Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Myndband: Árásargjörn gæs handleggsbraut mann

$
0
0

Gæs réðst á tvo starfsmenn Verkís. Hún hafði komið sér upp hreiðri í beði við starfsmannainngang fyrirtækisins. Annar handleggsbrotnaði og hinn missti símann sinn á meðan á upptöku stóð svo atvikið náðist á myndband. Svæðið hefur verið girt af til þess að veita gæsinni frið.

Við suðurvegg verkfræðistofunnar Verkís, þar sem sólin varpar geislum sínum liðlangan daginn hefur gæs komið sér upp hreiðri og verpt eggjum. Hreiðrið er staðsett í beði við starfsmannainngang Verkís og er mikill umgangur þaðan og út á bílastæðið. Varp gæsarinnar gekk ekki áfallalaust fyrir sig en það stóð yfir í fimm daga og verpti hún alls fimm eggjum. Á því tímabili hélt gæsin verndarhendi yfir hreiðri sínu og gerðist óvenju árásargjörn þegar henni stóð ógn af vegfarendum.

Þegar Már Hallgrímsson, starfsmaður Verkís var á heimleið í lok dags og átti leið hjá gæsinni, réðst hún til atlögu. „Ég var á leiðinni út í bíl og sá nokkrar gæsir þarna útundan mér. Ég sýndi þeim enga sérstaka athygli né reyndi að nálgast þær,“ segir Már sem bjóst ekki við árásinni. „Ein þeirra ræðst síðan að mér svo að ég hrökklast afturábak. Mér brá svo að ég datt á rassinn og setti vinstri hendina undir mig eins og maður gerir ósjálfrátt. Ég stóð rakleiðis upp aftur og kom mér út í bíl, þótti það nú ekki mikið tjón að detta aðeins á rassinn. Daginn eftir varð ég hins vegar svo bólginn á hendinni að ég kíkti á slysó og það kom í ljós að ég var lítilsháttar brotinn.“

Már og gæsin hafa grafið stríðsöxina og lifa góðu samlífi hjá Verkís, hún er orðin hluti af vinnustaðnum. „Ég heiti Már og er því einnig fugl, maður getur ekki verið fúll út í sína. Hún er dauðspök núna eftir að hún lagðist á eggin og hefur varla hreyft sig. Við erum góðir vinir og ég losna úr gifsinu á sama tíma og ungarnir koma.“

Náði árásinni á myndband

Már er ekki sá eini sem lenti í gæsinni en annar starfsmaður Verkís, fuglafræðingurinn Arnór Sigfússon, varð einnig fyrir árás og náði atvikinu á myndband. „Borgargæsir eða Tjarnargæsir eins og þær kallast eru sérstaklega gæfar og óhræddar við að verpa í borgum. Ég fylgist með fuglalífinu hér í kring og hafði séð hana á vappi um bílastæðið og á grasblettinum fyrir utan,“ segir Arnór sem ákvað að heilsa upp á gæsina þegar hún byrjaði að verpa í beðið.

„Gæsir eru vanar að verja eggin sín en sjaldan ráðast þær að stórum mönnum. Ég gekk til hennar og vildi mynda hana eins og ég geri með aðra fugla hér í kring. Þær hvæsa stundum, elta menn og gera sig líklegar til þess að vernda hreiðrið sitt. Þessi flaug hins vegar á mig og sló símann úr höndunum á mér eins og sést í myndbandinu.“

26406 gæsin girrt af
Starfsmenn Verkís hafa girt hreiðrið af með umferðarkeilum til að veita gæsinni frið. Ungarnir eru væntanlegir í lok mánaðar. Mynd /Arnór Sigfússon

Frá því gæsin lauk varpinu hefur hún verið sú rólegasta samkvæmt Arnóri. Ungarnir eru væntanlegir í lok mánaðar og hefur umferðarkeilum verið raðað í kringum hreiðrið til þess að girða svæðið af. „Hún þarf sinn frið til að liggja á eggjunum í 28 daga.“ Aðspurður hvort það megi búast við slíku varnareðli móðurinnar þegar ungarnir klekjast, segir Arnór erfitt að spá fyrir um það. „Hún mun líklegast hvæsa og gera allt til þess að vernda þá. Líklegast þykir mér þó að hún forði sér og komi ungunum sínum annað.“

26406 gæsin sjálf
Móðureðlið er sterkt hjá gæsinni en hún réðst á tvo starfsmenn Verkís á meðan hún kom upp hreiðri í beð við Verkís. Mynd/Arnór Sigfússon

The post Myndband: Árásargjörn gæs handleggsbraut mann appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652