Hjallastefnan ætlar að breyta um stefnu og mun framvegis einbeita sér að yngstu börnunum en hætta skólastarfi fyrir eldri en níu ára börn. Boðið verður upp á leikskóla fyrir níu mánaða börn í Reykjavík Garðabæ og Hafnarfirði, en foreldrar barna á miðstigi þurfa að leita annað.
„Ég er búin að vera í skólastarfi fyrir börn í 40 ár og aldrei heyrt annað orð en niðurskurður,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar. Hún er tekin við sem framkvæmdastjóri í kjölfar fjárhagserfiðleika og endurskipulagningar fyrirtækisins. Ný stjórn tók við keflinu á aðalfundi félagsins en formaður hennar er Þórdís Sigurðardóttir.
Hjallastefnan tapaði 187 milljónum króna á síðasta skólaári sem er talsverð breyting frá skólaárinu 2013-2014 þegar félagið hagnaðist um 42 milljónir króna. Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, á 79,7 prósent hlutafjár í fyrirtækinu en hluthafar eru alls 19.
Hjallastefnan lagði niður miðstigið í Reykjavík í fyrravor og í vetur á Vífilsstöðum. Miðstigið í Hafnarfirði hefur verið á tilraunastigi en nú hefur verið tekin ákvörðun um að hætta því líka. „Þetta er mikil stefnubreyting en við ætlum í framtíðinni að einbeita okkur að yngstu börnunum,“ segir Margrét Pála. „Mér finnst þetta persónulega mjög erfitt og sárt gagnvart börnum og foreldrum. Ég grét eins og barn við skólaslitin. Það er held ég í eina skiptið sem ég hef grátið opinberlega.“
Margrét Pála segir að fjárhagsmál fyrirtækisins séu flókin, meðal annars vegna samninga við sveitarfélög og lögbundin framlög til skólanna. „Við viljum ekki mæta þessu með hærri skólagjöldum, en það er óhjákvæmilegt að bregðast við miklum niðurskurði til leik- og grunnskólanna,“ segir Margrét Pála og segir það afar sársaukafullt og það séu ekki allir sáttir. „Meira að segja ég verð stundum að gefast upp.“
Margrét Pála er þó ekki búin að leggja árar í bát. Hún segir að nú verði róið á ný mið, nú sé ætlunin að skapa valkost fyrir foreldra sem eru að bíða eftir leikskóla. Hjallastefnan ætli framvegis að bjóða upp á leikskólavist fyrir níu mánaða börn í Reykjavík og Hafnarfirði en það hefur ekki verið í boði nema hjá Hjallastefnunni í Garðabæ. „Við ætlum semsagt að einbeita okkur að aldrinum 6 mánaða til 9 ára, og ég taldi rétt að eigandinn og stofnandinn stæði í brúnni þegar verður alger stefnubreyting. Stjórnin fór í góðri sátt og vináttu og við erum að fá fleira skólafólk í lið með okkur og þrátt fyrir allt er ég glöð og bjartsýn á að við náum markmiðunum.“
Þrátt fyrir erfiðleikana hyggur Hjallastefnan á uppbyggingu í Reykjavík. Hún hafði fengið úthlutað lóð í Fossvogi til að reisa nýjan skóla en íbúarnir settu sig upp á móti því. „Ég tel að íbúarnir eigi að ráða þessu og borgin ætlar að aðstoða okkur við að finna annan stað,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir.
The post Margrét Pála grét eins og barn við skólaslitin – Hjallastefnan hættir skólastarfi fyrir eldri en 9 ára appeared first on Fréttatíminn.