1. maí síðastliðinn markaði tímamót íslenskrar tónlistarsögu og það ekki vegna lúðrasveitanna í verkalýðsgöngum dagsins. Þennan dag var nefnilega myndbandið við lögin Enginn Mórall og Grunaður gefið út og krýndi hinn 16 ára gamla rappara Aron Can þar með RnB-kóng Íslands. Ágúst Elí Ásgeirsson er maðurinn á bak við myndbandið við Enginn Mórall/Grunaður.
Ágúst er alveg sjálflærður í kvikmyndatöku, en hann var um sex ára gamall þegar hann fór fyrst að taka upp myndbönd með spóluvél pabba síns. „Ég fiktaði mig áfram og prófaði hluti eins og að taka mig upp og láta mig hverfa úr rammanum. Svo kynntist ég Jakobi, vini mínum, sem gerði með mér leikþætti og sketsa sem við tókum upp í matarboðum með fjölskyldunum okkar og sýndum þeim þegar við vorum litlir.“ Með Jakobi stofnaði Ágúst rásina JÁ-myndir á YouTube og náðu myndbönd þeirra þar töluverðum vinsældum og hálfri milljón áhorfa.
Ágúst var í Verzlunarskólanum í tvö ár, þar sem hann tók upp myndbönd fyrir sketsaþátt skólans, 12:00: „Í Versló fékk ég tækifæri til að fikta í dýrari græjum en ég hafði komist í áður og lærði mikið af því.“
Eftir 12:00 fór boltinn að rúlla í kvikmyndatökuferli Ágústs og fór það svo að hann hætti í Verzló og fór að vinna við gerð tónlistar og kynningarmyndbanda.
„Aron hafði samband og við ræddum hvað væri flottast að gera. Þetta er allt tekið upp fyrir utan húsið hans, mest á veg fyrir utan húsið sem hann hefur gengið á hverjum degi síðan hann man eftir sér. Svo þetta er einhvernveginn mjög persónulegt myndband frá Aroni.“ Þetta átta mínútna langa myndband er tekið í einni töku. Eftir á vann Ágúst myndbandið á kaffihúsi og fiktaði í effektum þar til útkoman varð Enginn Mórall/Grunaður.
„Ég var að gera skemmtilegri hluti utan skólans sem ég fékk borgað fyrir, svo ég sá ekki alveg tilgang í að halda áfram.“ Ágúst er, eins og áður sagði, sjálflærður í allri kvikmyndatöku, og segist læra mest á að gúgla sér til um aðferðir eða fikta í forritum þar til hann fær það fram sem hann vill.
Þessa dagana vinnur Ágúst að nýju myndbandi við lag Sturlu Atlas, VINO, sem ku koma út á næstu vikum. Ágúst hefur því nóg að gera við gerð tónlistarmyndbanda, en ætlar þó að færa sig út í aðra sálma í framhaldinu: „Ég hef ekki gert stuttmyndir síðan ég var lítill, svo mig langar að byrja bráðlega aftur á því.“

The post Þú lærir mest á að fikta appeared first on Fréttatíminn.