Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ævintýrið heldur áfram

$
0
0

Ævintýri ferðaþjónustunnar heldur áfram. Nú í júlí er háönn hennar, sem sjá má jafnt í þéttbýli, dreifbýli og á hálendinu. Kannanir hafa sýnt að allt að 80% ferðamanna koma hingað vegna náttúru landsins. Hún er aðdráttaraflið, stórbrotin sem hún er. Fjölgun erlendra ferðamanna sem hingað koma hefur verið ótrúleg undanfarin ár. Við fjölguninni hefur verið brugðist á ýmsan hátt með uppbyggingu hótela og annarra gististaða, veitingastaða, afþreyingu og annars í ört vaxandi atvinnugrein. Flugfélögin eru mörg sem annast flutninga fólksins hingað, hópferðafyrirtækin hafa endurnýjað flota sína sem og bílaleigurnar. Þá eru ótaldir þeir sem hingað koma með ferjunni Norrænu, auk þeirra sem eiga stutt stopp sem farþegar skemmtiferðaskipa.

Nýjar tölur Hagstofunnar sýna að ekkert lát er á aðsókninni. Gistinætur á hótelum í maí voru 216.500, sem er 20% aukning miðað við maí á síðasta ári. Gistinóttum Íslendinga fækkaði um 12% en gistinætur erlendra gesta voru 85% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 28% frá sama tíma fyrir ári. Slík hefur þróunin verið mörg undanfarin ár í öllum mánuðum.

Þessi mikla fjölgun ferðamanna hefur skilað sér inn í hagkerfið en í maí störfuðu 18.500 manns í ferðaþjónustu hér á landi, rúmlega tíundi hluti þeirra sem eru á atvinnumarkaði og búist er við því að störfin séu yfir 20 þúsund nú á háannatíma, eða um 11% af heildarfjölda starfandi fólks í íslensku hagkerfi. Fjölgun starfa í greininni milli ára er 9,5%, eða um 1600 störf. Þessi fjölgun endurspeglar vöxtinn í greininni. Í hagkerfinu öllu störfuðu 3900 fleiri í maí í ár en í sama mánuði í fyrra. Vöxturinn í ferðaþjónustunni skýrir 41% fjölgunarinnar. Af þessu sést hvílík lykilgrein ferðaþjónustan er orðin. Fram hefur komið hjá Greiningu Íslandsbanka að á tímabilinu frá 2010, þegar hagkerfið byrjaði að taka við sér, og þar til í fyrra, átti ferðaþjónustan 45% af heildarfjölgun starfa. Í maí síðastliðnum voru 13.200 Íslendingar án vinnu og atvinnuleysi var 6,7% miðað við 7,2% á sama tíma í fyrra. „Ljóst er,“ segir greiningardeildin, „að fjölgun starfa í ferðaþjónustu hefur átt drjúgan þátt í því að draga úr atvinnuleysinu á tímabilinu líkt og frá upphafi þeirrar uppsveiflu sem nú stendur yfir í hagkerfinu. Að sama skapi hefur greinin átt drjúgan hluta af hagvextinum eða um þriðjung að okkar mati á tímabilinu frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2010 og þar til í fyrra.“

Ekkert lát hefur orðið á þróuninni það sem af er ári. Skýring útflutningsvaxtar þessa árs skýrist alfarið af vexti ferðaþjónustunnar en erlendir ferðamenn á fyrsta ársfjórðungi ársins voru nær þriðjungi fleiri en á sama tímabili í fyrra – en vart þarf að taka það fram að það var metár, eins og árin þar á undan. Þessi aukning mælist meðal annars í stóraukinni kortanotkun erlendra ferðamanna, en hún er langt umfram eyðslu Íslendinga á erlendri grundu á sama tímabili.

Ýmsir vaxtarverkir fylgja þessu ævintýri. Vinsælustu ferðamannastaðirnir eru komnir að þolmörkum. Íslensk náttúra er viðkvæm og hana þarf að vernda. Hún er auðlind ferðaþjónustunnar og okkar allra. Dregist hefur úr hömlu að koma skikki á innheimtu gjalda á ferðamannastöðum og náttúrupassafrumvarpið var andvana fætt. Betur var hins vegar tekið á málum í vor þegar stjórnvöld tilkynntu að 850 milljónum króna yrði varið til uppbyggingar á ferðamannastöðum um land allt í sumar ásamt framlagi til brýnna vegaframkvæmda. Má þar nefna göngustíga, útsýnispalla, bílastæði og salernisaðstöðu, auk þess sem huga þarf að öryggismálum þar sem hætta er á ferð, eins og við fossa og á hverasvæðum. Stjórnvöld greindu jafnframt frá því að á næstu árum yrði ráðist í enn frekari framkvæmdir á vinsælum ferðamannastöðum. Þar er þörf stórátaks.

The post Ævintýrið heldur áfram appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652