Nýir búvörusamningar munu framlengja ástand sem er sérstaklega óhagkvæmt neytendum og skattgreiðendum á Íslandi. Engin þjóð borgar jafn mikið með landbúnaði og Íslendingar þegar mið er tekið af framleiðslunni. Þeir sem græða mest á búvörusamningnum eru þannig ekki fjölskyldubúin heldur fáein stórfyrirtæki.
Samanlagður stuðningur neytenda og skattgreiðenda við landbúnaðarkerfið nemur um 36 milljörðum króna árlega, samkvæmt útreikningum sem Guðjón Sigurbjartsson viðskiptafræðingur birti í grein sem hann skrifaði ásamt Jóhannesi Gunnarssyni, formanni Neytendasamtakanna. Af þessum 36 milljörðum króna koma um 13,5 milljarðar króna úr ríkissjóði en um 22,5 milljarðar króna er stuðningur sem neytendur greiða inn í kerfi í formi hás vöruverðs vegna verðtolla og annarra hindrana á verslun með landbúnaðarvörur.
Með nýgerðum búvörusamningi verða þessar álögur á skattgreiðendur framlengdar um tíu ár til viðbótar. Kostnaður skattgreiðenda verður um 140 milljarðar króna á tímabilinu og byrði neytenda verður um 230 milljarðar króna. Samanlagt eru þetta svo háar upphæðir að það er eiginlega marklaust að bera þetta saman við nokkuð annað. 360 milljarðar er meira en helmingur allra ríkisútgjalda á þessu ári. Það mætti byggja þrjú hátæknihús fyrir þessa upphæð. Það tæki mann sem eyðir milljón á mánuði 3000 ár að eyða þessari upphæð.
Miklu hærri styrkir en í Evrópu
Þótt stuðningur Íslendinga við landbúnað skeri sig ekki frá öðrum Evrópuþjóðum þegar hann er borinn saman við landsframleiðslu, segir það ekki mikla sögu. Landbúnaður á Íslandi er veigalítil atvinnugrein í samanburði við landbúnaðarlöndin á meginlandinu. Þar er umfang landbúnaðargeirans víða tvöfalt eða þrefalt á við stærð hans á Íslandi.
Samkvæmt OECD nemur stuðningur Íslendinga við landbúnað um 48 prósent af virði landbúnaðarafurða á meðan stuðningur Evrópusambandsins, sem flestum þykir nóg um, er aðeins um 18,5 prósent af virði landbúnaðarframleiðslunnar í sambandinu.
Ef íslenskir skattgreiðendur og neytendur fengju að búa við slíkt kerfi væri samanlagður stuðningur þeirra 14 milljarðar króna árlega en ekki 36 milljarðar króna. Mismunurinn er 22 milljarðar króna á hverju ári. 220 milljarðar króna á líftíma nýgerðs búvörusamnings.


Þungar byrðar á fjölskyldur
Byrði hvers Íslendings af landbúnaðarkerfinu er um 109 þúsund krónur árlega, samkvæmt útreikningum Guðjóns Sigurbjartssonar. 41 þúsund krónur fara í gegnum skattkerfið en 68 þúsund krónur leggjast ofan á matvælaverðið.
Hver fjögurra manna fjölskylda greiðir þannig 164 þúsund krónum meira í skatta á ári og borgar 273 þúsund krónum meira fyrir matinn sinn. Það gera 22.750 krónum meira í matarinnkaup í hverjum mánuði, hátt í þúsund kall á dag.
Ef fjögurra manna íslensk fjölskylda byggi við hið vonda landbúnaðarkerfi Evrópusambandsins væru samanlagðar álögur hennar vegna landbúnaðar ekki 437 þúsund krónur á ári heldur 168 þúsund krónur.
Íslenska fjölskyldan greiðir nærri 270 þúsund krónur á ári í skatta og úti í búð vegna þess hversu vitlausara íslenska landbúnaðarkerfið er en sambærilegt kerfi Evrópusambandsins. Sem þó er svo vitlaust að jafnvel íslenskum bændahöfðingjum finnst það fádæma heimskt.
Breytingar á neyslu færa til stuðninginn
Stuðningur Íslendinga við kjötframleiðslu nemur um 19,4 milljörðum króna. Þar af eru 5 milljarðar króna styrkir til sauðfjárbænda í gegnum skattkerfið en 14,4 milljarðar króna stuðningur neytenda í gegnum of hátt útsöluverð.
Neytendastuðningurinn skiptist þannig að um fjórðungur er vegna lambakjöts og tæpur fjórðungur vegna nautakjöts. Mestur er stuðningurinn hins vegar við kjúklingaræktendur eða rúmur þriðjungur alls neytendastuðningsins. Um 12,5 prósent af neytendastuðningnum fer til svínaframleiðenda.
Þetta kann að koma þeim á óvart sem sjá fyrir sér hefðbundinn íslenskan kotbúskap eldri hjóna þegar þau hugsa um stuðning við landbúnaðarkerfið. Fyrir þrjátíu árum var lambakjöt vel rúmur helmingur af öllu kjöti sem Íslendingar borðuðu en er nú minna en fjórðungur. Fyrir þrjátíu árum borðaði hver Íslendingur rúm fjögur kíló á ári af kjúklingi en í fyrra borðaði hann um nærri 28 kíló. Meðalneysla meðalmanns á kjúklingi hefur því sexfaldast og vel rúmlega það á skömmum tíma.
Samhliða þessum breytingum hafa viðsemjendur ríkisins í búvörusamningum breyst mikið. Mestir hagsmunir liggja nú hjá stórum fyrirtækjum, ekki fjölskyldubúi inn í dal.






