Á vef Reykjavíkurborgar er ekki að finna eina auglýsingu eftir starfsfólki í liðveislu eða eftir stuðningsfjölskyldum á meðan fagfólk bendir á að starfsmannaskortur sé ein helsta ástæða þess að ekki sé hægt að veita lögboðna þjónustu.
„Dæmi er um að mæður í endurhæfingu hafi verið 2-3 ár á biðlista eftir þjónustu fyrir börn sín sem glíma við ýmiskonar raskanir,“ segir Ingibjörg Flygenring, félagsráðgjafi á geðsviði Reykjalundar.
„Í sumum tilvikum dettur fólk út af vinnumarkaðnum vegna slíks álags,“ segir Þuríður Maggý Magnúsdóttir, yfirfélagsráðgjafi á Reykjalundi. „Kerfið tekur við og samþykkir umsóknir frá foreldrum en það vantar fólk til að sinna þjónustunni,“ segir Þuríður Maggý.
Margir foreldrar nenna ekki „að bíða og sjá“ og hafa aðstöðu til að útvega sjálfir starfsfólk fyrir borgina til að sjá um börn þeirra á meðan margir útlendingar og aðrir foreldrar sem hafa lítið eða ekkert stuðningsnet þurfa að treysta á skilvirkni kerfisins. Erla Björk Sveinbjörnsdóttir, iðjuþjálfi og sérkennsluráðgjafi á þjónustumiðstöð Vesturbæjar, segir að bið eftir þjónustu sé mismunandi eftir hverfum borgarinnar. Sum hverfi séu einfaldlega þyngri en önnur.
Ekki fengust svör við ástæðu þess, en þjónusta sem þessi flokkaðist ekki sem grunnþjónusta, nema að mjög litlu leyti.
Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs, segir að velferðarsviði hafi verið falið að gera myndbönd til að hvetja fólk til að gerast stuðningsfjölskyldur og til þess að veita liðveislu. Ekki sé um hefðbundnar ráðningar að ræða heldur eigi þjónustumiðstöðvarnar að sjá um að útvega fólk.
„Það hefur verið erfitt að fá fólk til starfa og þess vegna voru greiðslur hækkaðar á síðasta ári. Þetta fer ekki inn í hefðbundið ráðningarferli og mér skilst að það sé ástæðan fyrir því þessi störf séu ekki á vefnum,“ segir hún. Sigurbjörg Fjölnisdóttir á velferðarsviði sagði við Fréttatímann að það væri mikil vinna að auglýsa eftir fólki og lítið um viðbrögð. Og tölvukerfið sem sér um ráðningarkerfið hjá Reykjavíkurborg gæti ekki haldið utan um ráðningar á stuðningsfjölskyldum vegna þess að þær væru verktakar.
Valgerður Halldórsdóttir
ritstjorn@frettatiminn.is
The post Vantar fólk en auglýsa ekki appeared first on Fréttatíminn.