Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Bastarður stjórnmála og viðskiptalífs – Framsóknarmennirnir í Panama-skjölunum

$
0
0

Kastljós fjallaði á mánudag um þrjá áhrifamenn í Framsóknarflokknum, sem er að finna í Panama-skjölunum svonefndu. Það eru þeir Finnur Ingólfsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, Hrólfur Ölvisson, sem nú hefur sagt af sér sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, og Helgi S. Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans.

Þremenningarnir gegndu allir ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir hafa allir setið í fjáröflunarnefnd flokksins, bæði í gamni og alvöru. Í gamni vegna þess að þeir voru eignalitlir menn sem urðu milljónamæringar á skömmum tíma, en auð þeirra má að stofni til rekja til tengslanna við Framsóknarflokkinn og hinsvegar vegna þess að þeir komu að fjáröflun fyrir flokksstarfið um lengri eða skemmri tíma.

Flokkurinn hjálpar sínum

„Helgi S. Guðmundsson er eitt besta nýlega dæmið um það hvernig stjórnmálaflokkur og flokkspólitísk tengsl geta komið manni í miklar virðingarstöður í íslensku samfélagi; manni sem fyrirfram virðist ekki hafa bakgrunn til að gegna slíkum störfum,“ segir Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður. „Helgi var dyggur framsóknarmaður um áratugaskeið og náinn viðskiptafélagi Finns Ingólfssonar. Hann starfaði sem leigubílstjóri og lögreglumaður í Keflavík og var síðar starfsmaður Samvinnutrygginga og Vátryggingafélags Íslands fram á tíunda áratug síðustu aldar. Vegna tengsla sinna við Framsóknarflokkinn settist hann í stjórn ríkisbankans Landsbanka Íslands og varð formaður bankastjórnarinnar fram að einkavæðingunni árið 2003.“

Helgi, sem lést fyrir þremur árum, var því formaður bankaráðs Landsbankans þegar S- hópurinn keypti Búnaðarbankann við einkavæðingu bankanna. Forystumenn S-hópsins voru Ólafur Ólafsson, Þórólfur Gíslason, Finnur Ingólfsson og fleiri sem tengdust Framsóknarflokknum.

Lán frá KB banka

„Sama ár og S-hópurinn hreppti Búnaðarbankann, eða árið 2003, fékk Helgi S. 200 milljóna króna lán hjá KB banka sem þá var búinn að innlima Búnaðarbankann,“ segir Jóhann Hauksson blaðamaður. „Þetta lán rann inn á félag Helga sem heitir Vogás ehf. En hvað sem öðru líður er ekki að sjá að KB hafi innheimt þetta lán ef skoðaðar eru ársskýrslur. Ég kann engar skýringar á því en fjárhæðin virðist hafa orðið eftir í félagi Helga og skuldin gufað upp án þess að það sjáist merki um að hún hafi verið greidd,“ segir Jóhann Hauksson í samtali við Fréttatímann.

Helgi var skipaður í bankaráð Seðlabankans um vorið 2003 og sat þar til ársins 2007 og var formaður þess undir lokin. Samkvæmt uppljóstrun Kastljóss stofnaði hann aflandsfélag í Panama árið 2007 ásamt Finni Ingólfssyni. Landsbankinn stofnaði félagið fyrir þá að því er virðist til þess að lána fyrir kaupum á bréfum í bankanum sjálfum. „Þetta gæti bent til þess að menn hafi verið að nota Helga og hans góða orðspor til að halda uppi verði á hlutabréfum í bankanum. Það er auðvitað mjög miður,“ segir Jón Sigurðsson. „Málið ber auðvitað keim af því að um markaðsmisnotkun gæti verið að ræða en það er mjög alvarlegt mál, eins og allir vita.“

„Helgi varð einnig framkvæmdastjóri hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu þegar heilbrigðisráðuneytið heyrði undir Framsóknarflokkinn,“ segir Ingi Freyr. „Á þessum árum eftir einkavæðingu bankanna var Helgi S. svo sjálfur virkur á markaði sem fjárfestir, samhliða störfum sínum í bankaráði Seðlabanka Íslands, og var meðal annars viðskiptavinur einkabankaþjónustu Kaupþings. Helgi varð virðingarmaður í samfélaginu og þar að auki efnamaður vegna þess að hann valdi sér að styðja og starfa innan Framsóknarflokksins. Flokkurinn gerði hann að því sem hann var.“

