„Það var alltaf ég sem las fyrir þau á kvöldin og eyddi með þeim tíma eftir vinnu. Auðvitað er þetta rosalega sárt.“
Sjá frekari umfjöllun Fréttatímans um föðurhlutverkið.
Á Íslandi, líkt og annarsstaðar, hefur fjölskyldustefna stjórnvalda því færst úr því að vera byggð á módeli sem gerir ráð fyrir einni fyrirvinnu og öðrum uppalanda yfir í fjölskyldustefnu sem byggir á því að tveir einstaklingar sjái sameiginlega um uppeldi og fyrirvinnu.
Heimir Hilmisson félagsráðgjafi segir þó að þegar komi að börnum sem eigi foreldra á tveimur stöðum séu lög og reglur enn í miklu ósamræmi við yfirlýsta fjölskyldustefnu stjórnvalda. Sumir feður þurfi, því miður, enn að kenna á gamaldags hugsunarhætti og vanþróuðu kerfi. Heimir, sem hefur rannsakað sérstaklega upplifun feðra, sem ekki búa með börnum sínum, af kerfinu og skrifaði mastersritgerð um efnið árið 2014, segir upplifun feðranna vera þá að kerfið geri ráð fyrir því að faðir barns greiði meðlag og að barn búi hjá móður, annað fyrirkomulag sé ekki í boði. Kerfið líti þannig enn á feður fyrst og fremst sem fyrirvinnur frekar en uppalendur.
Feður enn séðir sem fyrirvinnur í kerfinu
„Á meðan foreldrar búa enn saman er gerð krafa um að mæður og feður sinni börnunum sínum saman en um leið og foreldrar búa ekki saman og mæta til sýslumanns vegna sameiginlegs forræðis er enn þetta viðhorf um að móðirin eigi að hugsa um börnin en faðirinn eigi að vinna,“ segir Heimir. „Í rannsókn minni talaði ég við feður, sem áttu eitt til þrjú börn. Reynsla þeirra af því að fara til sýslumanns var sú að ekkert annað kæmi til greina en að lögheimili færi til móður og að faðir greiddi meðlag. Einnig var upplifun feðranna af þessum fundum sú að samtalinu væri einungis beint til móðurinnar og að þeir hefðu í raun ekkert erindi á fund sýslumanns.“
Heimir telur vandamálið felast í því að of mikil ábyrgð sé sett á herðar of fárra aðila sem sjaldnast séu sérfróðir um hag fjölskyldna. „Við erum með fulltrúa sýslumanna sem taka stórar ákvarðanir um líf barna. Þeir eru með fína lögfræðimenntun en hafa enga þekkingu á því hverjar þarfir barnanna eru, né af fjölskyldukerfum. Þessar ákvarðanir byggja yfirleitt á einu eða tveimur viðtölum við foreldra og oftast er búið að ákveða niðurstöðuna áður, án þess að skoða aðstæður almennilega og án þess að ræða við börnin. Málin eru hreinlega ekki skoðuð nægilega. Það vantar að fleiri komi að borðinu.“
„Rosalega sárt“
Umgengnisforeldrar, sem langoftast eru feður, og fjölskyldur þeirra eiga oft erfitt með að sækja rétt sinn eða koma fram opinberlega af ótta við að missa það litla samband sem þeir hafa. Fréttatíminn ræddi við föður sem hefur upplifað þennan ótta. Hann vill ekki koma fram undir nafni, svo við köllum hann Jón.
Jón og barnsmóðir hans slitu samvistum þegar sonur þeirra var 6 ára og dóttir þeirra 3 ára. Þau deildu forræði en þar sem Jón hóf vinnu í öðru bæjarfélagi var ákveðið að börnin færu til hans þrjá daga aðra hverja viku. Síðan eru liðin fimm ár.
„Þetta var ekki góður skilnaður því hún var í tygjum við annan mann þegar ég fór. Ég var með börnin í þrjá daga aðra hverja helgi en þar sem hún djammar mikið um helgar þá var engin fyrirstaða að fá börnin flestar helgar. En við héldum áfram að rífast því við erum svo ótrúlega ólík og höfum allt aðrar hugmyndir um það hvernig við eigum að ala börnin upp. Til dæmis gengur syni okkar illa í skóla og við kennarinn hans vorum sammála um að hann þyrfti hjálp en til að fá hjálp þarftu fyrst greiningu og barnsmóðir mín er ekki sátt við það. Hún vill bara sem minnst afskipti frá mér í öllum málum og allt sem ég sting upp finnst henni slæmt.“
„Hún er partídýr sem sinnir börnunum eftir sinni hentisemi. Ég hringdi í börnin á mánudagskvöldi í haust og þá voru þau ein heima að elda sér mat og þá komst ég að því að svoleiðis er það oft. Ég missti mig og ákvað að hringja í barnavernd og lögregluna. Eftir það sprakk allt og í dag má ég ekki hitta börnin.“
„Ég hef ekki séð þau síðan um jólin og sameiginlegt forræði hefur ekkert um það að segja. Nú bíð ég bara eftir að sonur minn verði unglingur og taki ákvörðun um það sjálfur að flytja til mín. Ég hreinlega treysti kerfinu ekki til að taka mig til greina í þessu máli því mín fyrrverandi hefur ekki skitið nóg upp á bak til að missa forræðið. Ég þori ekki að rugga bátnum og missa það lita samband sem ég hef. Ég sakna þeirra auðvitað rosalega. Það var alltaf ég sem las fyrir þau á kvöldin og eyddi með þeim tíma eftir vinnu. Auðvitað er þetta rosalega sárt.“
The post Föðurhlutverkið – Feður sem treysta ekki kerfinu appeared first on Fréttatíminn.