Hæfileg blanda af kæruleysi og umhyggju er það sem einkennir góðan föður, að mati vinanna Ívars, Davíðs og Þórhalls, en þeir voru nokkrir þeirra feðra sem Fréttatíminn hitti til að ræða föðurhlutverkið og stöðu þess. Þeir eru sammála um að þeirra sambönd við sína eigin feður séu góð en að næsta kynslóð muni sennilega eiga nánara samband, því í dag taki feður meiri þátt í lífi barna sinna. Að vera faðir í dag er nefnilega allt annað en það var áður, eða líkt og Garðar, faðir og afi, segir um sinn föður; „hann var karlinn sem kom stundum og svaf heima.“
Samfélagið tók ótrúlegum breytingum þegar konur byrjuðu að streyma út á vinnumarkaðinn. Sprungur mynduðust í hefðbundin kynjahlutverk, hlutverk sem höfðu verið meitluð í stein og haldið uppi verkaskiptingu sem enginn nema lítill og skrítinn minnihluti skoraðist undan. Sprungurnar hafa brotið gömlu kerfin ansi hratt í stóra samhenginu og byltingin hefur alið af sér nýja kynslóð feðra sem streymir inn á heimilin. Þetta eru feður sem vilja vinna minna og taka meiri þátt í uppeldi barna sinna. Eitt sinn var talið að foreldrar ættu að vera andstæður sem bættu hvort annað upp. Að börn þyrftu eina sterka karlfyrirmynd sem beitti aga og aðra fyrirmynd sem væri hin umhyggjusama móðir. Í dag vitum við að börn þurfa fyrst og fremst ást og umhyggju til að vaxa og dafna sem heilbrigðir einstaklingar, en ekki fullkomið jafnvægi karlmennsku og kvenmennsku, sem eru auðvitað úrelt hugtök hvort sem er. Í dag hafa strákar leyfi til að vera umhyggjusamir verndarar og stelpur leyfi til að vera það ekki. Og í dag fá foreldrar á Íslandi blessunarlega leyfi til að vera allskonar.
Faðirinn sem hjálparmamma
„Það er alveg ljóst að hugmyndir fólks og feðra sjálfra um það hvað felist í því að vera faðir hafa breyst mikið,“ segir Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði við HÍ á sviði karlafræði, fæðingarorlofs og jafnréttismála. „Þetta var róleg þróun, konur fóru fyrst í hlutastörf sem gátu samræmst móður- og húsmóðurhlutverkinu og á sama tíma varð samfélagsvæðing alls barnauppeldis. Það að vera virkt foreldri í dag hefur allt aðra merkingu en það hafði þá. Í raun og veru hefur mörgum hefðbundnum fjölskyldustörfum verið úthýst í dag. Feður eru meira í umönnun barna í dag en það er samt ekki nærri því jafn tímafrekt starf og starf móðurinnar var áður. Bækur um uppeldismál fram að sjöunda áratugnum nefna föðurinn yfirleitt ekki, nema kannski sem aðstoðarmenn þegar kemur að ögunarmálum eða heimanámi, svona hjálparmömmur, en á tíunda áratugunum fer hlutverkið að verða sjálfstæðara og miklu nær hinu hefðbundna móðurhlutverki.
Rannsóknir í dag, líka á Íslandi, sýna að þegar ungir karlmenn eru spurðir út í karlmennsku og hvaða merkingu þeir leggi í það hugtak, að þá er hinn umhyggjusami faðir alltaf hluti af því. Það var byrjað að leggja grunninn að þessum breytingum á níunda áratugnum en stóra stökkið kemur klárlega með fæðingarorlofslögunum.“

