Innan við hundrað manns hirða 33 þúsund milljóna króna auðlindarentu á hverju ári
Ætla má að auðlindarenta í sjávarútvegi leggi sig á 46 milljarða króna árlega, miðað við árin 2008-2014. Um þrír fjórðu alls fiskveiðikvóta við Ísland falla í skaut rúmlega tuttugu fyrirtækja. Innan við eitthundrað einstaklingar hirða bróðurpartinn af auðlindarentunni í gegnum eignarhald sitt á þessum fyrirtækjum sem telja má á fingrum og tám. Þessir einstaklingar hirða 33 milljarða af auðlindarentunni í sjávarútvegi á hverju ári. Frá hruni og þar til í hittiðfyrra lagði auðlindarentan sig á um 322 milljarða króna, samkvæmt útreikningum Indriða H. Þorlákssonar.
22 fyrirtæki fá úthlutað einu prósenti eða meira af fiskveiðikvóta við Ísland. Samanlagt fá þau í eigin nafni yfir 70 prósent af kvótanum. Þegar könnuð eru eignatengsl þessara fyrirtækja við önnur sjávarútvegsfyrirtæki má ætla að hlutfall heildarkvótans sem þeim er úthlutað aukist upp í 73% eða jafnvel meira.
Hér er miðað við stöðuna árið 2015. Þegar ársreikningar (2014) þessara fyrirtækja eru kannaðir með tilliti til eignarhalds sést glögglega að enda þótt hluthafar í sumum þeirra séu margir – skipti jafnvel hundruðum – þá eru þeir fáir sem eiga bróðurpartinn í fyrirtækjunum, hafa áberandi yfirráð og/eða fá megnið af arðinum í eigin vasa.
Í strætó
Það er reyndar svo að þegar eigendakeðja hefur verið rakin í gegnum ýmis félög, að þá standa eftir um 90 einstaklingar. Með öðrum orðum sá hópur sem tekur til sín megnið af 46 milljarða króna árlegri auðlindarentu kemst fyrir í einum strætisvagni. Þetta fólk, sem raunar má efast um að fari sinna daglegu erinda með strætó hefur samtals fengið í sinn hlut vel yfir 230 milljarða króna af 322 milljarða króna auðlindarentu landsmanna. Það skiptist raunar ekki svo jafnt milli fólks.
En hverjir eru þessir einstaklingar og hvaða fyrirtæki er um að ræða?
Stærstu fyrirtækin
HB Grandi er það fyrirtæki sem mestan kvóta fær í sinn hlut, yfir 10 prósent. Þar á eftir kemur Samherji með um 6 prósent.
Fyrirtækið Þorbjörn í Grindavík fær um 5 prósentum af kvótanum úthlutað, svo FISK seafood á Sauðárkróki og Brim í Reykjavík. Vísir í Grindavík og Vinnslustöðin í Eyjum fá um 4 prósent hvort. Svipað fá Rammi í Fjallabyggð og Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði. Síldarvinnslan á Seyðisfirði og Gunnvör fyrir vestan fá ríflega 3 prósent. Nesfiskur, Gjögur, Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Ögurvík og Útgerðarfélag Akureyringa í kringum 2 prósent. Bergur-Huginn, Jakob Valgeir, Loðnuvinnslan, Eskja, Guðmundur Runólfsson og Stakkavík milli 1 og 2 prósent af heildarkvótanum kemur í þeirra hlut.
Hafa ber í huga að innbyrðis eignatengsl eru milli sumra þessara fyrirtækja. Þannig á Samherji 100 prósent í Útgerðarfélagi Akureyringa, auk þess að eiga stóran hlut í Síldarvinnslunni ásamt Gjögri. Síldarvinnslan á svo aftur Berg-Hugin. Enn hefur Samherji bein ítök í útgerðunum Pólaris sem fær 0,7 prósentum af heildarkvótanum úthlutað, og auk þess Gullberg í gegnum Síldarvinnsluna. Þá hefur Ísfélagið í Vestmannaeyjum eignast útgerðina Dala-Rafn og Brim tengist jafnframt öðrum fyrirtækjum, auk þess að eiga stóran hlut í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Samþjöppun er því mun meiri en fjöldi fyrirtækja gefur til kynna og færri einstaklingar á bak við stærri hluta af heildinni en virðist á yfirborðinu.
Fáir græða mest á Granda
Enda þótt HB Grandi sé almenningshlutafélag með hátt í 2000 hluthafa, eru örfáir einstaklingar sem eiga þar áberandi stóra hluti og hafa ítök og völd í samræmi við það.
Systkinin Kristján Loftsson, kenndur við Hval, og Birna Loftsdóttir eiga áberandi stóra hluti í gegnum félagið Vogun, sem er að lang mestu leyti í eigu Hvals hf. Þar er jafnframt Sigríður Vilhjálmsdóttir. Öll eru þau stórir hluthafar í Fiskveiðihlutafélaginu Venusi, sem á bróðurpartinn í Hval hf. Eignatengsl eru einnig við Hampiðjuna sem á beinan hlut í HB Granda. Erfingjar Ragnhildar Skeoch sem átti ríflega 10 prósenta hlut í Hval hf., eru nú eigendur að verðmætum hlutum. Ragnhildur lést í hárri elli í fyrra. Eigur hennar voru metnar á hátt í þrjá milljarða króna. Þá eru Geir, Þórdís, Jakobína Birna, Geir Magnús og Ragnhildur Zoega áberandi hluthafar í Hval hf. Áttu þegar síðast fréttist rétt innan við 4 prósent í Hval. Ætla má miðað við ríkidæmi Ragnhildar Skeoch að hlutur þeirra í Hval reiknist til um eittþúsund milljóna króna.
