Sérstakur saksóknari rannsakar hvort Kleópatra Kristbjörg Stefánsdóttir hafi brotið lög þegar hún var keypti majónesframleiðslu í Hafnarfirði
„Ég fór í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í nóvember síðastliðnum,“ segir Kleópatra Kristbjörg Stefánsdóttir, en hún hefur stöðu sakbornings þar sem hún var framkvæmdastjóri hjá Gunnars Majónesi rétt fyrir gjaldþrot auk þess sem kaup hennar á fyrirtækinu eru sögð óeðlileg.
Þrotabússtjóri Gunnars Majónes sakar hana um að hafa sölsað undir sig fyrirtækið og greitt fyrir það 62,5 milljónir króna, sem hann vill meina að sé langt undir markaðsvirði. Dómkvaddur matsmaður mat fyrirtækið 180 milljóna króna virði, en því er Kleópatra ósammála og hefur fengið yfirmatsmenn til þess að meta virði fyrirtækisins.
„Það er ekkert þarna nema lógóið. Þarna eru gamlar vélar sem hafa verið þarna frá stofnun fyrirtækisins. Það er hætt að framleiða varahluti í sum af þessum tækjum og ég hef borgað stórfé í viðhald á þeim,“ segir Kleópatra.
Gunnar Jónsson lést árið 1998, en hann stofnaði fyrirtækið árið 1960. Það voru dætur hans tvær, Helen Gunnarsdóttir Jónsson og systir hennar, Nancy R. Gunnarsdóttir, sem sátu í stjórn félagsins og sáu um rekstur þess ásamt aldraðri móður sinni. Upp úr 2002 fór að halla verulega undan fæti í rekstri félagsins. Að lokum ráku systurnar félagið í þrot eftir tíu ára taprekstur og sæta þær einnig rannsókn fyrir að hafa nýtt fé félagsins í eigið uppihald. Sjálf sagði Nancy í pistli sem hún ritaði á vefsíðuna Spegilinn árið 2014, að faðir hennar hefði lýst því margsinnis yfir að hann vildi ekki að fjölskylda sín tæki við fyrirtækinu. Í sama pistli upplýsti Nancy að hún hefði verið í sértrúarsöfnuðum og systir sín hefði verið algleypir og étið allt upp til agna í fyrirtækinu.
Helen Gunnarsdóttir Jónsdóttir var dæmd til þess að endurgreiða tæplega 14 milljónir í ofgreidd laun í Héraðsdómi Reykjaness fyrir síðustu helgi. Í dómnum kom fram að laun hennar snarhækkuðu úr rúmlega 200 þúsundum upp í rúmlega milljón á mánuði þrátt fyrir að gjaldþrot blasti við. Þá kom fram í dómnum að Helen er grunuð um að hafa tekið út samtals 36 milljónir í tveimur færslum af viðskiptamannareikningi félagsins og nýtt í eigin þágu og var upplýst í dómnum að fyrirtækið væri til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.
Aðeins brot af skuldum félagsins fengust greiddar upp í kröfur og var gert árangurslaust fjárnám í fyrirtækið í sumarbyrjun árið 2014. Systurnar samþykktu örskömmu síðar að selja Kleópötru einni félagið. Hún greiddi ekki krónu fyrir, heldur gaf út skuldabréf til tíu ára, sem fyrirtækið, sem nú heitir Gunnars ehf, greiðir árlega af, samkvæmt ársreikningi félagsins. Í sama ársreikningi kom fram að félagið skilaði rétt tæplega 35 milljónum í hagnað fyrir rekstrarárið 2014.
Spurð út í sterka stöðu fyrirtækisins og skuldabréfið svaraði Kleópatra: „Ég borgaði það ekki vegna þess að þetta var gert í dauðans ofboði. Það stóð aldrei til að hafa þetta svona nema til bráðabirgða, til þess að koma í veg fyrir framleiðslustopp. En þetta er allt annað fyrirtæki en var. Nú rek ég fyrirtækið eftir mínu nefi.“
Rannsókn sérstaks saksóknara er langt komin en ákærur hafa ekki verið gefnar út.
The post Kleópatra greiddi ekki eina krónu fyrir Gunnars Majónes appeared first on Fréttatíminn.