sér við Sigurð Hólm, og við urðum vör við að það var ekki allt með felldu,“ segir hann. „Honum var bannað að fara inn í íbúðir annarra barna og hann mátti ekki þiggja neinar góðgerðir. Ef hann gerði það varð hann mjög flóttalegur.“
Hjálmar segir að stundum hafi verið mikill hávaði og grátur í íbúðinni og það hafi verið hringt oftar en einu sinni á lögregluna. Það hafi verið hvíslað um að það væri farið illa með hann en engan hafi órað fyrir því sem gekk á í raun og veru.

Hjálmar var fluttur burt frá móður sinni og Kolbrún var farin út á land og því lítið heima við þegar Sigurður Hólm var fluttur burtu í sjúkrabíl, handleggsbrotinn á báðum handleggjum með mikla áverka eftir vanrækslu og barsmíðar. Hún segir að sér hafi verið mjög brugðið, hún hafi nánast fengið taugaáfall þegar fréttir voru sagðar af málinu. „Þetta var lyginni líkast,“ segir hún.
„Mér krossbrá og ég ásakaði sjálfan mig mikið að hafa ekki brugðist rétt við. Það gerðu allir sem þarna bjuggu. Það veit ég,“ segir Hjálmar.

Lifandi eftirmynd mín

„Rúmum átta árum eftir að ég eyddi nóttinni hjá konunni í Bjarnaborg, biður frændi minn mig um að hjálpa sér að gera við bilaðan eldhúsvask, heima hjá konu á Bergstaðastrætinu,“ segir Magnús Magnússon. „Þegar við komum á staðinn og hringdum dyrabjöllunni, brá mér heldur betur í brún, þegar konan sem ég hafði eytt nótt hjá í Bjarnaborg, opnaði dyrnar. Hún tók mig afsíðis fljótlega og sagðist þurfa að tala við mig. Ég man að hún sagði, „Hún virkaði aldeilis þessi nótt hjá okkur.“

Þannig var mér sagt að ég ætti átta ára son, sem væri vistaður á barnaheimilinu á Kumbaravogi.“

Magnús sagðist vilja hitta drenginn og nokkrum dögum seinna óku þau austur á Kumbaravog. „Mér brá mikið þegar ég sá drenginn, hann var í fyrsta lagi lifandi eftirmynd mín og í öðru lagi var hann með skurði í andliti og á höndum.“

Magnús segist hafa komist í mikið uppnám og þegar hann var aftur orðinn einn með móðurinni fór hann að ganga á hana, hvað hefði eiginlega gerst. Hann hafði þá séð fjallað um atvikið í Bjarnaborg, nokkrum árum áður, en skiljanlega, ekki talið að það tengdist sér sjálfum á nokkurn hátt. „Hún fór að gráta og sagði mér nöturlega sögu, um að hann hefði verið beittur ofbeldi. Hún gerði lítið úr sínum þætti í ofbeldinu, en þeim mun meira úr þætti eiginmanns síns, föður lítillar dóttur sinnar. Hún sagði að hann hefði orðið kolvitlaus og hafi ekki þolað drenginn og tekið þessa afbrýðisemi út á honum, hreinlega setið um að misþyrma honum.“

Hræðileg tilhugsun

„Drengurinn var mjög rólegur og fátalaður meðan við stóðum við. Ég reyndi að taka utan um hann og kyssa hann, en hann var á varðbergi gagnvart okkur báðum. Honum var ekki sagt frá faðerninu en ég fór samt nokkrum sinnum með henni að heimsækja hann. Ég tengdist honum ekki, því miður, þótt ég reyndi á minn hátt. Ég hugsa að hann hafi verið orðinn mjög skemmdur þegar þetta var. Það hefði þurft mikið meira til að hjálpa honum. Aðstæður á þessu barnaheimili voru ekki það sem þurfti. Mér finnst auðvitað hræðilegt að hugsa til þess að drengurinn þyrfti að þola alla þessa grimmd. Það er eiginlega ekki hægt að hugsa um það.“

