Bernhöfts Bazaar er nýr og skemmtilegur fjölþema útimarkaður sem haldinn verður á laugardögum í sumar á Bernhöftstorfu, horni Bankastrætis og Lækjargötu. Basarinn er sérstakur að því leyti að hann fær nýtt þema hverju sinni og myndar þannig fjölbreytta dagskrá sem býður ávallt uppá eitthvað nýtt til að skoða, versla og njóta.
„Þema morgundagsins eru leikföng og munu krakkar selja gömul leikföng, bækur, Andrésblöð, föt, leiktæki, límonaði og annað skemmtilegt á leikfanga basarnum,“ segir Þórey Björk Halldórsdóttir, einn skipuleggjenda Bernhöfts Bazaar. Fyrirtæki og félagasamtök koma líka til með að selja, kynna og þjónusta gesti með fallegum vörum sem snúa að krökkum á öllum aldri. Auk sölubásanna verður margt skemmtilegt um að vera. Boðið verður upp á krakka jóga undir leiðsögn Pop Up Yoga Reykjavík og ísbíllinn mun koma og hringja bjöllunni sinni. Einnig munu ungir rithöfundar lesa draugasögur úr bókinni sinni „Eitthvað illt á leiðinni er.“ Auk þess verður sérstakur Dýragarðs Bazaar á svæðinu þar sem krakkar geta komið með gamla bangsa og dúkkur til að gefa til barna í Afríku sem eiga engin mjúk dýr að leika við.
„Búið er að fylla upp í öll rýmin á markaðnum, en sett verður upp tombólusvæði þar sem krakkar geta komið og sett niður teppi á grasflötinni sunnan megin við markaðinn,“ segir Þórey. Markaðurinn verður opinn á morgun, laugardag, milli klukkan 13 og 17.
Hér má nálgast nánari upplýsingar um markaðinn.
The post Leikföng, Andrésblöð og límonaði í miðbænum appeared first on FRÉTTATÍMINN.