Sonur minn fór í fimm daga dvöl upp í Reykjaskóla í Hrútafirði í síðustu viku ásamt bekkjarfélögum sínum og krökkum úr tveimur öðrum skólum. Hann er þriðja barnið sem ég sendi í þessar skólabúðir, ekki af því að mér þyki börnin mín pirrandi og vilji hvíla mig á þeim í nokkra daga, heldur þvert á móti vegna þess að ég veit að það er fátt sem styrkir þau meira og gefur þeim meira sjálfstraust en að fara í svona ferð.
Að fara svona að heiman, 12-13 ára gamall, er ekkert lítið mál fyrir flesta krakka. Þau vinna að því allan veturinn að safna flöskum (passið ykkur á því, það getur verið pínlegt þegar þau mæta með heilu svörtu ruslapokana af rauðvínsflöskunum í skólann), halda skemmtikvöld og undirbúa sig á ýmsan hátt. Svo þegar þau koma á staðinn skemmta þau sér auðvitað konunglega.
Ég held reyndar að ég hafi ekki farið í nákvæmlega svona ferð sjálfur á þessum aldri. Við fórum í tveggja daga skíðaferð upp í Víkingsskála þegar ég var unglingur og það eina sem ég man er að við vorum látin sofa á dýnum á gólfinu í stórum sal og það var svakaleg táfýla í loftinu, í bland við þá svitalykt sem einkennir unglinga og ég man líka að þetta var stressandi en líka gaman. Og það er einmitt mergurinn málsins.
Við eigum það til að gleyma því að við fáum oft mest út úr því í lífinu sem við höfum mest fyrir, því sem veldur okkur mestum kvíða fyrirfram, því sem við eigum erfiðast með að gera, því sem við eigum erfiðast með að skilja. Þjóðfélagið miðast allt við að gera okkur, og um leið börnunum okkar, auðvelt fyrir. Það er auðvelt að kaupa í matinn, auðvelt að læra, auðvelt að vinna, auðvelt að komast yfir áföll og leiðindi. En á sama tíma sækjum við sífellt í það sem erfitt. Ég man til dæmis ekki eftir því að neinn vina minna hafi póstað mynd af sér á toppi Öskjuhlíðar í fjallgönguskóm með textanum: Sigraðist á Öskjuhlíðinni á auðveldan hátt! Á sama hátt man ég ekki eftir því að hafa séð fólk monta sig af því að hafa unnið aldraða foreldra sína í spretthlaupi eða börnin sín í sjómanni.
Við elskum áskoranir, erum alltaf að vinna að einhverju markmiði. Flestir sem ég þekki eru að vinna að því að grenna sig, styrkja sig, bjarga hjónabandinu, læra frönsku, borða hollari mat, hætta að reykja eða hreyfa sig meira. Aldrei hittir maður manneskju sem er ekki að keppa að neinu markmiði, er bara ánægð með það sem hún hefur og sátt við útlitið. Við köllum líka svoleiðis manneskjur metnaðarlausar og það þykir sko ekkert smart.
Algengasta svarið sem ég fæ þegar ég spyr fólk hvers vegna það hafi ákveðið að fara á námskeið hjá mér í uppistandi er ekki: Vegna þess að mig langaði svo mikið til þess. Heldur: Vegna þess að mig langaði að fara aðeins út fyrir þægindarammann. Hmm? Hvað þýðir það? Að gera eitthvað óþægilegt sem fólk getur svo verið ánægt með að hafa komist í gegnum, ekki satt? Við sem sagt veljum að gera óþægilega hluti fram yfir þægilega. Þannig vinnum við okkar litlu sigra í lífinu.
Og við dveljum ekkert sérstaklega við þá sigra. Þegar krakkarnir mínir koma úr svona ferð, eins og þessari á Reyki, sem jafnvel hafði valdið þeim kvíðablandinni eftirvæntingu mánuðum saman og maður spyr þau; var ekki gaman eða var þetta nokkuð svo slæmt? Þá yppta þau öxlum og segja: Nei, nei. Og svo snúa þau sér að næsta verkefni, helst einhverju nógu erfiðu.
The post Þorsteinn Guðmundsson: Út fyrir þægindarammann appeared first on Fréttatíminn.