Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Saman í 55 ár: Hamingjan felst ekki í fermetrum

$
0
0

Magni og Steinunn hafa ferðast saman um lífið og tilveruna í 55 ár. Siglt um heimsins höf, dansað og drukkið í flestum borgum Evrópu, sungið og spilað með vinum sínum í Reykjavík, átt saman þrjú börn og rekið saman spilabúð. Þau tóku snemma ákvörðun um að vera dugleg við að gleðja hvort annað, vera alltaf bestu vinir en gleyma samt ekki að hlúa að sér sjálfum og sínum hugðarefnum. Þau hægja ekkert á ferðinni þrátt fyrir hækkandi aldur og það reynist ekki auðvelt að hitta þau í kaffispjalli. Að endingu stinga þau upp á morgunkaffi á mánudagsmorgni á Hótel Borg. 

25050_Magni og Steinunn 01762
25050_Magni og Steinunn 01713

Steinunn Guðlaugsdóttir er fædd og uppalin á Eyrarbakka þar sem hún byrjaði snemma að vinna við afgreiðslu í verslun föður síns, Verzlun Guðlaugs Pálssonar. Hún segist hafa notið þess að alast upp í návígi við náttúruna en um fjórtán ára aldurinn hafi allt breyst. Þá vék áhuginn á boltaleikjum, skautasvelli og fjöruferðum fyrir nælonsokkum og böllum KK sextettsins á Selfossi. Þegar Steinunn var 17 ára var hún komin með alveg nóg af litla þorpinu sínu, flutti til Reykjavíkur og fékk vinnu í Parísarbúðinni þar sem hún seldi fína sokka, nælonbuxur og blúndublússur og naut alls þess sem borgin hafði upp á að bjóða.

25050_magni_og_steinunn_2
25050_magni_og_steinunn_3

Magni R. Magnússon ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur hjá ömmu sinni og afa og segir það sennilega vera ástæðuna fyrir því hversu feiminn og kurteis hann hafi alltaf verið. Hann lærði í Samvinnuskólanum í Reykjavík og bauðst vinna í kaupfélagi úti á landi beint eftir útskrift sem hann hafnaði því hann vildi búa í Reykjavík. Magni fékk vinnu hjá Símanum en fór svo yfir í Landsbankann í Austurstræti og síðar á Laugavegi 77 þar sem hann vann þegar þau Steinunn kynntust.

Fyrsti dansinn í Lídó

„Þann 1. maí árið 1961 fór ég með vini mínum úr Landsbankanum í Lídó og sá þar tvær vinkonur og önnur þeirra var sérlega falleg. Ég gekk til hennar og bauð henni upp í dans og mér til mikillar furðu sagði hún já, takk,“ segir Magni og brosir til Steinunnar. „Við vinkonurnar sátum þarna með appelsín en herrarnir sem höfðu boðið okkur út voru á barnum. Svo kom Magni og bauð mér upp í dans og auðvitað sagði ég já, takk. Ég dansaði við hann og þar með var það.“
„Ég fór heim af ballinu en hætti ekkert að hugsa um Steinunni. Á mánudeginum var ég svo að ganga upp Laugaveginn þegar þessi fallega stúlka kemur upp að mér og heilsar. Við gengum saman niður í Parísarbúð og stuttu síðar bauð ég henni í bíó. Það leið svo dálítið langur tími þar til við kysstumst fyrst,“ segir Magni og bæði hlæja þau að minningunni um unga feimna parið.
„Ég var nítján ára og hreifst svo af því hvað Magni var sérstakur. Svo var hann alltaf svo fínn, með þverslaufu og regnhlíf. Hann var öðruvísi en allir hinir strákarnir, ekki eins og þessir súkkulaðigæjar sem voru að sverma fyrir mér á þessum tíma. Hann var kurteisari og svo þolinmóður, en mamma hafði sagt mér að passa mig á strákunum svo ég gerði það. Þær voru margar skotnar í honum. Ég man eitt skiptið fékk Magni jólakort frá einhverri stelpu sem var svo skotin í honum en ég bara kunni ekki að vera afbrýðisöm.“
„Það var bara ég sem var afbrýðisamur,“ segir Magni. „Því þú hefur alltaf verið svo mikil fegurðardrottning og litið út fyrir að vera 25 árum yngri en þú ert.“
„Æ, góði besti Magni,“ segir Steinunn og skellihlær.

