Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ótrúlega gaman að skora!

$
0
0

„Ég fékk áhugann í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Við hittumst alltaf einu sinni í viku og spiluðum í einn og hálfan eða tvo tíma, til hálf tólf á kvöldin. Ég man að mamma var alltaf frekar pirruð yfir þessu því ég var svo þreytt á eftir,“ segir Valdís Lilja Andrésdóttir, fyrirliði kvennaliðs HK í bandí. Bandí er íþróttin sem margir muna eftir úr skólaleikfimi í barnaskóla, þar sem keppst er við að rekja kúlu með kylfu og skjóta í mark andstæðinganna.

Valdís Lilja, fyrirliði kvennaliðs HK í bandí, tilbúin í slaginn fyrir æfingu í vikunni. Myndir/Hari
Valdís Lilja, fyrirliði kvennaliðs HK í bandí, tilbúin í slaginn fyrir æfingu í vikunni. Myndir/Hari

Valdís Lilja er þrítug og er kennari í Ísaksskóla á daginn. Hún hefur æft bandí með HK síðan hún flutti suður og var um tíma bæði að æfa blak og bandí. Nú hefur hún ákveðið að einbeita sér að bandíinu. „En ég fæ að vera með á öldungamótum í blakinu, ég kallast víst öldungur þar eftir að ég varð þrítug.“

Hvað er bandí?
Sex leikmenn eru inni á í hvoru lið, fimm útileikmenn og markmaður. Markmenn eru sérstaklega útbúnir með brynjur og hjálma, rétt eins og í íshokkí. Völlurinn er svipaður handboltavelli að stærð og eru battar í kringum völlinn. Mörkin eru sérhönnuð. Leikmenn keppast við að rekja kúlu með kylfum og koma kúlunni í mark andstæðinganna.

Hvað er svona skemmtilegt við bandíið?
„Ég held að það sé snerpan, þetta gerist allt svo hratt. Svo er ótrúlega gaman að skora!“ segir Valdís sem æfir tvisvar í viku með stelpunum í HK og einu sinni til viðbótar með félögum sínum. Á þeim æfingum er sérstök áhersla lögð á sendingar og skot.

25420 bandi 0315425420 bandi 03137
Um 15-20 konur mæta á bandíæfingar hjá HK en allir eru velkomnir.
Um 15-20 konur mæta á bandíæfingar hjá HK en allir eru velkomnir.

Að sögn Valdísar eru 97 konur skráðar í bandí hjá HK en yfirleitt mæta um 15-20 á hverja æfingu. Meðalaldurinn er um 25 ár. Hún segir að allar áhugasamar konur geti mætt og allur búnaður sé til staðar.

„Það er alltaf ákveðinn kjarni sem heldur sér. Við höfum farið á mót á Akureyri og Ólafsfirði en það er engin kvennadeild. Við fórum líka einu sinni út til Amsterdam og kepptum á móti. Við enduðum mótið á því að vinna tvo leiki og fórum því heim með sigurbros. Við skulum ekkert tala um hvernig gekk fram að því.“

Valdís segir að þó bandíið sé skemmtilegt sé það hobbí. „Þetta er hobbí-íþrótt, bumbubandí. Þetta er auðvitað miklu skemmtilegra en að hlaupa á hlaupabretti.“

Iðkendur allt niður í sex ára

„Bandí hefur verið stundað sem keppnisíþrótt hér á landi í um tíu ár. Það datt botninn úr starfinu um tíma en síðustu 3-4 ár hefur verið mikill kraftur í þessu. Ég hugsa að það séu á milli 200-250 manns sem eru viðriðnir sportið hér á landi en í kringum hundrað sem æfa þetta sem keppnisíþrótt,“ segir Atli Þór Hannesson, formaður bandídeildar HK og landsliðsmaður í greininni.

Að sögn Atla eru iðkendur alveg niður í sex ára og barnastarf er alltaf að eflast. Þrjú félög eru á höfuðborgarsvæðinu, HK, Björninn og Bandífélag Reykjavíkur. Þá er íþróttin stunduð á Egilsstöðum, Akureyri og Ólafsfirði.

Ísland sendi í fyrsta sinn landslið í undankeppni HM í bandíi á dögunum. „Við fórum til Slóvakíu og kepptum við fimm lið, þar á meðal heimsmeistara Svía. Við töpuðum nokkuð örugglega fyrir Svíum, Rússum og Slóvökum en svo sigruðum við Frakkana. Það hafa verið gríðarlegar framfarir hjá okkur síðustu tvö árin.“

The post Ótrúlega gaman að skora! appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652