Óánægja er innan Samfylkingarinnar með tillögur stjórnarskrárnefndar forsætisráðuneytisins vegna breytinga á stjórnarskrá.
Boðað hefur verið til flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar á morgun, laugardag, til að ræða tillögur stjórnarskrárnefndar og afstöðu flokksins til þeirra. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar ákvað á kvöldfundi síðastliðinn miðvikudag að ekki yrði lögð fram stjórnartillaga um afstöðu flokksins á fundinum. Þess í stað verði flokksstjórnarfundurinn nýttur til að hlusta á meðlimi flokksstjórnar. Hópur fólks sem vill að þingflokkur
Samfylkingarinnar kjósi gegn tillögum stjórnarskrárnefndar hefur undanfarið safnað liði og hvatt andstæðinga til að mæta á flokksstjórnarfundinn. Markmiðið er að setja ofan í við þingflokkinn og formfesta andstöðu Samfylkingarinnar við þá leið að endurskoðun stjórnarskrár hafi verið tekið úr lýðræðislegu ferli. Verði sú niðurstaða ofan á yrði það í andstöðu við Árna Pál Árnason, formann flokksins og einn höfund þeirrar sáttar sem felast átti í stofnun stjórnarskrárnefndar, í stað þess að vinna áfram með tillögur stjórnlagaráðs.
Umdeild sáttanefnd
Það var í nóvember 2013 sem stjórnarskrárnefnd var skipuð af forsætisráðherra með það að markmiði að skila tillögum að breytingu á stjórnarskránni. Í nefndinni sitja fulltrúar tilnefndir af þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi. „Nefndin skal hafa hliðsjón af vinnu undanfarinna ára, meðal annars tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005-2007,“ segir um tilgang og störf nefndarinnar á vef forsætisráðuneytisins. Í lok febrúar birti nefndin tillögur að þremur frumvörpum til breytingar stjórnarskrár; ákvæði um náttúruauðlindir, þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda og ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd. Störf nefndarinnar hafa vægast sagt verið umdeild og það þrátt fyrir að tilvist nefndarinnar byggi á sáttaumleitan á þingi. Nefndin hefur afhjúpað talsverðan klofning og ágreining innan Pírata og innan Samfylkingarinnar virðist ekki einhugur um að rétt hafi verið að færa stjórnarskrárbreytingar inn í lokaða nefnd stjórnmálaflokkanna.
Stjórnarskrárnefndin er leið Árna Páls
Það flækir málið innan Samfylkingarinnar að Árni Páll Árnason, formaður flokksins, er einn höfunda þingsályktunartillögu um að færa stjórnarskrárbreytingar úr ferli stjórnlaganefndar. Á lokadögum síðasta kjörtímabils lagði Árni Páll Árnason, ásamt Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, og Guðmundi Steingrímssyni hjá Bjartri framtíð fram frumvarp til stjórnskipunarlaga með sérákvæði um breytingu stjórnarskrár. „Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar stjórnarskrárinnar sem staðið hefur undanfarin ár,“ segir í greinargerð frumvarpsins. Árni Páll hefur því lagt nokkuð á sig til að koma málum á núverandi stað.
Fyrir er staða Árna Páls veik innan flokksins og því getur andstaða við tillögur stjórnarskrárnefndar veikt formanninn enn fremur. Þess ber þó að geta að sáttin var ekki víðtækari en svo að frumvarpið var samþykkt með 25 atkvæðum á þingi. Strax við samþykkt mátti því vera ljóst að engin „víðtæk sátt“ ríkti um þessar lyktir mála. Í atkvæðagreiðslu um málið mátti þegar sjá að Árni Páll hafði ekki tryggt stuðning eigin flokksmanna við sáttatillöguna sína. Meðal þeirra sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna voru Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Mörður Árnason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þá er vert að benda á að sáttahugur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var ekki meiri en svo að bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og nú fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sátu hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarp og þingsályktunartillögu sem boða átti víðtæka sátt um stjórnarskrárbreytingar.

