Listakonan og hrossaræktandinn Lilja Pálmadóttir hefur komið sér vel fyrir í Skagafirði, þaðan sem hún er ættuð. Á ættarjörðinni hefur hún byggt fjölskyldu sinni nýtt og fallegt hús sem er löngu orðið þekkt út fyrir landsteinana, var teiknað af Studio Granda og hlaut meðal annars Arkitektaverðlaun Evrópusambandsins. Færri vita þó að í grennd við húsið stendur Hof, ættaróðal Lilju, sem hún hefur gert upp í sínum persónulega stíl til að hýsa gesti sína.

Innlitið til Lilju að Hofi á Höfðaströnd er að finna á vefsíðunni Islanders.is, en það er síða þar sem íslensk heimili og eigendur þeirra eru í forgrunni. Með síðunni vilja upphafskonur hennar, innanhúsarkitektinn Auður Gná og ljósmyndarinn Íris Ann, veita innsýn í líf ólíkra Íslendinga í gegnum heimili þeirra og miðla því hvernig ólík, falleg og sérkennileg heimili endurspegla skapara sína. „Okkar áhugasvið eru hönnun og listir en við erum líka að velta því fyrir okkur af hverju fólk býr eins og það býr, næstum eins og mannfræðingur myndi gera og grafa aðeins ofan í sálfræðina á bak við híbýli hvers og eins. Við höfum áhuga á að fjalla um alls konar fólk og fá að vita af hverju það kýs að búa eins og það býr og reyna að skilja af hverju heimili eru stundum svona mikil framlenging af persónu og lífsstíl eigandans. Við erum að vinna með hugmyndina um að heimilið sé í raun paradís þess sem þar býr, griðastaður þar sem fólk kýs að endurspegla ákveðnar hugmyndir um lífið og hvernig það vill lifa því,“ segir Auður Gná. Islanders-síðan er verk í stöðugri vinnslu og stefna þær Auður Gná og Íris Ann á að gefa innlitin út í fallegri bók.








Verkið á veggnum er frá foreldrum Lilju og er eftir Temmu Bell sem er dóttir Louisu Matthiasdóttur og Lelands Bell mannsins hennar. Temma er gift Ingimundi Kjarval og búa þau í New York fylki. Okkurguli liturinn fannst á eldhúsinu eftir að búið var að fjarlægja mörg lög af málningu, Lilja fann svo sama litinn frá norskum málningarframleiðanda.

The post Islanders.is: Griðastaður Lilju Pálma í Skagafirði appeared first on Fréttatíminn.