Líffæri Finns Ingólfssonar

Þeir sem Fréttatíminn ræddi við segja að Helgi S. hafi verið afar venjulegur á yfirborðinu, þó mjög trúaður og virkur innan KFUM hreyfingarinnar. „Það var erfitt að þekkja Helga og láta sér ekki þykja vænt um hann. Hann var frekar hlýlegur karl,“ segir fyrrverandi áhrifamaður í Framsóknarflokknum. „Ég held þó að Helgi hafi verið mikilvægur hluti af líffærakerfi Finns Ingólfssonar.“

Hann vill ekki láta nafns síns getið en bætir við að Helgi hafi verið ákaflega tryggur sínum og góður liðsmaður, sjaldan tekið frumkvæði að neinu. „Í eitt sinn man ég eftir því að Staksteinar í Morgunblaðinu voru að skrifa um að framsóknarmenn væru orðnir valdamiklir í atvinnulífinu á fremur háðslegan hátt enda var verið að ýja að því að mörkin milli stjórnmála og viðskipta væri orðin óljós. Ég man að hann kom til mín og sýndi mér þetta og var afar stoltur. Hann virtist ekki skilja að þetta væri almennt álitið til marks um spillingu en taldi það fremur til marks um velgengni.“

Tengsl Helga S. Guðmundssonar við aflandsfélög, meðan hann var í bankaráði Seðlabankans, eru afar athyglisverð. Hitt er annað að hann vann að fjáröflun Framsóknarflokksins á sama tíma og hann var formaður bankaráðs Landsbankans en hann sat í ráðinu frá 1995 og var formaður þess þegar bankinn var einkavæddur. Það hlýtur að hafa verið ankannaleg staða fyrir forstjóra fyrirtækja sem áttu allt sitt undir bankanum að stjórnarformaður bankans, birtist endrum og sinnum í þeim erindagjörðum að biðja um peninga fyrir Framsóknarflokkinn.
Þetta var fullkomið búmerang.

Hrólf­ur Ölvis­son, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, teng­ist tveim­ur af­l­ands­fé­lög­um sam­kvæmt Panama-skjöl­un­um, eins og fjallað var um í Kastljósi á mánudag. Ann­ars veg­ar fé­lag­inu Chamile Mar­ket­ing skráðu á Bresku Jóm­frúareyj­um og hins veg­ar Selco Fin­ance sem stofnað var í Panama. Bæði fé­lög­in voru stofnuð árið 2003. Jón Sigurðsson segist telja að Hrólfur hafi einungis verið leppur fyrir aðra og valdameiri menn í þessu braski. „Ég held að hann sé enginn sérstakur hrappur eða klækjarefur, en þetta lítur svo sannarlega ekki vel út,“ segir Jón.

Árið 2003 var Hrólfur einn þriggja eig­enda félags­ins Eld­berg ehf. í gegnum annað félag, Jarð­efna­iðnað ehf. Rekstur fyr­ir­tækj­anna snérist um að safna og flytja út vikur­efni. Tortólafélagið var notað til að fara á svig við skattalögin og fela fjárfestingu íslensku félag­anna t­veggja í danska félag­inu Scancore ApS. Það var gert með því að Eld­berg lán­að­i ­fé­lag­inu 12 millj­ónir króna vaxta­laust til að kaupa hlut í Scancore. Í lána­samn­ingi milli Eld­bergs og Chamile Mar­ket­ing vegna fjár­fest­ing­ar­inn­ar segir að til­gangur láns­ins sé „að tryggja að ­nafn Eld­bergs eða móð­ur­fé­lags þess verði ekki skráð í tengslum við fjár­fest­ingar Chamile Mar­ket­ing.“

Aumingja stelpan hún Vigdís

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fékk það óþvegið frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins og Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, vegna Víglundarmálsins svokallaða. Þau héldu því fram að tilteknir menn í viðskiptalífinu hefðu verið knésettir í bönkunum eftir hrun svo hrægammasjóðir gætu komist yfir eignir þeirra.

Í Kastljósi var ennfremur fjallað um að Hrólfur Ölvisson hefði verið á bak við kaupin á BM Vallá en árið 2012 keypti hann í félagi við aðra fjár­festa hlut Arion banka í BM Vallá sem síðan var sam­einað Björgun og ­Sem­ents­verk­smiðj­unni.

