Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Elta íslenska drauminn þrátt fyrir þröngan fjárhag

$
0
0

Kjartan og Hafdís hafa verið saman í þrjú ár, flutt á milli leiguíbúða, eignast stúlkuna sína Kötlu Maríu og klárað háskólanám. Hafdís í fjarnámi til þess að geta verið heima með Kötlu og Kjartan hefur unnið fyrir fjölskyldunni enda nauðsynlegt af því að Hafdís hefur verið tekjulaus síðan um áramót.

Bar Ellefu

„Við vorum með matarboð um daginn og þá kom í ljós að öll þrjú pörin í boðinu kynntust á skemmtistaðnum Bar Ellefu,“ segir Hafdís. En þau Kjartan hittust fyrst í mars 2013, reyndar úti á stétt fyrir framan Ellefuna. Það bar þannig til að Hafdís reiddist við mann sem var með dónaskap og kvenfyrirlitningu fyrir utan skemmtistaðinn og þegar hún leit upp frá þeim orðaskiptum sem hún átti við dónann sá hún Kjartan og vin hans standa þarna álengdar og æpti hún til þeirra: „Eru þið allir svona miklir fávitar?“ Þannig voru nú fyrstu kynni þeirra Hafdísar Arnardóttur, sem er fædd 87 og Kjartans Richters,´86 módel, og fluttu þau saman inn í litla risíbúð í Þingholtunum hálfu ári síðar.

Fann Kjartan aftur á feisbúkk

„Feisbúkk, við „ödduðum“ hvort öðru á feisbúkk. Ég fór inn á feisbúkk hjá stjúpbróður mínum til þess að finna hann. Ég náði því þarna um kvöldið að Kjartan væri frá Breiðvanginum í Hafnarfirði þar sem pabbi minn bjó og ég dvaldi aðra hvora helgi öll æskuárin. Kjartan þekkti stjúpbróðir minn og við höfðum leikið okkur á sömu slóðum í Hafnarfirði en þarna hittumst við í fyrsta sinn, hann orðin 25 ára og ég 24 ára.“

Verkstjóri hjá Samskip og munkurinn Oddur Snorrason

Þegar þau kynntust var Hafdís á Hólum í ferðamálafræði og Kjartan á síðustu metrunum í sagnfræði við HÍ. Í dag eru þau bæði að klára BA ritgerðirnar sínar. Kjartan sinnir hinsvegar fullu starfi sínu sem verkstjóri hjá Samskip og hefur ritgerðin setið á hakanum en ritgerðarefnið er íslenskur munkur sem skrifaði hálfgerða dýrlingasögu um Ólaf Noregskonung Tryggvason. Rannsóknarefnið er hvort munkurinn hafi ætlað sér að skrifa dýrlingasögu um konunginn sem komst þó aldrei í dýrlingatölu. Kjartan segir að allar uppástungur sínar um ritgerðarefni, sem voru nær í tíma, hafi verið flautaðar út af. Persónulega hefur hann meiri áhuga á nútímanum. Hann hafi stungið upp á Vilmundi Gylfasyni, Bandalagi jafnaðarmanna og fleiru en endað uppi með miðaldamunkinn Odd Snorrason.

Starfað hjá Samskip síðan hann var 17 ára

Kjartan er verkstjóri hjá Samskip og líkar vel. Hann var hækkaður í launum fyrir stuttu og fær útborgað í kringum 360-400 þúsund krónur. Það er misjafnt hvað hann vinnur marga tíma en líklega í kringum 200 tíma með yfirvinnu, telst honum til. Kjartan hefur, þrátt fyrir ungan aldur, unnið næstum því hálfa ævi sína hjá Samskip. Hann byrjaði sem sumarstarfsmaður með Verzlunarskólanum og síðan réð hann sig hjá fyrirtækinu í nokkur ár og safnaði sér fyrir háskólanáminu. Kjartan hefur aldrei tekið námslán og átti fyrir sparnað þegar þau Hafdís fóru að búa. Sjóð sem bráðum mun verða þurrausinn.

26153-04
Kjartan safnaði sér fyrir námi sínu og hafði safnað sér í sjóð þegar þau Hafdís fóru að búa. En sá sjóður mun bráðum verða þurrausinn. Mynd|Alda Lóa

Hafdís rannsakar áhrif Eistnaflugshátíðarinnar á menn og land

Hafdís á að skila sinni ritgerð eftir nokkra daga. Hún á bara eftir að skella nafni á ritgerðina sem hún var að fá til baka úr yfirlestri, en hún er að rannsaka áhrif þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs á sveitarfélagið. Hún er í raun að rannsaka viðburðatengda ferðaþjónustu og í því samhengi að skrifa um Eistnaflug og landsbyggðarkynningu í kringum hátíðina. Hafdís segir að uppgangur ferðamannstraumsins til Íslands sé jafngamall Eistnaflugshátíðinni á Austfjörðum. En hinsvegar hafi Austfirðir setið eftir í ferðamannaævintýrinu og minni aðsókn þangað af bæði erlendum og íslenskum ferðamönnum, miðað við aðra staði á landinu.

