Hvernig er best að nýta smáhýsi? Litla fjölskyldan á Eggertsgötu, þau Elinóra, Bragi og Sebastian, eru viðmælendur vikunnar í myndaröðinni Stúdentagarðarnir, þar sem litið er inn til námsmanna sem búa á stúdentagörðum. Skoðað er hvernig ungt fólk nýtir rými með sniðugum og hagkvæmum lausnum þar sem nægjusemi einkennir búskapinn. Leigumarkaðurinn er til umræðu og kynslóðin sem dreymir ekki um einbýlishúsið.

Þau Elinóra Guðmundsdóttir og Bragi Marinósson búa í 50 fermetra stúdentaíbúð á Eggertsgötu. Bæði stunda þau nám við Háskóla Íslands, hann í rafmagns- og tölvuverkfræði og hún í ferðamálafræði. Sonur þeirra Sebastian fagnar í dag tveggja og hálfs árs afmæli sínu, sáttur með lífið japlandi á snúð með mjólkurglasi.

„Við erum hæstánægð hérna, þetta er eins og lítil kommúna þar sem allir hjálpast að. Krakkarnir leika sér á ganginum og heima hjá hvort öðru,“ segir Elinóra og Bragi tekur undir. „Það er auðveldara að vera með tvö börn en eitt, þau dunda sér tímunum saman sem gefur okkur svigrúm til þess að læra.“

Þrátt fyrir stofnanalegan brag á stúdentagörðunum, þar sem ekki má hengja myndir á veggina og litaður dúkur liggur á gólfunum, hefur parinu tekist einkar vel að gera rýmið heimilislegt og fallegt. „Þessar íbúðir eru svolítið fyrirfram ákveðnar. Allt er áætlað á ákveðinn stað og lítið hægt að endurraða þeirri uppsetningu. Það er greinilega búið að stúdera hvernig má nýta þessa 50 fermetra sem best,” útskýrir Bragi.

Elinóra og Bragi eru sammála um það að stuðningur við námsmenn með börn sé frábær. LÍN framfærslan eru tæpar 200.000 krónur á mánuði fyrir foreldra í sambúð með eitt barn. Húsaleigan er í kringum 90.000 krónur svo eftir stendur sæmileg fjárhæð til uppihalds. Elinóra segir þó stuðninginn einkennast af fleiru en framfærslu „Á svæðinu eru tvær dagvistir, leikskóli og stuðningsnet fólks sem er í sömu stöðu og við. Einnig eru kennarar mjög skilningsríkir gagnvart okkur sem foreldrum. Hins vegar er kerfið afar úrelt á meðan á óléttu stendur og í fæðingarorlofi. Þá miðast framfærsla frá ríkinu við ákveðið hlutfall af lágmarkslaunum sem er löngu úrelt upphæð. Það er nánast ómögulegt að komast af á henni eingöngu.“

Það veldur því fjölskyldunni hugarangri hvað tekur við eftir stúdentagarðana. Reynsla þeirra á leigumarkaðinum vekur ekki upp öryggistilfinningu. „Á tímabili leigðum við íbúð á Baldursgötu sem var aðeins stærri, en nýttist verr,“ segir Bragi. „Leigan var töluvert hærri og alltaf hætta á að innilokast í sífellt hækkandi verði leigumarkaðarins. Það er staðreynd að margir hérna halda sér við námið til þess eins að halda íbúðunum.“


Fjölskyldan lifir bíllausum lífsstíl og segir Elinóra það ósköp einfalt á svæði þar sem skólarnir og aðrar nauðsynjar eru innan seilingar. „Við eigum ekki bíl bæði af umhverfis- og sparnaðarástæðum. Sebastian elskar að fara í strætó og við erum duglega að hjóla. Flest er í göngufæri fyrir utan Bónus.“ Þar kemur samvinna nágranna sterk inn og er Bragi gjarnan samferða nágrönnunum í búðina. „Ég fæ oftast far hjá vini mínum sem býr hinu megin við götuna, við förum samferða í Bónus úti á Granda.“

Sjá fleiri sögur úr þáttaröðinni Stúdentargarðar:

The post Garðarnir þar sem foreldrar hjálpast að appeared first on Fréttatíminn.