Kennari í barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri fær ekki að mæta í skólann eftir að hafa sakað skólastjóra og tvo aðra starfsmenn um einelti. Útilokar ekki að leita til dómstóla ef sættir nást ekki. Ári eftir að málið kom upp heldur kennarinn enn stöðu sinni, en fær ekki að mæta til kennslu og engin laun.
Málið má rekja til ágreinings um kennslu tveggja nemenda með sérþarfir við skólann, þegar kennari tók niður myndræna stundaskrá af borðum nemenda og lét nægja að hafa hana á veggnum. Ágreiningurinn virtist lítill í upphafi en endaði með eineltiskvörtun kennarans og aðstoðarkennara, fyrst til skólastjóra sem tók kvartanir þeirra ekki alvarlega, og að lokum kennarans til fræðslustjóra. Í samtali við Fréttatímann segir kennarinn að ekki hafi verið tekið fagmannlega á kvörtun hennar hjá fræðslustjóra og hún hafi verið algjörlega útilokuð frá starfsmannahópnum í kjölfarið. Eineltið hafi því versnað eftir kvörtunina.
Fræðslustjórinn komst að þeirri niðurstöðu í júní 2015 að ásakanir um einelti væru ekki á rökum reistar. Frekar væri um faglegan ágreining að ræða sem kennarinn hafi túlkað á versta veg. Lögfræðingur konunnar segir hinsvegar að óeðlilegt eftirlit, baktal, yfirgangur og afskiptasemi lúti ekki að vinnutengdum skipulagsmálum og gerendur geti ekki skýlt sér á bak við það. Ennfremur er kvartað undan málsmeðferðinni og beðið um faglega úttekt á vinnustaðnum, en ekki hefur verið orðið við því.
Tæpu ári seinna hefur hún ekki enn fengið að snúa aftur til kennslu.
Lögfræðingur hennar hefur sent greinargerð til bæjaryfirvalda og krafist þess að hún fái að gegna stöðu sinni og gerð verði úttekt á málinu af þar til bærum aðilum. Síðan er eru liðnar fimm vikur en engin viðbrögð hafa enn borist. Auk þessa er gerð krafa um endurgreiðslu kostnaðar vegna málsins, bæði vegna vangoldinna launa frá því í desember í fyrra, kostnaðar við sálfræðiaðstoð, ferðalags sem kennaranum var meinað að fara í vegna málsins og lögfræðiaðstoðar.
Kennarinn segir í samtali við Fréttatímann að það virðist vera skoðun skólastjórnenda og fræðslustjóra að það sé alvarlegra mál að upplýsa um einelti en að verða fyrir því. Tilveran hafi farið á annan endann vegna málsins. Hún hafi lent í verulegum fjárhagsvanda, meðal annars misst leiguhúsnæði og sjái fram á að lenda á götunni ef ekki verði breyting á. Hún ætlar að höfða mál fyrir dómstólum til að ná fram rétti sinum ef sættir nást ekki.
The post Kennarinn kvartaði yfir einelti og fær ekki að mæta í skólann appeared first on Fréttatíminn.