Ferðamönnum í hvalaskoðun hefur stórfjölgað en hrefnu fer hinsvegar fækkandi. Hagsmunafólk í greininni er langþreytt á því að á sama tíma sé verið að veiða hrefnuna með tapi.
„Við höfum áhyggjur af mikilli fækkun hrefnu á Faxaflóa en hvalaskoðun er orðin mikilvæg atvinnugrein í borgarsamfélaginu og fjöldi fólks hefur atvinnu af greininni,“ segir María Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.
272 þúsund ferðamenn fóru í Hvalaskoðun árið 2015 með þrettán fyrirtækjum í greininni. Árið 2014 voru þeir 230 þúsund. Undanfarin ár lætur nærri að fjórðungur allra ferðamanna hafi farið í slíkar ferðir en fjöldinn eykst ár frá ári. Þetta kemur fram í nýrri samantekt sem fyrirtækið Deloitte vann fyrir Hvalaskoðunarsamtök Íslands.
Hrefnu á Faxaflóa er að fækka mikið á grunnslóðinni, samkvæmt tölum frá Hafrannsóknarstofnun. Hrefnan hefur fært sig á kaldari svæði og gerir það atvinnugreininni erfitt fyrir. María Björk segir að það skjóti skökku við að á sama tíma sé verið að halda úti hrefnuveiðum svo að segja með tapi og drepa þessar fáu skepnur sem eftir eru. Þetta fari afar illa saman, það séu ekki nema fjórar sjómílur, þegar minnst lætur, milli veiðimanna og ferðamanna en báðum sé þó illa við að hittast svo það gerist ekki.
Staðreynd: 230 þúsund manns fóru í skipulagðar hvalaskoðunarferðir 2014. 272 þúsund fóru í slíka ferð árið 2015.
Steingrímur J. Sigfússon skipaði í tíð sinni sem sjávarútvegsráðherra nefnd til að miðla málum milli hrefnuveiðimanna og hvalaskoðunarfólks. Úr varð áætlun um að stækka griðasvæðið á Faxaflóa, allt frá Garðskaga að Skóganesi á Snæfellsnesi. Sú áætlun var þó blásin af eftir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við. Nýr ráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur nú tekið við lyklavöldum í sjávarútvegsráðuneytinu en óskað hefur verið eftir fundi með honum til að ræða málið.
The post Fleiri ferðamenn skoða færri hrefnur appeared first on Fréttatíminn.