Fimm stærstu taka 25 prósent
Þegar útreikningar Guðjóns eru brotnir niður samkvæmt markaðshlutdeild stærstu aðila í mjólkur- og kjötvinnslu kemur í ljós að þeir sem eiga mest undir nýjum búvörusamningum eru Mjólkursamsalan, Sláturfélag Suðurlands, Norðlenska, Matfugl/Ali og Kaupfélag Skagfirðinga.
Þótt ekki séu tekin fleiri fyrirtæki en þessi fimm þá nemur samanlagður stuðningur neytenda við þau um 9,2 milljörðum árlega ef aðeins er tekinn vinnsluhlutinn. Þetta er fjórðungur af heildarstuðningi landsmanna við landbúnaðinn og 41 prósent af heildarstuðningi neytenda í gegnum hátt verð vegna verndartolla.
Hagsmunir þessara fimm fyrirtækja af óbreyttu kerfi í gegnum endurnýjun búvörusamnings nema hátt í 100 milljörðum króna á samningstímanum.
Aflandsfélag í landbúnaði
Flest þessara fyrirtækja eru samvinnufélög að öllu leyti eða hluta. Þarna er þó eitt einkafyrirtæki, Langisjór, sem á Matfugl og Síld og fisk (Ali). Heildarstuðningur neytenda við það fyrirtæki er um 3,2 milljarðar þegar lagður er saman stuðningur vegna ræktunar og vinnslu.
Eins og fram hefur komið í Fréttatímanum er stærsti eigandi Langasjávar, Coldrock Investment Ltd., fyrirtæki sem skráð er í skattaskjóli á Möltu. Það lýsir ef til betur en flest annað þeirri umbreytingu frá landbúnaði yfir í iðnað og fjármálaverkfræði sem átt hefur sér stað í íslenska landbúnaðarkerfinu.


Bændur breytast í hlutafélög
Samhliða því að samþjöppun hefur orðið í kjöt- og mjólkurvinnslu hafa búin líka stækkað, einkum í mjólkurvinnslu. Þetta má rekja til verslunar með mjólkurkvóta. Það þekkist bæði að hlutafélög hafi safnað að sér kvóta en það er einnig vitað að stórir aðilar hafi keypt kvóta og lánað hann eða leigt til bænda. Önnur meginskýring stækkunar búa er tæknibreytingar. Með tilkomu mjaltaþjóna og lausagöngufjósa skapast möguleiki á margfalda stærð mjólkurbúa. Slík tæknivædd bú geta ekki aðeins verið stærri en venjuleg bú heldur verða þau að vera stór til að standa undir fjárfestingunni.
Það verður því algengara að að baki mjólkurbúum standi hlutafélög sem oft hafa keypt jarðir, hús og búfénað með skuldsettri yfirtöku. Rekstur þessara búa er því líkari rekstri nútímafyrirtækja en hefðbundins fjölskyldubús.
Með þessum umbreytingum koma nýir aðilar inn í landbúnaðinn. Eitt stærsta kúabú landsins, Flatey í Austur-Skaftafellssýslu, er þannig í eigu útgerðarfélagsins Skinney-Þinganess, sem er einn allra stærsti kvótaeigandi landsins. Miðað við fulla nýtingu bústofns og tækja má ætla að þetta eina bú dragi til sín um 120 til 140 milljónir króna af stuðningi skattgreiðenda og neytenda til mjólkurbænda. Innkoma Skinney-Þinganess inn í mjólkurframleiðslu er enn eitt dæmið um innrás kvótaeigenda inn í aðrar atvinnugreinar í því fordæmalausa góðæri sem ríkir í sjávarútvegi.
Af öðrum stórum búum má nefna Þverholtsbúið í Borgarfirði en Daði Einarsson, faðir Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi þingmanns VG, keypti það af Jóhannesi Kristinssyni, athafnamanni í Lúxemborg, fyrir skömmu í félagi við bróður sinn og fleiri. Áður hafði Daði keypt jörðina Kverngrjót en fyrir átti hann Lambeyrar í Dölum með systkinum sínum. Daði er þannig að byggja upp stórrekstur í mjólkurframleiðslu og á gríðarmikið undir nýjum búvörusamningum.
Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is
The post Stórfyrirtæki að taka landbúnaðinn yfir appeared first on Fréttatíminn.