Eiríkur Vignisson og Ingimundur Ingimundarson eiga einnig áberandi stóra hluti í HB Granda, um 5 prósent sá fyrrnefndi og 2,6 prósent hinn síðarnefndi, samkvæmt hluthafaskrá sem birt er á vef HB Granda.
Tíundi hluti auðlindarentunnar nemur að jafnaði 4,6 milljörðum króna frá hruni. Ætla má að þessir örfáu einstaklingar sem hér eru nefndir hafi fengið stóran hlut af 32 þúsund milljóna króna auðlindarentu í eigin vasa frá hruni.
Tíu milljarðar á mann
Eignarhald á Samherja er í rauninni einfalt. Þrír einstakingar eiga megnið af fyrirtækinu: Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga S. Guðmundsdóttir og Kristján V. Vilhelmsson. Sá síðastnefndi er meðal eigenda félagsins Hornblow Continental corp. sem kemur fyrir í Panamaskjölunum.
Flóknara er að finna út hversu mikið af auðlindarentunni í sjávarútvegi lendir í vösum þeirra þriggja, því Samherji er eigandi útgerðarfélags Akureyringa, auk þess að eiga stóran hlut í Síldarvinnslunni. Það fyrirtæki á aftur útgerðina Berg-Hugin.
Samherji fær úthlutað um 6 prósentum af heildarkvótanum og ÚA um 2 prósentum. Þegar þau 8 prósent og helmingurinn af kvóta Síldarvinnslunnar – í takti við eignarhald Samherja – eru lögð saman, má ætla að þessir þrír einstaklingar fái í kringum 9,5 prósent af kvótanum úthlutað og þannig sama hlutfall af auðlindarentunni. Það gera hátt í tíu þúsund milljónir króna á mann frá hruni. Það er vissulega gróflega áætlað, en sjálfsagt nærri lagi.
Gróði í Grindavík
Fyrirtækið Þorbjörn í Grindavík fær fimm og hálft prósent af heildarkvótanum í sinn hlut. Eigendur eru þrír. Gunnar, Eiríkur og Gerður Tómasbörn, sem eiga um þriðjung hvert. Þau þrjú skipta með sér um það bil tveimur og hálfum milljarði króna árlega af auðlindarentunni, miðað við útreikninga Indriða H. Þorlákssonar. Auðlindarentan frá hruni sem hafnað hefur hjá þeim nemur í kringum 17 þúsund milljónum króna.
Brim
Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim, er vafalaust í þeim hópi sem mest fær. Brim fær fjórum og hálfu prósenti af heildarkvótanum úthlutað. Upplýsingar um eignarhald Brims liggja ekki að fullu fyrir, en Guðmundur Kristjánsson ásamt bróður sínum Hjálmari Þór með mesta eign og ítök. Þeir eiga jafnframt fjórðungshlut í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Að auki má nefna KG fiskverkun. Gróflega má áætla að auðlindaarður sem þeir taka til sín, miðað við útreikninga Indriða H. Þorlákssonar, nemi um fimm prósentum af heildinni. Það gera 17 þúsund milljónir króna frá hruni, ríflega tveir og hálfur milljarður króna á þá bræður á ári.
Samhengi
Til að setja þessar upphæðir í samhengi mætti nefna að rúmlega áttræður einstaklingur sem hefur fengið milljón á mánuði, frá fæðingu, nær ekki að vinna sér inn milljarð meðan hann dregur andann. Venjulegur launamaður með hálfa milljón á mánuði þarf að vinna í 160 ár áður en hann nær milljarði. Auðlindaarður Samherjafólksins frá hruni er ígildi eitt þúsund og sex hundruð ára vinnu manneskju með meðallaun.
Enda þótt eigendur annarra fyrirtækja í hópi hinna allra stærstu fái í sinn hlut gríðarlegar upphæðir í formi auðlindaarðs þjóðarinnar, þá má í grófum dráttum ætla að þessir sem hér hafa verið nefndir fái hvað mest.
Eigendur annarra sjávarútvegsfyrirtækja fá drjúgan hlut af auðlindaarðinum. Svo tekið sé eitt dæmi til viðbótar, þá má gróflega áætla að upp undir tveir milljarðar króna af auðlindaarðinum fari til Ingólfs Ásgrímssonar, bróður Halldórs heitins, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, í gegnum hlut hans í Skinney-Þinganesi, sem ætla má að sé um 16 prósent. Þá er einungis miðað við auðlindaarðinn frá hruni.
Þá má gera ráð fyrir að ekki minna en fimm þúsund milljónir króna í formi auðlindaarðs hafi runnið til Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum frá Hruni.
Ingimar Karl Helgason
ritstjorn@frettatiminn.is
The post Græða á tá og fingri appeared first on Fréttatíminn.