Árnastofnun hefur tekið skref í átt til forritarans David Blurton sem varði hundrað klukkustundum í að smíða vefinn tala.is. Vefurinn liggur þó enn niðri að óskum stofnunarinnar. David spyr: „Hvers vegna er ekki gerð krafa á að ríkisstofnanir geri rannsóknir sínar og gögn, kostuð af almannafé, opinber almenningi?“
Helgi Hrafn, þingmaður Pírata, segir það gamaldags hugarfar að beita takmörkunum til að auka framleiðslu, líkt og í tilfelli Árnastofnunar og hugbúnaðargeirans. „Ef íslensk tunga á að lifa 21. öldina þurfa öll gögn tengd máltækni, sem eru fjármögnuð af skattgreiðendum, að vera aðgengileg og ókeypis. Ég óttast það að gjaldtaka og skilmálar séu það sem munu kála henni á endanum,“
Fréttatíminn greindi í síðustu viku frá máli David Blurton sem varði hundrað klukkustundum í að smíða vefinn tala.is með gögnum frá Árnastofnun en stofnunin krafðist þess að síðan yrði tekin niður. Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, brást við og lofaði sáttum í málinu og sagði fráleitt að hindra menn í vinnu sem vilji efla íslenska tungu. „Gögnin ættu að nýtast þeim sem vilja, enda unnin fyrir almannafé.“
Helgi Hrafn segir það ætti að teljast til grundvallarreglu að gögn og hugbúnaður fjármagnaður af ríkinu skuli tilheyra almenningi undir frjálsu leyfi, líkt og í Bandaríkjunum. „Það er ekkert tæknilega flókið við það heldur er þetta spurning um að taka ákvörðun.“
Guðrún Nordal greindi frá sinni sýn á málinu í Fréttablaðinu á miðvikudaginn. Hún sagði stofnunina ekki geta stuðlað að villandi framsetningu gagna, beygingardæmin væru mállýsing en ekki forskrift. „Ef nota á BÍN sem grunn að leiðbeiningum eða kennsluefni þarf að taka úrtak úr gögnunum sem sérsniðið er að þeim þörfum.“ Ákveðið var að gera úrtak við hæfi úr gagnagrunni Árnastofnunar sem verður tilraunaverkefni fyrst um sinn og seinna opið öllum.
David segir það skref í rétta átt en einblína þurfi á stóru myndina. „Það gleður mig að sett sé áhersla á að efla tungumálakennslu en ekki einungis rannsóknir á tungumálinu. Ég komst hinsvegar að því að setið er á fleiri mikilvægum gögnum. Gögn sem geta nýst almenningi en enginn þrýstingur er á að opinbera. Hvers vegna er ekki gerð krafa á að ríkisstofnanir geri rannsóknir sínar og gögn, kostuð af almannafé, opinber öllum? Hversu miklum tíma og peningum á að eyða í að endurgera vinnu sem aðrir hafa þegar unnið innan stofnunarinnar?“
The post „Gjaldtaka, boð og bönn munu kála íslenskri tungu“ appeared first on Fréttatíminn.