Ingvar Ómarsson, þrefaldur Íslandsmeistari í hjólreiðum, gerði sér lítið fyrir og sigraði á hollensku götuhjólamóti á dögunum. Aðeins fjórum mánuðum eftir að hann slasaðist lífshættulega í árekstri við mótorhjól.
Erla Sigurlaug Sigurðardóttir
ritstjorn@frettatiminn.is
„Já, ég náði að stinga af með öðrum og við tveir náðum að hjóla ansi hressilega, með hópinn á eftir okkur. Þetta voru nánast allt Hollendingar en útlendingurinn sigraði í elítuflokki,“ segir Ingvar Ómarsson, ánægður með árangurinn. „Hollendingar eru náttúrulega ein stærsta þjóðin í þessu sporti og hér er allt önnur taktík í keppnum sem er gaman að upplifa. Ég flokka mig sem fjallahjólara en þessar götuhjólakeppnir eru skemmtileg reynsla.“
Ingvar er eini Íslendingurinn sem er atvinnumaður í hjólreiðum en það hefur hann verið frá því í fyrravor. Hann fluttist til Hollands í haust til að freista þess að ná lengra í íþróttinni. Í nóvember lenti hann hinsvegar í alvarlegum árekstri við mótorhjól. Hann man ekki eftir slysinu og rankaði fyrst við sér 4 dögum síðar. „Þeir fyrstu á slysstað héldu að ég væri dáinn og það var kölluð út þyrla og sjúkrabíll. Ég var svo heppinn að vera nálægt einum besta spítala í Evrópu þar sem ég fékk fyrsta flokks þjónustu. Ég var með lífshættulega höfuðáverka og fór strax í mjög stóra aðgerð á höfðinu. Þá var höndin líka mölbrotin en það var aukaatriði. Læknarnir voru víst alls ekki vongóðir um að ég myndi ná mér og í raun gáttaðir á ótrúlegum bata. Ég var strax ákveðinn í að sigrast á þessu og það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég vaknaði aftur var að ég ætlaði aftur að hjóla. Fyrsti hjólatúrinn um miðjan desember var þó mjög hægur og erfiður.“

Ingvar fullyrðir að í dag, fjórum erfiðum mánuðum eftir slysið, hafi það engin áhrif á daglegt líf og hjólaæfingar. „Ég var með stöðugan höfuðverk í 5-6 vikur en svo hvarf hann. Ég er reyndar með títaníumplötu og nagla í hendinni en það truflar mig ekki, frekar en að hafa misst lyktar- og bragðskyn. En auðvitað er maður aðeins tilfinninganæmari eftir svona reynslu.“
Framundan hjá Ingvari eru hjólamót nánast um hverja helgi fram á haust og þar á meðal heimsmeistaramót í Tékklandi um mitt sumar. „Ég sleppti öllum mótum í janúar og febrúar en fór í staðinn í 5 vikna æfingaferð til Tenerife. Það er þyngsta æfingatímabil sem ég hef tekið frá upphafi. Ég hjólaði í 25 klukkustundir á viku í kjöraðstæðum og náði mér aftur í betra form en ég hafði þorað að vona.“
Hér er hægt að fylgjast með Ingvari og afrekum hans.

The post Sigraði á hjólamóti 4 mánuðum eftir lífshættulegt hjólaslys appeared first on Fréttatíminn.