Eitt af höfuðverkum Kjarvals var flutt á skrifstofu formanns ASÍ daginn fyrir sölu á listasafni. Listamenn eru pirraðir vegna flutnings á Fjallamjólkinni inn á skrifstofu Gylfa.
Eitt merkilegasta listaverk Jóhannesar Kjarvals, Fjallamjólk, sem er í eigu ASÍ, var fært á skrifstofu Gylfa Arnbjörnssonar, formanns ASÍ, degi áður en tilkynnt var um sölu á húsi Listasafns ASÍ. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, segir engin tengsl á milli þess hvenær verkið var futt á skrifstofu Gylfa og sölu á húsinu.
Töluverður urgur er í listamönnum vegna málsins og telja sumir þeirra að þarna sé verkinu sýnd ákveðin vanvirðing.
„Verkið er alveg tryggt og ekki á neinum vergangi,“ segir Guðrún Ágústa og segir mikilvægt að verkin úr safnaeigninni séu sýnileg. Það sé þó ekki hægt að sýna þau á söfnum öllum stundum og þá séu þau í geymslu eða sýnileg, til að mynda á skrifstofu ASÍ.
Ragnar Jónsson í Smára gaf ASÍ verkið árið 1961 ásamt hundruðum annarra verka og eru mörg þeirra þekktustu myndverk tuttugustu aldar. Þar af er Fjallamjólkin líklega það frægasta.
Eins og fram hefur komið var húsnæði listasafnsins selt á föstudaginn í síðustu viku og hefur stjórn SÍM mótmælt sölunni harðlega.
The post Fjallamjólk inni á skrifstofu Gylfa appeared first on Fréttatíminn.