Norska ríkissjónvarpið hefur reynt ýmislegt til að ná upp áhorfi á þáttaraðir sínar. En þegar stöðin bjó til unglingaefni sem ekkert var auglýst, fór allt á hliðina. Nú þekkir hver einasti Norðmaður sjónvarpsfyrirbærið SKAM.
Að horfa á sjónvarpsþættina SKAM er líklega besta leið í heimi til að læra norsku og rifja upp hinn ógnarstóra tilfinningaskala unglingsáranna í sömu andrá. (Vinsamleg ábending til mennaskólakennara.) Þættirnir eru svo vinsælir að þeir eiga sér enga hliðstæðu í norsku sjónvarpi.
SKAM eru öllum aðgengilegir á netinu og það kostar ekkert að horfa á þá. Heimildir Fréttatímans herma að RÚV vilji taka þá til sýninga. Enn sem komið er, er bara hægt að horfa á þá með norskum texta.

Í stuttu máli segja þeir frá lífsbaráttu unglinga sem hefja nám í menntaskólanum Nissen í Osló. Hvernig fyrstu bekkingar aðlagast í nýjum skóla, marka sér stöðu í félagslífinu, eignast vini, kærasta og reyna að komast í réttu partíin. Frábær leikur aðalpersónanna dregur fram nístandi sársauka og einlæga gleði. Loksins, loksins, loksins er hversdagslegum unglingavandamálum gefið það vægi sem þau eiga skilið.
En SKAM er miklu meira en bara sjónvarpsþættir. Þeir eru í raun eins og heill heimur sem sogar aðdáendur sína til sín á öllum samfélagsmiðlum. Hver þáttur er eins og dagbók. Á hverjum degi birtast nokkurra mínútna atriði úr lífi aðalpersónanna á heimasíðu þáttanna. Brotin gerast í fullkomnum takti við nútímann og þátturinn um þjóðhátíðardaginn gerist á þjóðhátíðardaginn sjálfan. Brotin eru svo saumuð saman í heilan þátt sem spannar viku í lífi ungmennanna og er aðgengilegur á hverjum föstudegi. Þannig geta áhangendur SKAM fengið sinn daglega skammt af lífi persónanna, en til viðbótar má fylgjast með þeim öllum á instagram. Samtöl þeirra á samfélagsmiðlum birtast einnig á heimasíðunni, ásamt Spotify-lagalistum með tónlist þáttanna.

Þættirnir eru bornir uppi af tveimur unglingsstelpum sem eru orðnar sannkallaðar þjóðhetjur í Noregi. Þær tækla ástarmál, fjölskylduvanda og samskiptaflækjur með hæfilegri blöndu af varkárni og ákveðni. Óöryggi, lífsgleði og ævintýraþrá. Þær eru orðnar svo áhrifamiklar í samfélaginu að þær framkalla sjóðheitar samræður á kaffistofum um landið allt. Meira að segja próf í norskum menntaskólum eru farin að snúast um viðfangsefni þáttanna.
Norðmenn hafa lengi orðið að lúta í lægra haldi fyrir Dönum og Svíum í sjónvarpsþáttagerð.
En þegar þeir bjuggu til hræbillega þætti um líf unglinga í menntaskóla, tók alþýðan við sér. Áhorfstölurnar hafa slegið öll met.
Þættina má sjá á slóðinni: SKAM.P3.NO
The post SKAM brjálæðið: Framúrstefnulegasta sjónvarpsefni á Norðurlöndunum appeared first on Fréttatíminn.