Signý Björk Ólafsdóttir, 46 ára, var þegar orðin fimm barna móðir 28 ára gömul. Hún byggði sér 300 fermetra hús í Grafarvoginum og tók hressilega þátt í góðærinu. 2010 varð hún gjaldþrota og flutti með unglingana sína þrjá í leiguhúsnæði en síðustu átta mánuði hefur hún gist á hermannabedda hjá frænku sinni.
Fyrir átta mánuðum missti Signý Björk Ólafsdóttir húsnæðið sitt í Breiðholti þegar leigusamningurinn rann út og leigusalinn seldi ofan af henni íbúðina. Þá fékk Signý inni hjá Hönnu frænku sinni sem á dótturina Álfrúnu, 10 ára. Þær Signý og Hanna eru mjög samrýmdar og standa þétt saman í lífsbaráttunni í litlu íbúðinni í Álfaborg í Grafarvoginum. Þær hafa verið nánar í mörg ár, ferðast saman og gengið á Hvannadalshnjúk og púsla alltaf á þriðjudagskvöldum þegar elsta dóttir Signýjar kemur í heimsókn.

Börn barna eru gæfubörn, sagði skáldið
„Ég eignaðist mitt fyrsta barn, elstu dóttur mína, þegar ég var 16 ára og var orðin fimm barna móðir 28 ára. Sú elsta er rosalega sjálfstæð
og ennþá barnlaus,“ segir Signý og hlær þannig að þakið ætlar að rifna af. „Konurnar í minni ætt eru alltaf jafn hissa þegar þær verða óléttar, það mætti halda að við gleymum jafnóðum hvernig börnin verða til. Úps, alltaf jafn óvænt þegar nýtt barn kemur í heiminn.“ Signý segir að amma hennar hafi orðið ólétt 16 ára, mamma hennar 17 ára, sjálf var hún 15 ára og næstelsta dóttir Signýjar varð ólétt af sínu fyrsta barni 18 ára.
Fæðingarorlof í Svíþjóð
„Ég var búin að eiga þrjú elstu börnin mín þegar ég prófaði að flytja til Svíþjóðar með barnsföður mínum sem fór að vinna þar. Í
Svíþjóð uppgötvuðu þeir að ég ætti inni fæðingarorlof hjá sænska ríkinu með börnunum sem ég kom með inn í landið, af því á Íslandi er
fæðingarorlof aðeins hálft ár, á meðan það eru tvö ár í Svíþjóð. Þannig að ég fór beint í fæðingarorlof þessi tvö ár sem ég var úti. En svo þegar ég eignaðist mitt fjórða barn í Svíþjóð og kom hingað heim, þá átti ég ekki rétt á neinu fæðingarorlofi hérna. Ég var réttlægri sem Íslendingur með því að fara út.“
Íslenski draumurinn í Grafarvoginum
„Ég kom heim og settist að í Grafarvoginum og eignaðist þá barn númer fimm. Ég var hokkímamman á hliðarlínunni á öllum æfingum
og hvatti áfram börnin mín sem tóku þátt í íþróttum, aðallega hokkíi og skautaíþróttum. Ég var í öllum foreldraráðum og ef þau voru ekki
starfrækt þá stofnaði ég þau. Við fórum alla leið í 2007 vitleysunni, byggðum 300 fermetra hús á Landsímalóðinni í Grafarvoginum með
hjólhýsi fyrir utan og sjónvarp í hverju herbergi.“ Allt leit vel út hjá Signýju og hjónaleysin létu pússa sig saman 07.07 árið 2007, eftir 20 ára sambúð. En kvissbúmm, árið 2010 voru þau komin í gjaldþrot, skilin og Signý flutt út, slipp og snauð með níu bílalán á bakinu. Lánin voru tilkomin vegna fyrirtækis þeirra hjóna. Signý flutti í leiguíbúð í Grafarvoginum með þrjá táninga en tvær elstu dætur hennar voru farnar að búa sjálfar. Lífið tók nýja stefnu og Signý var orðin allslaus og eina fyrirvinnan. Hún réði sig sem heimilishjálp á daginn og þjónn í Gullhömrum á kvöldin til þess að eiga fyrir leigu og mat handa þremur unglingum. „Eftir skilnaðinn átti ég hvorki ísskáp, þvottavél, eldhúsborð né glös. Það er rosa skrýtið að standa uppi á fertugsaldri og eiga ekki kúst. Sérstaklega á svona tölvuöld, þegar það er sjálfkrafa ætlast til þess að maður eigi tölvu. Hvorki ég né börnin mín eigum tölvu í dag. Maður þakkar Guði fyrir að þetta er komið í símann og svo maður geti skoðað tölvupóstinn sinn.“

