Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Deilihagkerfið er komið til að vera

$
0
0

Nú mega Íslendingar leigja út einkabílinn sinn og geta aukið þannig ráðstöfunartekjur sínar verulega. Gunnar Haraldsson hagfræðingur segir  stjórnvöld eiga að setja fleiri fordæmi til að auðvelda einstaklingum að nýta sér deilikerfið og sýna þannig nágrannalöndunum gott fordæmi. Að reyna að sporna við þróuninni þýði ekkert því þá verði starfsemin neðanjarðar. Deilihagkerfið sé komið til að vera. 

„Það felast mikil tækifæri í deilihagkerfinu og ég er handviss um það sé komið til að vera,“ segir Gunnar Haraldsson, forstöðumaður hagfræðistofnunar Íslands, en nýlega samþykkti Alþingi ný lög sem leyfa einstaklingum að leigja út einkabílinn sinn. Nýju lögin skapa umgjörð utan um leigu einstaklinga á einkabílnum með milligöngu miðlunar og er fyrirkomulagið því svipað og húsnæðismiðlanir sem hafa milligöngu með útleigu á húsnæði einstaklinga, líkt og Airbnb.

Viðskiptakostnaður lækkar

Gunnar segir deilihagkerfið í raun alltaf hafa verið til staðar en að með tilkomu netsins og samfélagsmiðla hafi nýir möguleikar opnast. „Við höfum alltaf verið að skiptast á hlutum, passað börn hvers annars og fengið lánaðan sykur og salt í næsta húsi. Að fólk leigi út herbergi í híbýlum sínum til að drýgja tekjur sínar er líka eitthvað sem alltaf hefur viðgengst en í dag er það svo miklu auðveldara, þökk sé samfélagsmiðlum. Það sem gerist núna er að allur viðskiptakostnaður lækkar, kostnaðurinn við það að eiga í viðskiptum er mun lægri en áður og það er auðveldara að fara út í viðskipti. Það er það sem drífur þetta hagkerfi áfram.“

Þýðir ekkert að banna deilihagkerfið

Gunnar segir að líkja megi netbyltingunni við iðnbyltinguna. „Þessi nýju lög eru mjög jákvæðar fréttir fyrir okkur því þau auka tekjur heimilanna og þau eru umhverfisvæn. Í iðnbyltingunni var ráðist á nýju vélarnar sem tóku atvinnu frá fólki og í dag er sumstaðar reynt að koma í veg fyrir deilihagkerfið með regluverki og lagasetningum. En þetta kerfi er komið til að vera og ákveði stjórnvöld að leggja stein í götu þess þá mun það einfaldlega verða neðanjarðar,“ segir Gunnar og tekur Uber leigubílaþjónustuna í París sem dæmi. Þar hyggjast stjórnvöld leggja þjónustuna af vegna þrýstings frá verkalýðsfélagi leigubílstjóra. „Svoleiðis aðgerðir þýða að starfsemin verður svört. Eina hættan, ef svo má kalla, sem gæti skapast af svona atvinnustarfsemi er að hún verði neðanjarðar, að ekki myndist skatttekjur og að réttindi fólks sem vinnur við starfsemina séu ekki virt. Lög sem heimila deilihagkerfi gera það að verkum að það gerist ekki og Ísland ætti að setja fleiri fordæmi og sýna nágrannalöndunum fram á það að deilihagkerfið virkar.“

Að græða án tilkostnaðar

Þeir sem annast milligöngu um viðskipti á einkabílnum bera ábyrgð á því að þau gangi faglega og heiðarlega fyrir sig, í samstarfi við tryggingafélög og Samgöngustofnun, en allir bílar eru tryggðir eins og um bílaleigubíla væri að ræða. Heimilt er að leigja út tvo bíla og segir Sölvi Melax, framkvæmdastjóri VikingCars, fyrstu íslensku einkabílaleigunnar, útleigu á einkabílnum sem venjulega standi óhreyfður allan daginn geta skapað fjölskyldum miklar aukatekjur án nokkurs tilkostnaðar. Fyrirtæki hans tekur 30% af tekjunum fyrir milligönguna.
„Við getum tekið dæmi af Ford Fiesta árgerð 2013 sem við leigðum út í 26 daga í ágúst í fyrra á 260 þúsund krónur og öðrum Ford Explorer árgerð 2007 sem er leigður núna út þessa vikuna á 180 þús krónur í 12 daga. Þetta er auðvitað frábært kerfi sem getur til dæmis skapað fjölskyldu tekjur á meðan hún fer í frí.“

 

Gunnar Haraldsson hagfræðingur bendir á að auk þess að gefa fjölskyldum tækifæri á að auka tekjur sínar með útleigu á einkabílnum, muni fyrirkomulagið skapa meira pláss í borginni því bílarnir séu nýttir betur. Eins og er notum við einkabílinn í einn klukkutíma á dag að meðaltali.

Gunnar Haraldsson hagfræðingur bendir á að auk þess að gefa fjölskyldum tækifæri á að auka tekjur sínar með útleigu á einkabílnum, muni fyrirkomulagið skapa meira pláss í borginni því bílarnir séu nýttir betur. Eins og er notum við einkabílinn í einn klukkutíma á dag að meðaltali.

The post Deilihagkerfið er komið til að vera appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652