Ríkissjóður hefur misst af um 28 milljörðum króna í skatttekjur vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að láta lög um hækkun virðisaukaskatts á gistihús taka gildi um mitt ár 2013. Á næstu árum gæti þessi skattaafsláttur til gistihúsa numið frá tæpum 12 milljörðum króna á næsta ári og vel yfir 25 milljarða króna árlega ef spár ganga eftir um 5 milljónir ferðamanna árlega, innan fárra ára.
Þessi áætlun byggir á því að hærri virðisaukaskattur fæli ekki ferðamenn frá. Með því að færa gistingu úr 11 prósent skatt í 24 prósent skatt hækkar gistingin um tæp 12 prósent. Það er vel hugsanlegt að slík hækkun myndi fæla einhverja ferðamenn frá. Á móti má benda á að gisting yfir háannatímann er meira og minna uppseld, færri komast til Íslands en vilja.
Gistináttagjald brot af afslætti
Hugmyndir stjórnvalda um að hækka gistináttagjald úr 100 krónum í 300 krónur á nóttina er langt frá því að vega upp tekjumissi ríkissjóðs vegna þess að gisting er í lægra þrepi. Sé miðað við að einstaklingsherbergi kosti um 25 þúsund krónur nóttin og tveggja manna herbergi 35 þúsund krónur þá dekkar 300 króna gistináttagjald aðeins um 9 til 13 prósent af þeim afslætti sem hótel fá í gegnum virðisaukaskattskerfið.
Í ár má reikna með að skattaafslátturinn færi gistihúsum um 9,9 milljarða króna. Í dag er gistináttagjaldið aðeins 100 krónur. Það mun því aðeins skila um 400 milljónum króna í ríkissjóð. Ef það verður hækkað í 300 krónur getur ríkissjóður náð í hátt í einn milljarða króna, sem er aðeins brot af afslættinum.

Sér ekki fyrir endann á vextinum
Fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur verið gríðarleg, hátt í fjórðungs viðbót á hverju ári frá 2010. Ljóst er að þessi mikla aukning mun halda áfram í ár og allt bendir til að það sama muni gerast á næsta ári. Ef menn gera ráð fyrir sömu fjölgun ferðamanna á næstu árum má gera ráð fyrir að árið 2022 fari fjöldinn yfir 5 milljónir árlega. Ef stjórnvöld hækka ekki virðisaukaskattinn á gistingu fyrir þann tíma má reikna með að árleg eftirgjöf á skatti til hótela og gistiheimila verði vel yfir 25 milljarðar króna árlega.
Þrátt fyrir að þessi mikli vöxtur virðist ótrúlegur eru dæmi þess að ferðamenn til landa hafi vaxið jafn mikið yfir jafn langt tímabil. Það á til dæmis við um Svartfjallaland, Laos, Georgíu og Kirgistan.
Þessari miklu fjölgun ferðamanna hefur fylgt ýmiss vandi og vandamál honum tengd munu vaxa á næstu árum. Ferðamannastraumurinn mun leggja álag á náttúru og innviði en líka gengi krónunnar. Hætt er við að gengið munu styrkjast svo að rekstrargrundvöllur undir aðrar atvinnugreinar en ferðamennsku og útgerð muni þurrkast út.
Afnám skattaafsláttar til gistiheimili og hótela er því ekki aðeins réttlætismál heldur getur líka verið skynsöm efnahagsaðgerð til að slá eilítið á offjölgun ferðamanna.
-gse
The post Lægra skattþrep færir ferðaþjónustu tugi milljarða appeared first on Fréttatíminn.