Skólinn kvartar
„Börnin höfðu alla tíð verið í Rimaskóla, en við skilnaðinn og flutningana þurfti yngsta dóttir mín að skipta um skóla. Það þekktu mig allir í Rimaskóla, kennarar og skólastjórinn, en svo flutti ég í annað hverfi og dóttir mín byrjaði í nýjum um skóla. Það endaði á því að nýi skólinn tilkynnti mig til barnaverndarnefndar af því að skólanum fannst eitthvað skrýtið hvað barninu mínu leið illa. En það var skrifað á mig, að það væri eitthvað að mér. Það var ekki tekið með í reikninginn að heimurinn var að hrynja hjá þessu barni. Hún varð að hætta að æfa skauta af því að ég hafði ekki efni á því lengur.“
Taugaáfall og VIRK
Signý fékk taugaáfall í október 2013. Hún brotnaði niður eftir að hafa framfleytt þremur börnum, í tvöfaldri láglaunavinnu og borgað niður
skuldir með ekkert kredit lengur í bankanum. Í fyrsta sinn leitaði hún til heimilislæknisins vegna eigin veikinda, en ekki vegna meðgöngu eða barnanna sinna. Í framhaldi af því viðtali fór hún í endurhæfingu hjá VIRK og á endurhæfingarlífeyri. Hjá VIRK fékk Signý að ganga til sálfræðings og sjúkraþjálfara. Félagsráðgjafinn hjá VIRK vildi sjá hana fara að vinna og læknir sem kom til sögunnar vildi setja hana á lyf svo að hún gæti farið út vinnumarkaðinn. Hún var ekki hrifin af lyfjaúrræðinu en hún fór að vinna og sinnir núna 20% starfi á frístundarheimili hjá Reykjavíkurborg. Í desember 2015 útskrifaðist hún frá VIRK með læknisvottorð upp á það að vera 20% vinnufær. Signý hefur ekki trú á lyfjum fyrir sig, hún segist þurfa hjálp til þess að vinna úr sínum málum og áföllum með sálfræðingi. „En á endanum tóku þeir hjá VIRK sálfræðitímana mína út og einbeittu sér bara að líkamanum. Þetta var yndislegur sálfræðingur og ég myndi óska þess að ég ætti peninga til þess að fara til hennar. Með henni var ég að reyna að finna einhverja sátt og gleði til þess að vera hérna. Ég hafði alltaf verið kona eða mamma einhvers en ég vissi ekki hver ég var lengur. Ég hef heldur ekki hitt sjúkraþjálfarann minn síðan í október af því að núna þarf ég að borga fyrir það sjálf og ég finn að ég er hægt og rólega á niðurleið.“
Vildi hafa börnin hjá sér
Signý hefur verið á biðlista í sex ár hjá félagsbústöðum. Hún er að sækja um þriggja herbergja íbúð fyrir sig og Mábil, dóttur sína, en byrjaði ferlið þegar dóttir hennar var 12 ára og strákarnir 14 og 16 ára. Hún borgaði að jafnaði 170 þúsund krónur í leigu á frjálsa leigumarkaðnum. „Kannski eru þeir hjá félagsbústöðum að bíða eftir því að Mábil verði 18 ára, sem gerist í maí, og þá á ég bara rétt á einstaklingsíbúð af því að þá ber mér ekki skylda til þess að halda henni uppi, samkvæmt lögum.“
Þegar strákarnir mínir urðu 18 ára þá lækkaði endurhæfingarlífeyrinn minn og leigubæturnar og þeir neyddust til að flytja út og sjá um sig sjálfir. Ég hafði ekki efni á því að halda þeim uppi ef þeir borguðu ekki heim. „Falur, elsti strákurinn minn, flutti fyrst og fór að leigja með nokkrum vinum sínum og svo fór Máni þegar hann varð 18 ára. Mábil flutti síðan þegar hún var 17 ára. Þau þurfa öll að framfleyta sér sjálf, en ég held pottþétt að þau væru ennþá hjá mér ef ég hefði haft aðstöðu til þess. En ég veit það ekki, af því núna eru strákarnir 19 og 21 árs og búnir að sjá fyrir sér sjálfir í einhvern tíma og þá vilja þeir kannski ekki koma aftur heim til mömmu, ef það væri í boði.“
Gefa menntun upp á bátinn
