Uppistandarinn, textasmiðurinn og magadansmærin Þórdís Nadia Semichat er stödd í lyftunni hans Spessa, ljósmyndara í gömlu Kassagerðinni á Laugarnesi. Á ferðalaginu upp fjórar hæðir hússins segir Nadia frá áfallinu þegar hún fylgdist með andlega veikum aðstandanda hóta að kasta sér fram af svölum með barn í fanginu.

„Á lokaárinu mínu við Listaháskólann upplifði ég mikla sorg og depurð. Einstaklingur sem er mér nákominn veiktist andlega. Í fyrstu fór hann að haga sér furðulega, með skrítnar samsæriskenningar, en á skömmum tíma ágerðist það verulega,“ segir Nadia.
Veikindi einstaklingsins höfðu djúpstæð áhrif á Nadiu en hún varði miklum tíma í að sannfæra hann um að leita sér hjálpar á geðdeild. „Það var barn í spilinu sem gerði þetta bæði flóknara og erfiðara. Veikindin náðu hátindi þegar hann læsti sig og barnið sitt inni og ætlaði að kasta sér fram af svölunum með það í höndunum.“
Kallað var til lögreglu og hafði einstaklingurinn þær ranghugmyndir að lögreglan ætlaði sér að drepa sig og barnið. „Ég var á staðnum og tókst einhvern veginn að ná barninu af honum áður en sérsveitin kom,“ lýsir Nadía með grátstafinn í kverkunum. „Hann var handtekinn fyrir framan okkur með látum og barnaverndarnefnd blandaði sér í málið. Þetta var gríðarlegt áfall sem kristallaðist þegar þáverandi kærastinn minn, sem ég var í fjarsambandi með, hætti með mér í gegnum tölvupóst. Mér leið eins og ég hefði misst þrjá einstaklinga á einum degi.“
Nadia segir námið hafa bjargað sér, að hafa verkefni fyrir stafni. „Ég var með svipuna á bakinu og ætlaði mér að útskrifast. Þegar maður upplifir slíka lægð er aðeins ein leið, upp.“ Nadia tók að semja uppistönd og fann sínar hæstu hæðir í því. „Uppistandið herðir mann gríðarlega og kennir manni að gefast ekki upp. Ég nota sögur úr eigin lífi og komst að því að hægt er að nýta erfiða reynslu í eitthvað jákvætt, uppbyggilegt og stundum fyndið.“
Sjá fleiri sögur úr lyftunni:









The post Notar harminn í uppistandið appeared first on Fréttatíminn.