Natthawatt Voramool ætlaði að stoppa stutt á Íslandi fyrir tíu árum en varð ástfanginn, gifti sig og rekur í dag feikivinsælan veitingastað, Ban Kúnn í Hafnarfirði.
„Ég er fæddur og alinn upp í Tælandi þar sem fjölskyldan mín rak veitingastað, svo ég vann sem kokkur áður en ég flutti til Íslands,“ segir Natthawatt Voramool sem kom hingað í fyrsta sinn sem ferðamaður með fjölskyldu sinni fyrir tíu árum. Ferðin reyndist örlagarík. „Ég hitti Svavar á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur í þessari ferð og í dag erum við giftir,“ segir Natthawatt og hlær. „Ég er hér fyrir ástina.“
„Við búum í Hafnarfirði og til að byrja með vann ég við að sjá um gamalt fólk á Hrafnistu. Ég var alltaf að elda tælenskan mat heima og vinir Svavars sem komu í heimsókn voru alltaf að hæla mér fyrir matinn,“ segir Natthawatt. Vinsældir réttanna hans jukust jafnt og þétt og fyrr en varði var hann farinn að sinna pöntunum fyrir veislur og fyrirtæki. „Ég ákvað að ég skyldi opna stað eftir þrjú ár og byrjaði að undirbúa það smátt og smátt. Ég er ekki mjög hrifinn af því að taka svona stóra ákvörðun í einu skrefi. Ég safnaði hlutum í eldhúsið, í skreytingar, flísar og ýmislegt sem þurfti og eftir þrjú ár var ég kominn með gott safn. Svo opnuðum við Svavar Ban Kúnn, sem þýðir heimili á tælensku, hér á Völlunum fyrir tveimur árum.“

Hróður eldamennsku Natthawatt hefur borist langt út fyrir Hafnarfjörð en samkvæmt heimildum blaðamanns gerir fólk sér ferð úr Reykjavík og Mosfellsbæ til að bragða réttina sem allir eru eldaðir frá grunni. „Í tælenskri matargerð er mikilvægt að nota rétt krydd og að hráefnið sé ferskt, aldrei neitt frosið. Ég kaupi kjúklinginn frá íslenskum framleiðanda og nautakjötið fæ ég allt hér í Fjarðarkaupum. En það sem er sérstakt við matinn hjá okkur er að við eldum hann frá hjartanu. Sumir elda bara og elda en leggja ekkert í eldamennskuna. Að elda mat er að gefa öðrum hluta af sér, þess vegna verður maður að gera það vel.“
Eftir að staðurinn tók yfir mestan hans tíma eldar Natthawatt sífellt minna heima hjá sér en oftast verður þó tælenskt fyrir valinu. „Ef mig langar í íslenskan mat þá bið ég Svavar um að elda fyrir mig. Mér finnst allur íslenskur matur góður, allt nema skata.“
Eggjanúðlur fyrir fjóra
1 pakki eggjanúðlur (400 g)
4 egg
480 g kjöt að eigin vali (t.d. kjúklingur, nautakjöt, svínakjöt eða rækjur)
Blandað grænmeti að eigin vali (t.d. hvítkál, blómkál, gulrætur, brokkolí eða vorlauk)
2 msk sykur
1 tsk salt
2 msk ostrusósa eða soya sósa (ostrusósa passar betur og fæst í öllum tælenskum og asískum búðum)
150 ml vatn með kjötkrafti
4 msk olía til steikingar
Sjóðið eggjanúðlur í 5-6 mínútur. Skolið vel upp úr köldu vatni þegar þær eru tilbúnar og sigtið allt vatn í burtu.
Steikið kjöt á pönnu upp úr olíu. Takið kjötið af pönnunni þegar það er tilbúið og steikið egg. Þegar eggin eru tilbúin bætið þá kjötinu við og blandið saman.
Bætið vatni með kjötkrafti út í. Bætið við sykri og salti og annaðhvort ostrusósu eða soya. Blandið vel saman og bætið núðlunum við og blandið aftur saman. Að lokum er grænmetinu bætt við, blandað í 1-2 mínútur og þá er rétturinn tilbúinn.
The post Á Íslandi fyrir ástina appeared first on Fréttatíminn.