Stjórnalagaráðsfulltrúi vill heildarendurskoðun
„Ég er frekar neikvæður á að þessar tillögur séu til framdráttar,“ segir Vilhjálmur Þorsteinsson, nefndarmaður í stjórnlagaráði og gjaldkeri Samfylkingarinnar, um tillögur stjórnarskrárnefndar. „Ég tel aðalatriði málsins að við náum að klára heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili. Ég er að vonast til þess að stjórnarandstaðan nái vel saman um það markmið og geti unnið að því. Ég vil þá bara að við einhendum okkur í það að klára málið í lýðræðislegu ferli eins og var á síðasta kjörtímabili.“
Vilhjálmur segir að tillögur stjórnarskrárnefndar séu ekki það góðar að forsvaranlegt sé að hætta á að vinna verði í stjórnarskrá árum og jafnvel áratugum saman. „Ég held að samþykkt þessarar tillögu stjórnarskrárnefndar sé ekki varða á leiðinni til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar. Þetta eru ekki nógu góð ákvæði til að standa í stjórnarskránni, hugsanlega í áratugi, ef mistekst að ná fram heildarendurskoðun. Ég held að flokkarnir sem raunverulega vilja nýja stjórnarskrá eigi ekki að rugla kjósendur með því að samþykkja eitthvað sem er ekki gott núna með þeim formerkjum að breyta eigi aftur á næsta kjörtímabili.“
Vilhjálmur segir að af því sem komið hafi úr stjórnarskrárnefnd forsætisráðuneytisins sé þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið „þolanlegast“ af vinnu nefndarinnar.„Vissulega er það svo að í samanburði við 26. grein stjórnarskrárinnar [málskotsrétt forseta], eins og hún stendur í dag, þá er hún framför. Hinsvegar má alveg spyrja sig ef flokkarnir eru allir tilbúnir í það að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu, að frumkvæði kjósenda, spyr maður sig hvers vegna þeir gera það ekki bara með gömlu aðferðinni. Það er að segja með því að samþykkja stjórnarskrárbreytingu núna í lok kjörtímabilsins og hún yrði svo staðfest af nýju þingi eftir næstu kosningar. Hvers vegna þarf að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu?“
Afturhaldsöflin sátt
Valgerður Bjarnadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórnarskrárnefnd, hefur bent á að vinna nefndarinnar sé langt frá því að vera byltingarkennd. Hún segir, í grein sem birtist í vefritinu Herðubreið, nefndina hafa starfað af heilindum en útkoman sé það sem hún er. „Þetta var engin svikanefnd, eins og einhverjir vilja halda fram. Allir störfuðu af heilindum, enginn gekk frá borði. Að leikslokum er útkoman augljós. Útkoman er sú sem afturhaldsöflin geta fallist á. Gjörið svo vel.“

Valgerður gengur lengra og tekur hverja tillögu nefndarinnar fyrir. Um auðlindaákvæðistillöguna segir hún: „Ég óttast það ákvæði ekki. Tekinn er af allur vafi um að auðlindin er í eigu þjóðarinnar, það skiptir höfuðmáli. Ég er ósammála þeim sem segja að ákvæðið rammi inn kvótakerfið.“ Þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið segir hún gamaldags og jafnvel úrelt. „Einungis má kalla eftir atkvæðagreiðslum um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þröskuldur, sem segir að 25 % atkvæðisbærra manna þurfi að greiða atkvæði gegn lögum til þess að þau séu felld úr gildi, er of hár.“ Um ákvæði um náttúru og umhverfisnefnd segir Valgerður að minnstur ágreiningur hafi verið um meðal nefndarmanna. „Á lokametrunum voru hins vegar uppi kröfur um orðalag um inntak og afmörkun almannaréttar. Sú umræða endaði með að eftirfarandi setningu var bætt inn í ákvæðið: Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar. – Ég óttast nokkuð þetta orðalag þar sem mér finnst það mjög óljóst og átta mig, satt að segja, ekki alveg á hvaða hagsmuni er verið að verja, en tel þó að það séu hagsmunir landeigenda.“
Atli Þór Fanndal
ritstjorn@frettatiminn
The post Átök innan Samfylkingarinnar um sáttaleið Árna Páls í stjórnarskrármálinu appeared first on Fréttatíminn.