Leita ráða á you-tube
Vinirnir Ívar, Davíð og Þórhallur eru sammála um að föðurhlutverkið hafi hingað til verið mikill tilfinningarússibani en fyrst og fremst hafi það komið þeim á óvart hversu ótrúlega gefandi hlutverkið sé.
„Þetta er í alvöru skemmtilegasta hlutverk sem ég hef upplifað,“ segir Þórhallur og vinirnir taka undir. Þeir reyna að hittast reglulega með börnin og þegar blaðamann ber að garði sitja þeir með kaffi við borðstofuborðið á meðan stelpurnar þeirra leika sér á gólfinu.
„Mömmurnar vita náttúrulega allt svo það er hægt að fá góð ráð hjá þeim en það eru samt 25 ár síðan mamma var í sömu sporum og ég,“ segir Ívar þegar uppeldisráð bera á góma. „Ég leita langmest til vina minna sem voru aðeins á undan mér í þessu. Það er fínt að spyrja þá út í hvað sem er. Svo er auðvitað hægt að spyrja að flest öllu á heilsugæslunni.“
„Við notum bara mest you-tube,“ segir Davíð og allir skella upp úr. „Nei, í alvöru, það er hægt að fá upplýsingar um næstum allt á you-tube en ég hringi samt líka í mömmu.“
Þeir segjast aldrei hafa spurt feður sína ráða varðandi uppeldið. „Nei, þeir hafa aldrei skipta á bleiu og kunna það ekki enn,“ segir Davíð. „En það var náttúrlega bara þannig þá. Ég held að pabbi hafi alveg viljað taka þátt en það var bara allt annar tíðarandi í gangi.“
Íslenskir feður fá hlutfallslega lengsta orlofið
Fjölskyldustefna er þær aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem taka mið af þörfum fjölskyldunnar og eitt af yfirlýstum markmiðum stefnunnar er að koma á jafnri ábyrgð foreldra í barnauppeldi, umönnun og heimilishaldi. Annað markmið er að samræma fjölskyldu og atvinnulíf. Hér á landi er stuðningur ekki jafn mikill og á hinum Norðurlöndunum þegar kemur að umönnun fyrir börn sem eru þriggja ára og yngri og fæðingarorlofið er styttra hér en á hinum Norðurlöndunum. Við erum aftur á móti fremst meðal jafningja þegar kemur að orlofi feðra því þrátt fyrir að heildarlengd fæðingarorlofsins sé styttra á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum fá íslenskir feður hlutfallslega lengstan tíma. Rannsóknir sýna að fæðingarorlof feðra hefur haft gífurlega áhrif á hlutdeild þeirra í uppeldi barna sinna og þar með á gamalgrónar staðalmyndir. Rannsóknir hafa líka sýnt að feður sem taka fæðingarorlof taka meiri þátt í lífi barna sinna en þeir feður sem ekki taka fæðingarorlof.

Kynbundinn launamunur heldur feðrum niðri
Framan af var erfiðara fyrir karla en konur að samræma atvinnu og uppeldi, en það hefur líka breyst með tilkomu fæðingarorlofs. Viðhorfskannanir meðal atvinnurekenda sýna þó að enn er töluvert erfiðara fyrir feður en mæður að nýta sameiginlega réttinn, sem sýnir að sú hugmynd að feður séu aðstoðarmæður er enn til staðar. Ingólfur er með svör á reiðum höndum varðandi þann vanda. „Alþingi þyrfti að taka sig saman í andlitinu og endurvekja samþykkt sína frá því í desember 2012, þegar tekin var ákvörðun um það að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og skipta því í 5 fyrir móður, 5 fyrir föður og 2 til að deila, og svo hækka greiðslurnar upp í það sem þær voru fyrir 2008. Og svo þarf leikskólinn að taka fyrr við börnunum en hann gerir í dag. Þá myndum við sjá verulega stórt stökk í þessu.“
„Annað sem heldur feðrum niðri er kynbundinn launamunur. Það bítur hvað í annars skott á því sviði. Um það bil fjórðung af kynbundnum launamun má skýra með því hvað fæðing barns hefur mismunandi áhrif á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Mömmurnar eru lengur heima meðal annars af því það borgar sig fjárhagslega og þannig er þessum mun viðhaldið.“

