Mál Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar varpar ljósi á veru íslenskra auðmanna meðal kröfuhafa í föllnu bankanna. En mál þeirra bendir einnig til þess að meðal þeirra sem bíða síðasta gjaldeyrisútboðs Seðlabankans séu Íslendingar sem hafa geymt fé sitt í aflandsfélögum.
Á árunum fyrir Hrun frestuðu margir Íslendinga, sem drógu arð upp úr fyrirtækjum sínum, skattskilum með því að endurfjárfesta í erlendum fyrirtækjum, og þá oft í skattaskjólum. Peningarnir voru þá sendir til Lúxemborgar þar sem Landsbankinn eða Kaupþing færðu þá undir fyrirtæki sem bankarnir keyptu á aflandssvæðum. Í sumum tilfellum voru peningarnir skildir eftir í útlöndum. Þess þekkjast dæmi að þeir hafi verið lánaðir til félaga á aflandseyjum og lánið síðan afskrifað. Það getur verið þrautinni þyngra að rekja spor þeirra eftir það.
En eins og Wintris-mál Sigmundar Davíðs sýnir var hluti af þessum peningum fluttur aftur heim. Sigmundur og Anna, kona hans, stofnuðu Wintris og fluttu mikla fjármuni með því til Tortóla. Þeir komu síðan aftur til Íslands þegar þau létu Wintris kaupa skuldabréf í bönkunum þremur. Frásögn þeirra hjóna er óljós en ætla má að þau hafi keypt skuldabréf fyrir um helming eða þriðjung af eignum félagsins. Óljóst er hvort það hafi verið þeirra ákvörðun eða hvort Landsbankinn stjórnaði fjárfestingunum í takt við fjárfestingastefnu sem þau settu. Þar sem skattur var ekki tekin af hagnaði erlendra félaga af skuldabréfaviðskiptum þessi árin en hagnaður af hlutabréfum erlendra félaga bar skatt er skiljanlegt að Wintris hafi fjárfest í skuldabréfum. Þetta hafa verið nokkurs konar vaxtamunaviðskipti. Eigendur Winstris hafa viljað hagnast af háum vöxtum og verðtryggingu á Íslandi.
Það er erfitt að ímynda sér að slíkt félag hafi einvörðungu fjárfest í skuldabréfum bankanna. Miðað við umfang félaga á borð við Wintris, það er félaga á aflandseyjum í eigu Íslendinga, má slá því föstu að slík félög hafi einnig fjárfest í ríkisskuldabréfum, skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og öðrum slíkum bréfum.
Með öðrum orðum er í raun fráleitt að gera ráð fyrir öðru en að aflandsfélög í eigu Íslendinga, og þar með félög sem stofnuð voru í kringum skattaundanskot, séu meðal þeirra erlendu aðila sem eiga skuldabréf og bankainnistæður, séu hluti hinnar svokölluðu snjóhengju. Og það er næstum ómögulegt að Wintris hafi verið hið eina þessara félaga sem gerði kröfur á bankanna vegna skuldabréfa sem þau keyptu.
Stjórnvöld hafa skilgreint snjóhengjuna sem forgangsmál varðandi höft auk slitabúanna. Mörkin voru sett við Hrun. Þeir Íslendingar sem höfðu flutt fjármuni út úr krónuhagkerfinu fyrir það voru undanþegnir skilaskyldu. Þá var litið svo á að þau erlendu félög sem áttu kröfur á slitabúin eða skuldabréf eða bankainnistæður á Íslandi ættu að fá að fara út úr krónunni áður en hægt væri að leggja af gjaldeyrishöft á allan almenning.
Wintris-mál forsætisráðherrans fyrrverandi hefur hins vegar dregið fram að þessi erlendu félög geta allt eins verið félög Íslendinga sem færðu fé sitt yfir í erlend félög til að fresta eða komast undan skattgreiðslum.
Þrátt fyrir þetta er það yfirlýst forgangsmál ríkisstjórnar og Seðlabanka að standa sem fyrst fyrir gjaldeyrisuppboði til að hleypa út restinni af snjóhengjunni. Með útboðum á undanförnum árum hefur Seðlabankinn þegar hleypt út um 160 milljörðum króna. Eftir eru tæplega 300 milljarðar króna.
Í ljósi uppljóstrana Panama-skjalanna, Wintris-málsins og þeirra gagna sem skattrannsóknarstjóri keypti er ljóst að stjórnvöld ættu að fara sér hægt í þessu máli. Seðlabankinn gefur engar upplýsingar um lögheimili þeirra sem eiga skuldabréf eða bankainnistæður í snjóhengjunni og hefur aldrei birt slíkan lista. Það hlýtur að koma fram krafa á næstunni um að það verði gert. Það er engin ástæða til að hleypa grunuðum skattsvikurum fram fyrir biðröð þeirra sem bíða eftir afléttingu gjaldeyrishafta.
The post Hringrás skattaundanskota strandaði á kröfuhafalista og í snjóhengjunni appeared first on Fréttatíminn.