25050_magni_og_steinunn_5

Hamingjan felst ekki í fermetrum

Magni og Steinunn giftu sig þann 11. júlí 1964 í kirkjunni á Eyrarbakka. Síðar um sumarið hætti Magni í Landsbankanum og stofnaði Frímerkjamiðstöðina ásamt tveimur vinum sínum og í lok ársins eignuðust ungu hjónin sitt fyrsta barn. Þau bjuggu í leiguhúsnæði hér og þar um miðbæinn, eignuðust annað og svo þriðja barnið og keyptu sér litla risíbúð við Leifsgötuna. Árið 1979 seldi þau svo sinn hlut í Frímerkjamiðstöðinni og stofnuðu Spilabúð Magna við Laugarveg. „Við vorum í Spilabúðinni í 25 ár og kynntumst mjög góðu fólki. Það var svo gaman hjá okkur, sérstaklega á jólunum þá komu sömu konurnar aftur og aftur að kaupa handa barnabörnunum. Sumir komu líka á Þorláksmessu bara til að fá einn nýjan brandara,“ segir Magni.

25050_magni_og_steinunn_6
25050_magni_og_steinunn_1
25050_magni_og_steinunn_7

„Við höfðum vit á því að búa smátt og nota peningana til að ferðast og fara í siglingar. En svo þegar börnin voru orðin þrjú ákváðum við að flytja úr risinu á Leifsgötunni og gerast frumbyggjar á Álftanesi. En þar vorum við bara í þrjú ár því við sáum Reykjavík hinum megin við flóann og söknuðum hennar,“ segir Magni.
„Ég veit eiginlega ekki hvað kom yfir mig, mig langaði bara allt í einu í einbýlishús. Ég hélt ég yrði í himnaríki í öllum þessum palesanderviði og hvítu teppum, eins og drottning í ríki mínu. Ég hélt að þetta væri sko lífið, að vera í glænýju og flottu einbýlishúsi, en það er sko ekki hamingjan! Nei, nei, hamingjan felst nú ekki í fermetrunum,“ segir Steinunn.
„Þetta var þriggja ára skóli og svo fluttum við aftur í bæinn,“ segir Magni og brosir.

Gleðin er galdurinn

„Við erum heppin að halda heilsunni svona vel, en við pössum líka vel upp á okkur,“ segir Magni þegar talið berst að vinunum sem fallnir eru frá. „Við byrjum á lýsi og tveimur appelsínum alla daga. Svo erum við alltaf með góðan heitan mat í hádeginu. Við höfum ekki alltaf tíma til að elda í hádeginu en við gerum það samt. Svo er mikilvægt að hafa eitthvað að gera, að heilinn sé alltaf í gangi. Við erum líka blessunarlega laus við bílinn og göngum eða tökum strætó þegar við þurfum að komast niður í bæ,“ segir Magni en þau hjónin búa í Laugarnesinu og kaupa allan sinn mat í hverfinu, aðallega í Frú Laugu. Steinunn hefur verið áhugakona um hollan lífsstíl frá því hún átti sitt fyrsta barn. „Nú eru allir að tala um hvítan sykur en ég lærði það af henni Huldu Jensdóttur um miðja síðustu öld að hvítur sykur væri eitur og hún kenndi mér líka að elda úr grænmeti og baunum. Það er nauðsynlegt að borða hollan mat og hreyfa sig daglega. Það er lykillinn að góðri heilsu. En svo er það líka gleðin, ætli hún sé ekki galdurinn. Og ég gæti ekki lifað ef ekki væri fyrir tónlist og dans.“
„Uppáhaldslagið okkar er Fascination,“ skýtur Magni hér inn í. „Við fórum í hverri viku á Naustið, áttum okkar fasta borð allar helgar, og þar var alltaf spilað Fascination. Carl Billich og fleiri snillingar spiluðu þar allar helgar og það var fyrsti veitingastaðurinn sem ég bauð Steinunni út að borða á.“

 

25050 magni steinunn
Mynd: Baldur Kristjánsson

Ég er ég og hann er hann

En hafa öll þessi ár verið eilífur dans á rósum?
„Já, það má nú segja að það hafi verið þannig hjá okkur. Við höfum verið ofsalega lánsöm og börnin okkar líka,“ segir Magni.
„Maður verður auðvitað að vera duglegur við að rækta sjálfan sig og sambandið við vini sína. Ég er alltaf í leiklistinni og dansinum á meðan hann er í frímerkjunum,“ segir Steinunn sem hefur stundað leikfimi með sömu konunum í 40 ár. „Ég er ég og hann er hann. En samt erum við bestu vinir.“
Eftir heillangt spjall er kaffið löngu búið og við röltum saman á Austurvöll þar sem ljósmyndarinn smellir af nokkrum myndum.
„Jæja, Steinunn mín, hvar viltu borða í hádeginu,“ spyr Magni og lítur á úrið sem sýnir að klukkan er að verða tólf. „Grillmarkaðinn eða Apótekið?“
„Æ, kíkjum bara á Apótekið,“ segir Steinunn.
Þau kveðja með faðmlagi og trítla svo hönd í hönd upp Austurstrætið.

25050_Magni og Steinunn 01733

Uppáhaldslag Steinunnar og Magna:

 

 

 

 

 

 

The post Saman í 55 ár: Hamingjan felst ekki í fermetrum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652