„Ég á eldskýr börn. Ég veit að Mábil, yngstu dóttur mína sem er fyrrum afrekskona á skautum og afgreiðir á kassa í Bónus í augnablikinu, dreymir um að fara í nám þegar efni leyfa. Hún ætlaði í kvöldskóla núna en svo höfðum við ekki efni á því. Námið reyndist vera of dýrt og ég er ekki með laun núna þar sem ég er dottin af endurhæfingarlífeyri og ekki ennþá komin á örorku. Ég held að strákarnir mínir séu búnir að gefa upp alla von um menntun, þeir eru hörkuduglegir en þeir eiga nóg með leigu og mat ofan í sig. Um daginn brotnaði hokkíkylfan hjá þeim eldri, sem er að keppa, og ég veit ekki hvernig hann ætlar að útvega sér nýja. En hann hefði aldrei haldið áfram í hokkíi nema af því að það eru einstaklingar sem hafa hlaupið undir bagga með honum.“
Bíllaus í þrjú ár
„Börnin mín eiga ekki sömu möguleika og önnur börn af því að ég á ekki peninga. Þetta er svo hallærislegt. Það er ekki eins og ég hafi verið að eyða í eitthvað. Ég hef verið bíllaus í þrjú ár. Svolítið krúttlegt af því að ég ætlaði aldrei að stíga upp í strætó. En ég á ekki peninga fyrir græna kortinu núna. Ég fékk einn bíl þegar við skildum, ég hafði tekið 800 þúsund króna lán fyrir honum. Ég borgaði af láninu í fjögur ár og þegar uppi var staðið hafði ég borgað 4 milljónir til Lýsingar sem á endanum kom og sótti bílinn.“
Sumarfrí á kostnað ellilífeyrisþegans
Í sumar bauð móðir Hönnu þeim frænkunum, Signýju og Hönnu og barnabarninu Álfrúnu, dóttur Hönnu, til sín í sveitina fyrir utan Malmö. Mamma Hönnu er ellilífeyrisþegi og lifir mannsæmandi lífi á sænska lífeyrinum og gat greitt flugfarið fyrir þær allar þrjár til Svíþjóðar. Hanna telur alltaf móður sinni hughvarf frá öllum vangaveltum um að snúa til baka til föðurlandsins á þessum síðustu og verstu tímum. En mamman saknar þeirra og keypti handa Hönnu tölvu svo að þær gætu spjallað saman á Skype. „Ég verð að sjá ykkur,“ segir hún og þá meinar hún þær allar þrjár af því að Signý hefur greinilega verið tekin inn í fjölskyldutöluna, eins og týnda dóttirin. Fyrir stuttu gaf hún þeim sjónvarp, sem þær nota að vísu sjaldan, það er helst að þær leigi vel valið efni á bókasafninu til þess að horfa á. Það þýðir ekkert að ræða Ófærð við þær frænkur og Facebook hafa þær báðar yfirgefið.
Dót er drasl
„Hanna frænka segir að dót sé drasl,“ segir Signý og við trúum því báðar að það sem við hugsum verði. En Hanna er búin að hugsa svo
mikið um það að sófinn hennar sé drasl að við sitjum hérna uppi með draslsófa, Chesterfield eftirlíkingu sem er með gati og alveg við það
að detta í sundur. Mig vantar ekkert meira dót. Ég vil bara ná heilsu og fara að vinna,“ segir Signý.

Framfærsla hjá Signýju síðustu mánuði:
Desember
Signý fékk 240 þúsund krónur greiddar frá endurhæfingarlífeyrissjóðnum (meðlag innifalið) og 50 Þúsund krónur fyrir 20% vinnu sína á frístundarheimilinu.
Samtals 290 þúsund krónur.
Janúar
Signý fékk ekki endurhæfingarlífeyri og er í miðju umsóknarferli um örokubætur. Hún fékk meðlag með Mábil, 29 þúsund krónur og 50 þúsund krónur í laun. Janúar var mjög erfiður.
Samtals 79 þúsund kr. til þess að framfleyta sér.
Febrúar
Signý fékk reiknaðar bætur úr lífeyrissjóðnum sínum, örorkugreiðslur upp á 7 þúsund krónur á mánuði. Lífeyrissjóðurinn greiddi henni 130 þúsund krónur aftur í tímann. Þar að auki fékk hún laun og meðlag. Hún var semsagt í góðum málum í febrúar.
Samtals 209 þúsund krónur
Mars
Signý fékk 7 þúsund krónur frá lífeyrisjóðnum, 29 þúsund kr. í meðlag og launin sín hjá Reykjavíkurborg, 50 þúsund krónur.
Samtals 86 þúsund krónur.
The post Úr góðærishöll á hermannabedda appeared first on Fréttatíminn.