Magnús segir að móðir Sigurðar Hólm hafi virkað mjög meinlaus, róleg og nánast bæld. Það hafi verið erfitt að átta sig á henni. Hann hafi fljótlega misst allt samband við hana enda hafi honum þótt málið allt svo ógeðslegt, að hann hafi ekki getað lifað með því. „Þetta var skrítið, hún hafði áður verið gift kona, átt ágætis mann og mannvænleg börn, og svo lenti hún hreinlega í slagtogi við glæpa- og ofbeldismenn. Ég áttaði mig þó ekki á hvað þetta var svakalegt og hvað raunverulega hefði átt sér stað, fyrr en löngu seinna þegar náinn ættingi hans kom til mín og sagði mér frá öllum misþyrmingunum sem drengurinn hefði orðið að þola og hann hefði orðið vitni að. Mér finnst ekki að það eigi að þegja um svona hluti, og það má ekki þegja um svona hluti.“

25334_magnus-10

Heimsækir leiðið hans

Magnús segir að hann hafi vitað af syni sinum gegnum árin, ýmist á götunni eða í fangelsi. Það hafi verið sárt að hugsa til þess en það hafi ekki verið neitt sem hann gat gert. „Ég tengdist honum ekki, enda var honum ekki sagt að ég væri pabbi hans og sjálfur vissi ég ekki af honum fyrr en þessi hryllingur í Bjarnaborg var um garð genginn.“

Hann segist ekki hafa verið viðstaddur jarðarförina. Enginn hafi látið hann vita en hún fór fram í kyrrþey. „Ég hefði farið ef ég hefði verið látinn vita. Ég hef farið og fundið leiðið hans í staðinn og heimsótt það og sett þar engla. Þótt við höfum ekki haft mikið saman að sælda í lifanda lífi, þá er það kannski mín leið til að biðja hann fyrirgefningar. Mér líður ákaflega illa yfir því að þessi sonur minn hafi þurft að þola svona mikla grimmd í lifanda lífi án þess að ég hafi getað komið honum til hjálpar.“

——————————————

25334_Lára Björnsd
Lára Björnsdóttir, fyrrverandi félagsmálastjóri

Slíkir hlutir eru enn að gerast
„Saga Sigurðar Hólm er hræðileg saga sem á vissulega brýnt erindi við okkur,“ segir Lára Björnsdóttir, fyrrverandi félagsmálastjóri. „Þarna var lítill drengur sem varð fyrir hræðilegri reynslu en fékk enga hjálp til að vinna úr því. Hann var bara lokaður inni. Ég held samt að við ættum líka að líta okkur nær og að hugsa með hvaða augum, börnin okkar og barnabörnin munu horfa á okkur. Það er mikið gert af því að rifja upp allskyns syndir í fortíðinni en þessir hlutir eru enn að gerast, allt í kringum okkur. Við þurfum að læra af fortíðinni og breyta hugsunarhætti okkar.“

Lára bendir á að enn séu ríkjandi þröngsýn og harkaleg viðhorf til fátæktarinnar og erfiðleika fólks, þótt mikið hafi verið gert til að opna kerfið.

„Staðreyndin er sú að það er enn til fólk í gríðarlegum hrakningum á húsnæðismarkaði, það sýna langir biðlistar og það er enn verið að senda börn í burtu, á heimili, af því foreldrarnir ráða ekki við hlutverk sitt. Þá er þessi ölmusu- og matarpokamenning á Íslandi algerlega skammarleg.“

Hún segir að yfirvöld barnaverndar hafi örugglega talið að þau væru að gera rétt þegar þau sendu Sigurð Hólm á Kumbaravog eftir það sem hann hafði orðið að þola. „Það voru fá betri úrræði í boði. Við vitum hinsvegar í dag að þetta var ekki góður staður fyrir lítið barn, enda meira stofnun en heimili. Slíkar stofnanir, þar sem börnum eða fólki í erfiðleikum er safnað saman, eru af hinu illa. Líka fátæktarhverfi eða sérstakar íbúðablokkir fyrir fólk í erfiðleikum. Hvorugt er hinsvegar úr sögunni.“

Sjá einnig sögu Sigurðar Hólm Sigurðarssonar:

Svikinn sem barn – 35 ár á stofnunum

The post Faðir Sigurðar Hólm vissi ekki um hann fyrr en eftir harmleikinn í Bjarnaborg appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652