Úr Þingholtunum í Eskihlíð fyrir sömu leigu

Fyrstu mánuðina í sambandinu bjuggu þau saman í Þingholtunum. „Og svo eftir að ég varð ólétt þá vorum við þarna á fjórðu hæð og partípinni á neðri hæðinni sem hélt okkur vakandi. Við vildum bara komast í eitthvað sem væri kannski í göngufæri frá miðbænum. Og barnvænna, ég gat varla labbað upp stigann. „Við fluttum hingað í Eskihlíðina í júní í þessa íbúð hérna sem er pínu niðurgrafin, 75 fermetrar með geymslu og borgum 150 þúsund krónur á mánuði. Við fáum alltaf „vá“ hvað þið eruð að borga litið í leigu. Við erum með sér inngang og það er leikskóli hérna beint á móti þar sem Katla fær inni í september.“

Ekki efni á dagmömmu

Hitinn er innifalin í leigunni og ég borga rafmagnið, segir Hafdís, 5 þúsund, af því að það kemur inn á heimabankann hennar, ásamt gömlu láni sem hún er að borga 20 þúsund krónur af á mánuði. Einnig borgar hún um hver mánaðamót pakkatilboð frá Símanum sem er net, sjónvarp og heimasími. Þetta skrifast á mig og ég vinn í skóbúð í Kringlunni aðra hvora helgi sem dekkar þessi útgjöld. Hinsvegar hef ég ekki tekið þátt í leigunni í tvö ár, segir Hafdís, sem var kyrrsett alla meðgönguna vegna slæmsku í grindarbotni og hefur verið heima með Kötlu Maríu síðan hún fæddist í september 2014. Hafdís fór aftur í skólann í fjarnám þegar Katla var rúmlega þriggja mánaða en hefur ekki verið með námslán á þessu ári. Þau Kjartan og Hafdís hafa ekki ráð á dagmömmu en mamma Kjartans hefur komið þeim til aðstoðar og sækir Kötlu heim til sín á meðan Hafdís er að ganga frá ritgerðinni. „Við höfum verið að leita hvar við getum sparað. Við tókum saman hvað við erum að eyða sirka í mat, bleyjur og blautþurrkur en laun Kjartans duga fyrir því og leigu og bensíni. Við höfum það alveg fínt, við höfum efni á mat og það sem við þurfum en það er ekkert meira en það, við getum ekki lagt til hliðar.“

Ekki voga þér að eignast barn og vera í námi á sama tíma

Það sem kom Hafdísi verulega á óvart þegar hún var ólétt og eftir að hún eignaðist Kötlu Maríu að stofnanir samfélagsins töldu hana ekki vera sjálfstæða heldur var orðin kona ófær í umsjá Kjartans. „Ég var svo slæm í grindinni og þurfti að sækja um aðstoð og allstaðar þar sem ég bankaði upp á hjá kerfinu þá var sagt við mig: „Hann á að sjá um þig,“ af því við Kjartan vorum skráð í sambúð.“ Ég hafði fram að því alltaf haft mínar eigin tekjur og verið sjálfstæð.

Hoppandi á milli stofnana

„Eftir grunnskóla hef ég alltaf verið annaðhvort í vinnu eða skóla. Það hafa komið tímabil þar sem ég hef verið á milli vinna og hefði átt að sækja um atvinnuleysisbætur, en ég hef alltaf reddað mér sjálf. En svo kemur tímabil þar sem maður þarf virkilega á þessari hjálp að halda og þú heldur kannski að þú getir hringt eitt símtal í einhverja ríkisstofnun og sagt frá vandamáli þínu og að þér verði þér bent á hjálpina. Nei, þú hoppar á milli stofnana og færð alltaf sama viðmótið: Nei, farðu þangað eða farðu eitthvað annað og enga leið að finna aðstoð. Loksins, ef það er einhverja aðstoða finna, þá er hún ekki þess virði að fá magasár út af vegna þess að hún er svo lítil. Allar þessar stofnanir sem maður kemur að finnst mér vera í mikilli mótsögn, því ef ég ætla að sækja mér hjálp þá er það alltaf svo erfitt en þegar þeir þurfa að taka eitthvað frá mér þá er það svo auðvelt.“

26153-01
Hafdís hefur verið heima með Kötlu Maríu, sem verður tveggja ára í haust, og kláraði fjarnám, bæði viðburðastjórnun og ferðamálafræði. Mynd | Alda Lóa

Hið ónýtta feðraorlof

Kjartan mun líklega ekki nýta sér fæðingarorlofið vegna þess að hann mun lækka í launum og það geta þau ekki leyft sér á meðan Hafdís er ekki komin með vinnu og hann verður að nýta sér orlofið áður en Katla verður tveggja ára, þannig eru lögin á Íslandi. Kjartan mun lækka niður í 80% af meðallaununum sem hann vann sér inn á tímabili löngu áður en Katla María var einu sinni orðin hugsanlegur jarðarbúi. Orlofsjóður reiknar út tekjurnar hans frá 18 mánuðum áður en Katla María fæddist. Á því tímabili var hann ennþá í skólanum og launalaus að hluta þannig að hann mun hrapa í launum miðað við þann útreikning. Líklega eru hverfandi líkur á því að Kjartan muni nýta sér meðlagið. Það er hinsvegar harðbannað að Hafdís fái hans ónýtta meðlag útborgað, það er andstætt lögum, þrátt fyrir að hún sé heima með Kötlu.