Barnið á rétt á að kynnast báðum foreldrum
„Mér finnst númer eitt, tvö og þrjú vera réttur barnsins til að kynnast báðum foreldrum sínum,“ segir Ívar. „Það er barnið sem er aðalatriðið hér en ekki foreldrarnir. Og lögin eiga að endurspegla þennan rétt barnsins. Öll börn eiga að eiga jafnt aðgengi að föður og móður. Mér fannst fæðingarorlofið frábær tími en mér finnst líka að dóttir mín hafi átt rétt á honum.“
Þórhallur og Davíð eru sammála því og taka undir hversu gott það hafi verið að geta verið frá vinnu til að tengjast barninu. Nú séu þeir með jafn einfalda hluti á hreinu og að vita hvar snuddurnar og bleiurnar séu og hvernig best sé að klæða barnið. „Það sem ég man mest frá orlofinu er að það var ekkert, nákvæmlega ekki neitt, annað hægt að gera. Og ég held að það erfiðasta við orlofið hafi verið þegar maður fékk samviskubit yfir því að vilja gera eitthvað annað en að vera með barninu,“ segir Þórhallur.
„Maður hefur náttúrulega ekki hugmynd um hvað maður er að gera en maður lærir það bara á leiðinni,“ segir Davíð.
Aðspurðir um samband sitt við sína eigin feður segja þeir það vera gott. „Ég held samt að næsta kynslóð eigi eftir að tengjast föðurnum fyrr en við, einfaldlega því í dag taka feður miklu meiri þátt,“ segir Ívar.
„Ég hefði persónulega viljað taka mun lengra orlof en fjárhagslega gátum við bara leyft okkur að ég tæki einn mánuð,“ segir Þórhallur.
Staðalmyndir hamla mæðrum frekar en feðrum
Allt bendir til þess að ungir menn í dag líti á það sem sjálfsagðan hlut að vera umhyggjusamur faðir og fæstum finnst hlutverkið vera skerðing að ímynd karlmennskunnar, þvert á móti sýna rannsóknir að ungum karlmönnum í dag finnst felast mikið frelsi í því að geta leyft sér að vera faðir. Ferðalag karlmanna inn á heimilin hefur fengið athygli í seinni tíð en þó ekki jafn mikla athygli og krísa karlmannsins og hversu erfitt það hafi reynst mörgum þeirra að laga sig að nýjum veruleika og stíga úr hlutverki þess sem sér heimilinu farborða. En Ingólfur telur unga feður ekki vera jafn fjötraða í staðalmyndir og forfeður sína. Hann telur kreppu karlmannsins liðna á Norðurlöndum og aðrir viðmælendur taka undir það.
„Reynslan hefur sýnt okkur að skaffarahlutverkið er ekki innprentað í genasamhengið heldur lærum við það af reynslunni. Ég hef ekki orðið var við annað en að körlum líði bara ljómandi vel með þessar breytingar og í rannsóknum tala allir feður um það hvað það skipti miklu máli að tengjast barninu sínu, þeir vilja gera þetta aftur og helst vera lengur í orlofi.“
„Mínar rannsóknir hérlendis sýna það sama og rannsóknir erlendis sýna, þ.e. að mæður sem „leyfa“ pöbbunum að nýta sameiginlega réttinn til orlofs fá að heyra það að svona geri ekki góðar mæður. Staðalmyndir eru því miklu frekar að hamla konunum en körlunum á þessu sviði, því feðurnir finna ekki fyrir neinni neikvæðni í sinn garð þó þeir séu heima með börnunum. Karlmennskan virðist því vera miklu sveigjanlegri en kvenleikinn á þessu sviði. Bæði var búið að grafa undan hinni hefðbundnu karlmennsku sem fólst í skaffarahlutverkinu en svo er varla nokkuð jafn lofað í okkar menningu og móðurhlutverkið.“

