Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Skattstjóri rannsakar formann FH vegna Panamaskjalanna

$
0
0

„Ég kannast við félagið og kannski það merkilegasta við það er að nafnið er ansi flott,“ svarar Jón Rúnar Halldórsson, formaður stjórnar FH, en nafn hans er í Panamaskjölunum.

Þar var hann skráður fyrir félaginu Sutherland Consultancy sem var stofnað á Bresku Jómfrúreyjunum árið 2007. Félagið var raunar stofnað tveimur mánuðum eftir að Jón Rúnar seldi hlut sinn í Saltkaup í ágúst árið 2007. „Ég fékk samt ekki félagið fyrr en árið 2008,“ útskýrir Jón Rúnar spurður út í tímasetninguna. Hann bætir svo við: „Ríkisskattstjóri sendi mér einmitt bréf um daginn vegna málsins og ég er búinn að svara því. Núna vill hann frekari upplýsingar.“

Það er því ljóst að skattayfirvöld hér á landi voru ekki upplýst um tilvist félagsins, sem var endanlega slitið árið 2012.

Aðspurður segir Jón Rúnar að hann hafi ákveðið að kaupa hlutabréf rétt fyrir hrun og því hafi það verið starfsmenn Landsbankans í Lúxemborg sem bjuggu það til. „Svo kom þetta ágæta hrun og allt fór á hausinn. Ég fór bara og afskrifaði þetta,“ segir hann.

Gífurleg uppbygging hefur verið á svæði FH síðastliðin ár, meðal annars í gegnum finnska fyrirtækið Best-Hall, sem Jón Rúnar er umboðsaðili fyrir hér á landi, og nýbyggingarnar eru keyptar af. Fréttablaðið ræddi við Jón á síðasta ári þar sem hann var spurður hvort einhver hagsmunaárekstur væri á milli hans og FH þar sem hann væri umboðsaðili fyrirtækis sem FH keypti húsin af. Því þverneitaði hann í viðtalinu og sagðist ekki fá krónu fyrir uppbygginguna.

Aðspurður hvort hann standi við þau ummæli, svarar Jón Rúnar höstugur: „Ég stend við það. Best-Hall kemur þessu ekkert við.“ Spurður hvort hann telji málið hafa áhrif á setu hans sem formanns félagsins svarar Jón Rúnar einfaldlega: „Nei, engin áhrif.“

The post Skattstjóri rannsakar formann FH vegna Panamaskjalanna appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652