Húsaleigustyrkur og barnabætur

Á Íslandi eru bæði húsaleigustyrkur og barnabætur tekjutengdar. Samanlagt fær fjölskyldan núna 20 þúsund krónur á mánuði í barnabætur og 11 þúsund í húsaleigustyrk. „Katla María er hinsvegar heppin að eiga gott net í kringum sig, segir Hafdís, en hún á afa og ömmur sem taka virkan þátt í lífi hennar hvort sem það eru kaup á kuldagalla eða pössun á meðan Hafdís er að ganga frá ritgerðinni sem kemur sér vel af því dagmömmur eru dýrar. Pláss hjá einni kostar 60 þúsund krónur á mánuði og hafa þau hvorki efni á því né áhuga.

Kaupa húsnæði

Hafdís og Kjartan vita ekki hvað þau fá að vera lengi í íbúðinni í Eskihlíðinni. Leigusamningurinn er gerður frá ári til árs. Upp á öryggið væri gott að eiga eigið húsnæði og miðað við þeirra greiðslugetu gætu þau hugsanlega keypt sér 50 fermetra íbúð í Hafnarfirði fyrir 20 milljónir. „Flestir vinir okkar sem eru að kaupa flytja heim til mömmu og pabba í eitt eða tvö ár og safna eða eiga fjölskyldu sem getur hjálpað með útborgun. Það eru ekki margir á okkar aldri sem geta lifað og náð að leggja fyrir.“ Kjartan flettir upp á Íbúðalánasjóði: „Ef maður ætlar að kaupa einhverja litla krúttlega íbúð fyrir 20 milljónir þá þarf maður að leggja út 4 milljónir, 20%. Eða jafnvel bara 10% ef bankinn veitir aukalán fyrir fyrstu íbúð.“ Tveggja herbergja íbúð, 50 fermetra, 1 herbergi og stofa í Breiðvanginum hljómar vel í þeirra eyrum.

Flytja á eyðibýli og skrifa

Kjartan stingur reglulega upp á því að við flytjum bara út á land. Fáum okkur eyðibýli og gerum það upp, hann verði heima að skrifa en ég vinni sem ferðamálafrömuður. Við erum alveg til í að flytja út á land ef það væri einhverja vinnu að fá, en það er auðvitað ástæða fyrir því af hverju húsnæði er ódýrara út á landi, af því þar er einfaldlega minni eftirsókn og enga vinnu að fá.

Ólæti á Ólafsfirði

Hafdís er farin að skima eftir vinnu fyrir haustið þegar Katla fer á leikskóla. Hún hefur ekki hugmynd um hvað sé í boði. En hún gæti hugsað sér að vinna við eitthvað tengt náminu sínu eins og viðburðatengda ferðamennsku. En hún sér fram á óvissu í atvinnumálum þar sem hún á marga vini með ágætis háskólapróf sem finna enga vinnu í sínum geira.

Ári áður en Katla fæddist skellti Hafdís upp útihátíð á Ólafsfirði ásamt þrem öðrum konum sem fóru á stúfana og höfðu samband við hljómsveitir eins og Kaleo og Ojbarasta og aðrar góðar til þess að spila. Ólafsfirðingar voru óöryggir með nafnið á hátíðinni „Ólæti“ og voru tregir til að mæta í fyrstu sem var nóg til þess að það varð fjárhagshalli á viðburðnum. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef nokkurntímann gert á ævinni, að plana eitthvað og sjá það gerast. Við byrjuðum alltof stórt, við hefðum átt að hafa þetta minna í sniðum, byrja bara með einn dag. En svo misstum við húsnæðið og fengum ekki styrk árið eftir en við stefnum á að gera þetta aftur seinna, ég og Sunna vinkona. Þetta var árið 2013 og árið á eftir var ég ólétt og núna erum við báðar að klára nám á Hólum.

Elta draumana sína

Ef það er val, þá langar Kjartan að fara í meira nám og einu sinni dreymdi hann um að setjast við skriftir eða vinna við blaðamennsku. En það verður bara að koma í ljós, það fer eftir fjárhagsaðstæðum okkar. Hafdís sér líka annan möguleika í stöðunni sem er að „vera fátæk og hamingjusöm“ og meinar þá að elta drauma sína, þrátt fyrir aðþrengdan fjárhag.

26153-03
Þau gætu hugsanlega keypt tveggja herbergja 50 fermetra íbúð í Hafnarfirði fyrir 20 milljónir króna, ef fjölskyldan lánar þeim fyrir útborgun. Mynd | Alda Lóa

 

 

 

The post Elta íslenska drauminn þrátt fyrir þröngan fjárhag appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652