„Það er pínlegt í ljósi þess hvað þingmaðurinn gekk hart fram í málinu að það skyldi síðan vera Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, sem var á bak við Kaupin á BM Vallá,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

Hrólfur segir við Kastljós að hann hafi gert formanninum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, grein fyrir tengslunum. „Ég átta mig ekki á þessari ósvífni, þeir hafa kannski treyst því að það þetta kæmist ekki upp,“ segir Steingrímur. „þegar menn reiða hátt til höggs hittir það stundum þá sjálfa fyrir. Þetta er fullkomið búmerang. Framsóknarflokkurinn er kolflæktur í kóngulóarvefnum miðjum. Þau hefðu átt að líta sér nær.“

„Aumingja stelpan hún Vigdís. Þetta mál er auðvitað kjaftshögg fyrir hana og líka hræðilega neyðarlegt fyrir Sigmund Davíð,“ segir Jón Sigurðsson. „En ég býst við að þau verði í afneitun eitthvað fram á sumarið.“

„Þessa ákvörðun tek ég í ljósi þess hversu einsleit og óvægin umræðan er. Þetta er persónuleg ákvörðun mín og á engan hátt viðurkenning á því að ég hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti,“ sagði Hrólfur Ölvisson í yfirlýsingu þegar hann sagði af sér. Undir þetta tekur í raun framkvæmdastjórnin en í samtali við RÚV segir Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, að framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins hafi ekki talið ástæðu til þess að framkvæmdastjóri flokksins segði af sér vegna tengsla sinna við aflandsfélög.

Finnið Finn

Af þremenningunum hefur Finnur Ingólfsson verið umsvifamestur, umdeildastur og mest um hann fjallað enda skildi hann eftir sig fjórtán milljarða króna skuldir þegar eignarhaldsfélag hans Langflug fór í þrot. Af öllum þeim auðmönnum sem voru sagðir hafa sterk tengsl við Framsóknarflokkinn, voru tengsl hans við flokkinn einna mest enda var hann fyrrverandi stjórnmálamaður og náinn vinur Halldórs Ásgrímssonar, formanns flokksins til 2006.

Finnur hóf feril sinn í stjórnmálum árið 1983 sem aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar sem þá var sjávarútvegsráðherra. Hann var kjörinn á þing 1991 og sat þar til 1999. Hann varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1995 en hvarf úr því embætti til Seðlabankans, en þar gegndi hann stöðu seðlabankastjóra þar til hann tók við stöðu forstjóra tryggingafélagsins VÍS, fyrir atbeina Ólafs Ólafssonar í Samskipum sem er sagður hafa beitt sér fyrir ráðningunni. Finnur varð síðar stjórn­ar­formaður fé­lags­ins.

VÍS var stofnað á grunni tveggja félaga, Samvinnutrygginga og Brunabótafélagsins árið 1989.

Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum var stýrt af fulltrúaráði sem í sátu meðal annars nokkrir þekktir framsóknarmenn eins og Finnur Ingólfsson, Helgi S. Guðmundsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Eignarhaldsfélagið tengdist eignarhaldi á tveimur fyrirtækjum sem voru einkavædd árin 2002 og 2003. Báðar þessar einkavæðingar, annars vegar sala Landsbankans á bréfum sínum í VÍS árið 2002 og salan á Búnaðarbankanum árið 2003, eru mjög umdeildar ekki síst vegna pólitískra afskipta.

Finn­ur varð stjórn­ar­formaður Icelanda­ir 2006 og átti um tíma stór­an hlut í flug­fé­lag­inu. Hann sat einnig í stjórn Kaupþings og sett­ist í stjórn Sam­vinnu­sjóðsins og And­vöku 2008. Þá átti hann um tíma allt hluta­fé í skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu Frum­herja.

Haustið 2007 var eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga lagt niður en eignir og skuldir yfirfærðar í fjárfestingarfélagið Gift sem hélt áfram að fjárfesta á markaði í fyrirtækjum sem tengdust ýmsum áhrifamönnum Framsóknarflokksins, til dæmis félögum sem Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra, átti hlut í og félögum sem Þórólfur Gíslason, stjórnarformaður Giftar og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagafjarðar, átti í.