Karlar og hormón
Við höfum lengi vitað að hormón sem undirbúa mæður fyrir móðurhlutverkið yfirtaka líkama kvenna á meðgöngu en nýjar rannsóknir sýna að það verða ekki ósvipaðar breytingar hjá körlum sem eru að verða pabbar. Testesterónið minnkar og hormón sem ýta undir tengslamyndun aukast á meðgöngunni. Þannig að á meðan karlinn er óléttur í kollinum þá undirbýr skrokkurinn hann fyrir föðurhlutverkið. Ingólfur bendir á að mjög áhugavert væri að skoða þessar niðurstöður frekar á Íslandi, fylgjast með því hvort breytingarnar endist eftir því hversu virkir menn eru. „Þessar rannsóknir afbaka þær hugmyndir að kynin hafi náttúrulega mismunandi hlutverk þegar kemur að fjölskyldunni, að allir karlar vilji veiða á meðan konan sé heima að sjá um heimilið. Ef það væri þannig þá ætti testesterónið að aukast,“ segir Ingólfur.
Vinirnir Ívar, Davíð og Þórhallur segja þessi vísindi ekki koma sér á óvart. „Bara við að fá fréttir af óléttunni fer líkaminn pottþétt að framleiða einhver efni, það er alveg á hreinu,“ segir Ívar. „Ég hef líka heyrt að feður vilja oftast fá að vita kynið til að fá meiri tengingu við barnið. Móðirin fær að ganga með barnið en við feðurnir höfum bara ímyndunaraflið svo ég held að við nálgumst raunveruleikann aðeins meira með því að vita kynið.“
Að lokum velta vinirnir fyrir sér hvað það þýði að vera góður pabbi.
„Þegar stórt er spurt,“ segir Davíð og frekari íhugun tekur við. „Ég held það sé bara hæfileg blanda af kæruleysi og umhyggju,“ segir Þórhallur. „Já, ég er sammála því,“ segir Davíð. „Að vera alltaf til staðar þegar barnið þarf á okkur að halda en ekki gleyma því að vera kærulaus.“
Íslenskir pabbar bestir í heimi.
Skýrsla um alþjóðlegu rannsóknina Heilsa og lífskjör skólabarna kom út þann 14. mars síðastliðinn. Skýrslan er unnin á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og nær til 220 þúsund barna á aldrinum ellefu, þrettán og fimmtán ára í 42 löndum í Evrópu og Norður Ameríku. Háskólinn á Akureyri lagði spurningalista fyrir um tólf þúsund íslensk börn fjórða hvert ár frá aldamótum og reyndust íslensk ungmenni af báðum kynjum og í öllum þremur aldurshópunum meta samskipti sín við feður jákvæðari en börn í öðrum löndum.
Árgangarnir sem rannsóknin nær til nú eru fyrstu árgangarnir sem nutu góðs af breytingu á foreldraorlofi sem jók rétt feðra.
„Nýjar rannsóknarniðurstöður frá Ársæli Arnarsyni og hans samstarfsfólki sýna að íslensk börn eru í sérlega góðu sambandi við feður sína en mín gögn sýna að það er stærra bil á milli kynjanna þegar kemur að umönnun fjölskyldumeðlima en í nokkru öðru. Þannig að feður eiga nokkuð langt í land með að taka jafn mikla ábyrgð á börnum sínum og mæðurnar gera,“ segir Þóra Kristín Þórsdóttir, félagsfræðingur.
Saga fæðingarorlofs:
-1946 Mæður fengu 3 mánaða leyfi frá vinnu og bætur sem voru háðar fjárhag eiginmanns, væru þær giftar.
-1954 Mæður hjá hinu opinbera fengu greitt fæðingarorlof í 3 mánuði.
-1975 Allar útivinnandi mæður fengu rétt á fæðingarorlofi í 3 mánuði og allar mæður sem höfðu verið skráðar í vinnu fyrir fæðingu fengu greitt þriggja mánaða fæðingarorlof eftir fæðingu barns.
-1980 Allar mæður fengu rétt á greiðslum frá ríkinu í 3 mánuði vegna barnsburðar og hægt var að úthluta einum mánuði til feðra.
-1990 Fæðingarorlof mæðra lengt í 6 mánuði.
-1998 Feður fengu rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi.
-2000 Orlofið varð þrískipt: móðir og faðir fengu þrjá mánuði hvort og svo aðra þrjá sem þau gátu skipt á milli sín.
-2012 Frumvarp til laga um að lengja orlofið í 5 mánuði fyrir feður, 5 fyrir mæður og tvo sem þau geta skipt á milli sín.

Fleiri viðtöl um föðurhlutverkið:



Ekki lengur í boði að vera pabbinn á kantinum


Spenntur fyrir föðurhlutverkinu
The post Föðurhlutverkið – „Maður lærir það á leiðinni“ appeared first on Fréttatíminn.