Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ómögulegt að hjálpa íslenskri tungu

$
0
0

Árnastofnun krafðist þess að vefsíðan tala.is sem forritarinn David Blurtin varði hundrað klukkustundum í að smíða, yrði tekin niður. Markmið síðunnar var að auðvelda honum og öðrum útlendingum að læra íslensku. Fleiri hafa rekist á sömu hindranir við að gera málfræðiupplýsingar aðgengilegar á netinu.

David Blurton gerði vefsíðuna tala.is sem þjónaði svipuðum tilgangi og vefsíða Stofnunar Árna Magnússonar, Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. Hægt var að fletta upp íslenskum orðum og sjá beygingarmyndir þess. „Ég vildi kenna sjálfum mér íslensku og var orðinn þreyttur á vefsíðunni þeirra. Hún er ekki notendavæn og öll á íslensku. Ég ákvað því að smíða tala.is með málfræðigögnum stofnunarinnar, sem eru opin öllum enda kostuð af skattgreiðendum. Síðuna gerði ég með þarfir einstaklings sem vill læra íslensku í huga, notendavæna og einfalda.“

Skjáskot af vefsíðu David tala.is
Skjáskot af vefsíðu David tala.is

Þegar vefsíðan tala.is fór í loftið fékk hún góðar viðtökur, samkvæmt David. Í síðustu viku fékk hann símhringingu frá Kristínu Bjarnadóttur, ritstjóra Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls hjá stofnun Árna Magnússonar, og hann beðinn um að taka síðuna niður vegna brots á skilmálum. Brotið fólst í því að sérstakar málfræðilega athugasemdir verða að fylgja ákveðnum íslenskum orðum. Þessar athugasemdir eru þó ekki aðgengilegar almenningi til endurbirtingar og því ómögulegt að nota gögnin undir núverandi skilmálum. „Þau segja athugasemdirnar vera „verk í vinnslu“. Lifandi tungumál er stöðugt verk í vinnslu og úrelt hugsun að gögnin geti ekki nýst þó þau séu ekki fullkomin. Í stuttu máli, þá má ég ekki gera heimasíðu sem birtir fleirtölu orðsins hestur því gögnin eru í þeirra eigu.“

David segir ritstjóra Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls áhugalausa um verkefni sitt og ekki tilbúna til þess að endurskoða skilmálana. „Þetta er mikil synd því það er hægt að nýta gagnagrunninn í margt skemmtilegt og uppbyggilegt. Ég skil ekki hvers vegna almenningur má ekki njóta góðs af því sem hann er að borga fyrir, sérstaklega í allri umræðunni um útrýmingarhættu tungumálsins.“

David sá fyrir sér að þróa vefsíðuna áfram og þýða hana yfir á fleiri tungumál, pólsku og spænsku. „Ég var búinn að þróa uppfærslu svo hægt væri að fá upp rétta beygingu tveggja orða. „Íslensk hestur“ yrði „íslenski hesturinn“, eitthvað sem er einna flóknast við íslenska tungu.“

Verkfræðingurinn Sverrir Á. Berg hefur sömu sögu að segja í samskiptum við stofnun Árna Magnússonar. Árið 2011 var hann atvinnulaus en áður starfaði hann hjá Google. „Eitt af því sem mér hefur alltaf þótt vanta er íslensk stafsetningarleiðrétting í internet vafra. Ég ætlaði að gefa vinnu mína og byggja upp gott leiðréttingakerfi. Ég þurfti sérstakt leyfi frá Stofnun Árna Magnússonar vegna takmarkana þeirra á notendaleyfi gagna.“

Sverrir hafði samband við starfsmenn innan stofnunarinnar sem sýndu verkefninu áhuga í fyrstu en sáu sér ekki fært um að breyta skilmálunum. „Þegar öllu er á botninn er hvolft hafa þau engan áhuga á að leyfa öðrum, utan rannsókna háskólans, að notast við þeirra gögn. Íslenska ríkið ætti að taka sig til og hreinsa þessi leyfismál, leyfa opinn aðgang að orðabókinni og gagnagrunni Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls.“

Samkvæmt rannsóknum META-NET er íslenska í næstmestri hættu á „stafrænum dauða“ af þeim 30 evrópsku tungumálum sem voru tekin til rannsóknar. Kristín Bjarnadóttir, ritstjóri BÍN, Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls, vildi ekki svara spurningum Fréttatímans um hvort vefsíða Davids væri íslenskri tungu til framdráttar.

Ný viðbrög Árnastofnunar: „Við leysum þetta mál“

svanhildur@frettatiminn.is

The post Ómögulegt að hjálpa íslenskri tungu appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652