Helena Albertsdóttir hefur alltaf verið viðloðandi pólitík þrátt fyrir að hafa tekið ákvörðun um það á sínum tíma að setja móðurhlutverkið í forgang. Helena ólst upp í Sjálfstæðisflokknum og tók virkan þátt í kosningabaráttu föður síns, Alberts Guðmundssonar, á níunda áratugnum. Hún hefur þó eytt stærstum hluta ævi sinnar í Tulsa, Oklahoma, þar sem hún hefur verið formaður og ritari kvennahreyfingar Repúblikanaflokksins. Hún hlakkar til að ráðast í baráttuna fyrir forsetakosningarnar og vonast til að Trump hljóti tilnefningu flokksins.

„Trump er sigurstranglegastur og mér líst ágætlega á hann,“ segir Helena Albertsdóttir, framkvæmdastjóri S. Joe’s Construction og virkur meðlimur í Repúblikanaflokknum í sínum heimabæ, Tulsa, Oklahoma. „Hann er umdeildur og hefur lent í miklum árásum en hann virðist standa þær allar af sér. Það er verið að bera hans baráttu saman við baráttu Reagans og hvernig látið var við hann. Það er mikill órói hér í Bandaríkjunum og fólk treystir ekki Washington en það virðist treysta Trump. Hann virðist hafa ákveðið „street smart“ og ná vel til fólksins. Það er mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu.“
Herforingi Hulduhersins
Helena hefur búið í Bandaríkjunum í rúmlega þrjátíu ár og unnið reglulega fyrir Repúblikanaflokkinn á þeim tíma. Hún hefur alltaf verið viðloðandi The Womens Republicans, kvennahreyfingu flokksins, var formaður þar í mörg ár auk þess að vera ritari hreyfingarinnar í tvö ár. Helena hefur þó ekki aðeins skipt sér af bandarískri pólitík því hún flutti heim til Íslands í nokkra mánuði á níunda áratugnum, til að taka þátt starfi Sjálfstæðisflokksins og síðar í kosningabaráttu föður síns, Alberts Guðmundssonar, bæði innan flokksins og síðar fyrir Borgaraflokkinn. Fyrir vikið var Helena oft kölluð herforingi Hulduhersins, sem var kosningamaskínan á bak við föður hennar. Þegar Albert vann í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins árið 1985 þakkaði hann dóttur sinni gott gengi sitt í baráttunni.


Byrjaði ung í Heimdalli
„Ég hef alltaf haft áhuga á stjórnmálum. Ég byrjaði ung í Heimdalli, þegar ég var fjórtán ára. Og með vini mínum, Ásgeiri Hannesi, fórum við að safna meira liði inn í Heimdall og svo bara þróaðist þetta með tímanum. En þegar maður á svona mörg börn þá verður maður að velja og hafna og ég valdi að hugsa um krakkana.“
„Ég kom nokkrum sinnum heim að vinna, tók þátt í kosningastarfi Borgaraflokksins og í öðrum kosningum inn á milli en bjó nú samt bara í nokkra mánuði á Íslandi,“ segir Helena sem varð ein umtalaðasta kona Reykjavíkur árið 1987, þrátt fyrir skamma stund á landinu. Á þeim tíma var mikil valdabarátta innan Sjálfstæðisflokksins sem varð til þess að Albert Guðmundsson klauf hann og stofnaði Borgaraflokkinn. Sigur Borgaraflokksins var sögulegur að því leyti að þetta var mesti þingstyrkur klofningsframboðs í Íslandssögunni og flestir eru sammála um að undraverður árangur flokksins hafi ekki síst verið kosningastjórn Helenu að þakka.
Fékk nóg af íslenskri pólitík
„Eftir Borgaraflokkinn ákvað ég að koma ekki nálægt íslenskri pólitík. Ég fékk nóg af henni en það var ekki bara þess vegna sem ég fór, það voru ýmis persónuleg atvik sem komu upp svo ég ákvað að þetta væri endirinn á Íslandi,“ segir Helena sem hefur fyrir löngu skotið rótum í Tulsa og hyggst ekki snúa aftur til Íslands. „Ég sakna ákveðins fólks á Íslandi en ég hef aldrei saknað þess að búa þar. Foreldrar mínir bjuggu erlendis þegar ég var að alast upp, á Ítalíu og í Frakklandi. Þau fluttu svo heim þegar ég var tíu ára, sem var ákveðið kúltúrsjokk fyrir mig. Ég fór svo í nám í Englandi svo ég hef aldrei búið lengi á Íslandi.“
„Mér leist svo vel á Tulsa þegar ég kom hingað fyrst fyrir 34 árum að heimsækja vinkonu mína. Ég ætlaði að flytja til Flórída en leist betur á Tulsa því ég átti fimm börn og þetta leit út fyrir að vera góður staður til að ala þau upp á. Hér er ofsalega fallegt, þetta er kallað „The Green Country“, hér er mikið um músík og menningu og að vissu leyti minnir borgin mig á London. Fólk er mjög vinalegt og hjálpsamt hérna enda er Oklahoma kallað „The Friendly State“,“ segir Helena sem hefur verið í byggingarbransanum í mörg ár, fyrst með fyrrverandi eiginmanna sinum, Þorvarði Mawby, en í dag rekur hún sitt eigið fyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu og leigu á húsnæði auk þess að starfa með dóttur sinni sem er lögfræðingur.
„Hér er ég með mitt líf og fyrirtæki og hér búa öll mín börn og barnabörn,“ segir Helena sem lenti í þeirri hryllilegu sorg að missa eitt barnabarna sinna, Hinrik Kristján Þórsson, í skotbardaga árið 2012. Hinrik var aðeins 18 ára gamall þegar hann var skotinn án minnsta tilefnis fyrir utan bensínstöð í Tulsa. Morðingi hans var dæmdur í lífstíðarfangelsi og segir Helena sár fjölskyldunnar vera að gróa, hægt og rólega, þó aldrei sé hægt að jafna sig almennilega á slíku sjokki. „Morðinginn náðist fljótt, sem betur fer. Þetta er stundum dálítið erfitt ennþá, sérstaklega fyrir litlu systur hans. En við verðum að horfa fram á við og njóta minninganna sem við áttum með honum.“
Fer í vinnu fyrir Trump
Helena segist munu halda áfram að fylgjast spennt með gangi mála í bandarísku forsetakosningunum. Framundan séu spennandi tímar og hún hlakki til að vinna fyrir Trump, nái hann kjöri. „Það er auðvitað allt betra en Hillary,“ segir Helena. „Trump er maður fólksins. Hann virðist vera heiðarlegur, hann talar máli fólksins og er tilbúinn að takast á við það. Hann er ekki undir þumlinum á neinum, hvorki fjárhagslega né á annan hátt og þess vegna hefur hann þetta mikla fylgi. Fólk treystir því að hann geri það sem hann er að segja. Þetta verður gaman og vinni hann verður næsta mál á dagskrá að leggja drög að baráttunni.“
The post Helena Albertsdóttir: „Trump er maður fólksins“ appeared first on Fréttatíminn.