Á fimmta tug þúsunda fyrr­um viðskipta­manna Sam­vinnu­trygg­inga urðu hlut­haf­ar í Gift sem varð þá jafn­framt eitt öfl­ug­asta og fjöl­menn­asta fjár­fest­ing­ar­fé­lag lands­ins. Gift hafði það að yfirlýstu mark­miði að ráðstafa arði af eign­ar­hlutn­um til sam­fé­lags­verk­efna og al­menn­ings­heilla.
Þannig lánaði Gift fasteignafélögum í eigu Finns, Gómi og Lindberg, 840 milljónir sem verja átti til að reisa íbúabyggð í Örfirisey. Og félagið keypti hlut í Icelandair af Finni fyrir 4,9 milljarða króna gegnum félagið Fikt ehf.

Því hefur verið haldið fram að Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri í Skagafirði, áhrifamaður innan Framsóknarflokksins sem var stjórnarformaður Giftar, hafi framan af lagst hart gegn áformum um að greiða hinum raunverulegu eigendum Samvinnutrygginga út andvirði sjóðsins, sem var metinn á um þrjátíu milljarða. Féð glataðist og hluthafarnir sáu aldrei krónu.

„Það hefur aldrei verið rannsakað frekar hvað varð um milljarðana í Gift. Arion banki gerði einkennilegan nauðasamning við félagið eftir hrun sem með réttu hefði átt að fara í tugmilljarða gjaldþrot og rannsókn,“ segir Jóhann Hauksson. „Nauðasamningurinn var gerður á grundvelli skýrslu sem gerð var af endurskoðunarfyrirtækinu Ernest & Young sem ég hef ástæðu til að ætla að sé bæði pöntuð og ekki marktæk. Giftarsjóðurinn var upphaflega í eigu um 50 þúsund tryggingataka sem aldrei fengu neitt. Var peningunum stolið? Hirtu þessir menn fé án hirðis?

Fyrir mér eru ástæður þess að Alþingi framfylgir ekki samþykkt þingsins frá 8. nóvember 2012 um rannsókn á einkavæðingu bankanna skiljanlegar: Undir því teppi er of mikill skítur sem þolir ekki dagsins ljós. Panamaskjölin sýna okkur aðeins brot af honum,“ segir Jóhann.

„Hann sleppir aldrei neinu“

Þórólfur Gíslason í Skagafirði er talinn einn af valdamestu mönnum landsins og stórauðugur maður. Hann hefur sig þó sjaldnast í frammi opinberlega og talar því sem næst aldrei við fjölmiðla.

„Kaupfélag Skagfirðinga er langstærsti atvinnurekandinn í Skagafirði og sennilega í Norðvesturkjördæmi sem er annað helsta höfuðvígi Framsóknarflokksins í landinu,“ segir Ingi Freyr Vilhjálmsson. „Fyrirtækið er auðvitað fyrst og fremst útgerðarfélag þegar horft er til þess hvar mesti hluti tekna og hagnaður fyrirtækisins skapast – í gegnum útgerðina FISK Seafood – en fyrirtækið er líka stór hluthafi í Olís og Mjólkursamsölunni. Þá ræður kaupfélagið nánast eitt yfir smásölumarkaðnum í Skagafirði. Þórólfur gegnir í dag engri formlegri stöðu fyrir hönd Framsóknarflokksins en hann sat áður í miðstjórn hans. Formlega eru völd Þórólfs í flokknum því engin en undir yfirborðinu eru þau mikil samkvæmt þeim sem til þekkja.“

„Þórólfur Gíslason er rödd úr löngu liðnum tíma,“ segir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, um þennan mikilvæga bakmann flokksins, fyrrverandi stjórnarformann Giftar og guðföður skagfirska efnahagssvæðisins: „Hann lifir og hrærist í pólitik eins og hún var fyrir 60 árum. Hann sér allt í hópum valdamanna innan flokkanna sem takast á um gæðin, ríkisfyrirtækin og fyrirgreiðslu. Hann var framan af mjög duglegur og samviskusamur stjórnandi og hlóð duglega undir þau fyrirtæki sem hann var í forsvari fyrir, fremur en sjálfan sig. Hitt er annað mál, að hann sleppir engu sem hann krækir í.“

Jón Sigurðsson segir að Þórólfur haft gríðarlega sterk tök á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann hafi haft Gunnar Braga Sveinsson í vasanum, enda var hann fyrrverandi starfsmaður hans hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og harður andstæðingur ESB, eins og Þórólfur sjálfur. Hann hafi hinsvegar reiðst honum ákaflega vegna stuðningsins við Úkraínu og viðskiptabanns Rússa enda miklir hagsmunir undir í sjávarútvegi, þar sem Kaupfélag Skagfirðinga og Þórólfur eiga mikið undir.

Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins um skamma hríð, fékk að kenna á Þórólfi Gíslasyni í desember 2006 þegar sá síðarnefndi beit það í sig að verða stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs. Sagt er að andstaða Magnúsar, sem er ekki orðlagður skapmaður, hafi valdið því að tveir menn hafi bókstaflega teppt símann á heimili hans öll jólin, en það voru Þórólfur sjálfur og Helgi S. Guðmundsson.

„Þórólfur hefur auðgast vegna starfs síns sem kaupfélagsstjóri, meðal annars með því að eiga sjálfur í hlutabréfaviðskiptum með fyrirtæki sem kaupfélagið hefur keypt,“ segir Ingi Freyr Vilhjálmsson. „Þannig tók Þórólfur meðal annars 155 milljóna króna arð út úr eignarhaldsfélagi sínu Háuhlíð 2 ehf. sem stundað hafði viðskipti með hlutabréf í Fiskiðjunni Skagstrendingi sem FISK Seafood, dótturfélag kaupfélagsins, keypti síðar. Kaupfélag Skagfirðinga hefur svo sjálft hagnast á tengslum sínum við Framsóknarflokkinn, meðal annars árið 2002 þegar fyrirtæki sem var sameiginlega í eigu þess og Skinneyjar-Þinganess, fjölskyldufyrirtækis Halldórs Ásgrímssonar, keypti hlutarbréfa ríkisins í VÍS af Landsbankanum árið 2002 og hagnaðist um nokkra milljarða króna.“

Margir urðu milljónamæringar

Jóhann Hauksson bendir á að hér sé hefð fyrir samtryggingu í stjórnmálum og viðskiptum á forræði tiltekinna flokka og valdahópa: „Auðvelt er að nefna helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hún snerist í fyrstu um skiptingu fjárhagslegs ávinnings dyggra flokksmanna af veru bandaríska setuliðsins á Keflavíkurflugvelli. Um hálfri öld síðar gætti hennar enn þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir árin 2002 og 2003. Forystumenn þessara tveggja flokka hlutuðust með beinum hætti til um að þóknanlegir menn fengju að kaupa bankana.“

Margir valdamiklir auðmenn og hirðmenn þeirra hafa verið orðaðir við Framsóknarflokkinn, allir þeir sem teljast til S-hópsins, sem keypti Búnaðarbankann, svo sem Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson, auk þeirra sem áður eru nefndir. Pálmi Haraldsson í Fons er spyrtur saman við flokkinn en það mun hafa verið Matthías Imsland, fyrrverandi aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Eyglóar Harðardóttur, sem kom á þeim tengslum. Matthías var í forystu fyrir ungliða í flokknum þegar hann réðist til Pálma, fyrst sem starfsmaður Fons og síðan framkvæmdastjóri Iceland Express. Þá er ónefndur Björn Ingi Hrafnsson sem fór fyrst úr blaðamennsku í stjórnmálaþátttöku í Framsóknarflokknum en þaðan í viðskipti.

„Það voru margir spíralar í gangi í viðskiptalífinu fram að 2008, eins og til dæmis Sterling fléttan,“ segir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. Þeir sem tengdust réttu mönnunum soguðust inn í hvirfilbylinn og margir gerendur í viðskiptum voru á vappi í kringum Framsóknarflokkinn. „Menn gátu vissulega orðið milljónamæringar á þessum árum, en langflestir misstu allt sitt í hruninu. Meira að segja Finnur Ingólfsson, hann á lítið eftir nema hestabúgarð á Ólafsvöllum á Skeiðum.“

Uppljóstranir úr Panama-skjölunum hafa varpað nýju ljósi á flokkinn og valdið titringi þar innandyra eins og víðar: „Menn bíða með öndina í hálsinum eftir því hvort það komi eitthvað úr kafinu varðandi sjávarútvegsfyrirtækin og tiltekna einstaklinga,“ segir Jón Sigurðsson. „Það gæti komið báðum stjórnarflokkunum afar illa. Þetta er auðvitað ríkisstjórnin sem felldi niður auðlegðarskatinn og veiðigjöldin, það verður ekki frá þeim tekið.“

The post Bastarður stjórnmála og viðskiptalífs – Framsóknarmennirnir í Panama-skjölunum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652