Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Börnin auglýsa fyrir Rio Tinto Alcan

$
0
0

Samstarfssamningur Rio Tinto Alcan, Hafnarfjarðarbæjar og IBH um auglýsingar í og við íþróttamannvirki í bænum er ekki í samræmi við kvaðir um auglýsingar sem finna má í þjónustusamningum bæjarins við íþróttafélögin í bænum. Nema að álframleiðsla teljist hafa jákvætt gildi í íþróttastarfi og stuðli að heilbrigðum lífsháttum.

Í þjónustusamningum Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar við íþróttafélög bæjarins kemur fram að íþróttafélagi sé heimilt að setja upp auglýsingar á veggi og lóð íþróttamiðstöðva samræmist þær jákvæðu gildi íþróttastarfs og heilbrigðra lífshátta. Full samvinna skal vera við íþrótta- og tómstundafulltrúa og arkitekt varðandi uppsetningu þeirra. Nú þegar hafa verið gerðir þjónustusamningar við Hauka og Bjarkirnar.

Í samstarfssamningi Rio Tinto Alcan, Hafnarfjarðarbæjar og IBH er aðgangur fyrirtækisins mun greiðari að mannvirkjum bæjarins en finna má í þjónustusamningunum. Upphaflegi samningurinn við fyrirtækið er frá 2002. Í samningnum segir að skilti skuli vera utanhúss og í íþróttasal á Ásvöllum sem eru höfuðstöðvar Hauka. „Nákvæm staðsetning skal ákveðin í samráði við fulltrúa Rio Tinto Alcan á Íslandi.“ Skilti með nafni fyrirtækisins skuli vera uppi í aðalsal Bjarkahússins og fyrirtækjafánum flaggað utanhúss á fimleikasýningum barna og unglinga, t.d. á jóla- vorsýningum. Einnig er kveðið á um að allir keppnisbúningar fyrir 16 ára og yngri skulu merktir með fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan, ásamt bréfsefni og tryggt skuli að fulltrúi Rió Tinto Alcan veiti verðlaun á þeim mótum sem eru í þeirra nafni.

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda gáfu út leiðbeinandi reglur árið 2009 um neytendavernd barna sem miða að því að takmarka markaðssókn sem beinist að börnum. Í þeim er mælt fyrir að tekin skuli afstaða til þess að hvort eðlilegt sé að börn séu merkt kostunaraðilum.

Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, segist ekki þekkja til samstarfssamningsins né veit hann hvernig eftirfylgni hans er háttað. Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs, segir að persónulega trufli það hana ekki að búningar sem þessir séu merktir styrktaraðilum, það séu þó skiptar skoðanir um það. Íþróttafélögin eigi þó að fá að ráða þessu.

The post Börnin auglýsa fyrir Rio Tinto Alcan appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652