98% af erfðamengi manna og simpansa er eins, en mennirnir hafa greindina umfram dýrin. Jane Goodall, einn dáðasti vísindamaður heims, segir mannfólkið þó hafa margt að læra af simpönsum. Meðal annars um móðurhlutverkið og hvernig leysa megi ágreiningsefni í hópi.
Jane Goodall þótti ekki til stórræða líkleg þegar hún fór, 26 ára gömul, inn í Gombe skóglendið í Tansaníu til að fylgjast með lifnaðarháttum simpansa. Vopnuð penna og blaði. Það tók áratuga rannsóknir að ávinna traust og trúverðugleika í fræðaheiminum en uppgötvanir hennar kollvörpuðu flestu því sem áður var talið um dýrategundina.
„Margir notuðu það gegn mér að ég væri ekki með doktorspróf,“ segir Jane. „Ég var gagnrýnd fyrir aðferðirnar sem ég notaði til að afla mér þekkingar um simpansana. Ég fylgdist með þeim og skráði hjá mér það sem þeir gerðu. Ég var gagnrýnd fyrir að persónugera dýrin, fyrir að gefa þeim nöfn á meðan ég fylgdist með þeim. Réttara hefði þótt að gefa þeim númer. Ég gerði nákvæmlega ekkert rangt og enn í dag er þessari aðferð beitt um allan heim. En ég var heppin að hafa átt yndislegan kennara sem sýndi mér barnungri að dýr geti haft sterk persónueinkenni og átt margslungið tilfinningalíf. Að þau geti átt í félagslegum samskiptum og fundið til samkenndar. Kennarinn var hundurinn minn, Rusty, sem kenndi mér fyrst og fremst að hunsa ríkjandi kenningar vísindamanna um að tilfinningar og persónueinkenni dýra fyrirfyndust ekki.“
Jane segir þau Rusty hafa varið öllum stundum saman, þar til hans dó þegar Jane var tvítug. „Það var ekki lestur á bókum sem sannfærði mig um að dýr gætu hugsað og hefðu tilfinningar. Það var Rusty.“
Óvænt ferð til Afríku
Sagan af ævintýralegu lífshlaupi og einstökum afrekum Jane hefur verið sögð í ótal blaðagreinum, bókum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hvernig hún heillaðist ung af Afríku og lifði sig inn í ævintýrasögur á borð við Tarzan og Dr. Doolittle. Hana dreymdi um frumskóga og líf meðal villtra dýra, en mætti litlu öðru en góðlátlegum hlátri fólks. Stúlkur á þessum tíma áttu að dreyma um prins á hvítum hesti. „En mamma mín tók mig alvarlega og sagði mér að gera það sem ég vildi.“
Í fyrstu hafði Jane ekki efni á að fara í háskóla í Bretlandi og fór því snemma út á vinnumarkaðinn.
Rúmlega tvítug var hún enn ólæknuð af ástríðu sinni á villtri náttúru og náði að skrapa saman fyrir bátsferð til Afríku til að heimsækja vinkonu sína sem bjó á búgarði í Keníu. Eftir uppástungu vinkonunnar setti Jane sig í samband við hinn virta keníska fornleifafræðing Louis Leakey, í þeim tilgangi að ræða við hann um dýralíf. Leakey féllst á að hitta hana og varð hugfanginn af þekkingu hennar. Úr varð að hann bauð henni starf sem aðstoðarmaður sinn. Samstarf þeirra reyndist farsælt og langvarandi og var það fyrir hans tilstuðlan að Jane fór fyrst inn í skóglendið við Gombe, til að vinna rannsóknir á lifnaðarháttum simpansa. Leakey trúði því að simpansar væru næst greindustu dýr á jörðinni og taldi líklegt að athugunarrannsókn sem næði yfir lengri tíma, myndi leiða í ljós áður óheyrða hluti.
Apakonan í heimsfréttunum
Hugmyndin ein að 26 ára kona færi ein síns liðs inn í villtan frumskóginn til að fylgjast með ógnarstórum dýrum þótti afar djörf. Það var ekki fyrr en móðir hennar féllst á að koma með henni inn í skóginn fyrstu þrjá mánuðina og skrifa upp á samþykki fyrir framkvæmd rannsóknarinnar að Jane mátti hefja störf.
Rannsóknin var enginn hægðarleikur í framkvæmd og í upphafi flúðu dýrin af ótta í hvert sinn sem þeir sáu glitta í Jane. Með tímanum tókst henni að venja dýrin við nærveru sína og nálgast þau varfærnislega. Það voru svo vídeóupptökur af samskiptum hennar og villtu simpansanna sem settu allt á annan endann og komust í kastljós heimspressunnar.
Jane fékk viðurnefnið „apakonan“ eftir að mynd af henni með simpönsum birtist á forsíðu National Geographic, einu þekktasta náttúrulífstímariti heims, sem enn loðir við hana í dag. Ekki var fegurð hennar til þess fallin að draga úr athyglinni. Í kjölfarið fór fjármagn til rannsóknanna að streyma að. Jane lauk háskólaprófi í atferlisfræði og öðlaðist sífellt meiri virðingu í fræðaheiminum.
Þó Jane hafi ekki verið tekin alvarlega fyrst á ferlinum, og hafi jafnvel mætt mikilli andstöðu, átti hún tryggt bakland hjá móður sinni. Móðir hennar, Margaret Myfanwe Joseph, var rithöfundur og sá ekkert því til fyrirstöðu að Jane gæti lifað drauma sína.
„Ég var svo heppin að eiga móður sem studdi mig til dáða, sagði mér að leggja hart að mér og ég myndi komast þangað sem ég vildi. Og það er einmitt eitt af því sem við getum lært af simpönsum, að vera góðar mæður. Það hefur sýnt sig að þær eiga í afar nánum tilfinningasamböndum við afkvæmi sín, mjög svipað og við mannfólkið. Þær sýna ungunum sínum ást og hlýju og tengjast þeim sterkum böndum. Þær vernda ungana sína með kjafti og klóm, jafnvel þó það kosti að ráðist verði á þær. En þær ofvernda ekki afkvæmin og skýla þeim ekki fyrir áskorunum og erfiðum aðstæðum. Þær eru hvetjandi og ýta þeim út í að verða sjálfbjarga og sterkir einstaklingar. Eftir áratuga rannsóknir sjáum við að afkvæmi góðra mæðra spjara sig betur í náttúrunni og verða úrræðagóð og sjálfbjarga. Það eru bein tengsl þarna á milli.“
- Jane Goodall er bresk, fædd árið 1938 og er 82 ára gömul.
- Hún er ein dáðasta vísindakona heims á sviði dýra- og umhverfisfræða. Hún er sérstaklega fróð um hegðun og samskipti simpansa og hefur stundað rannsóknir á þeim í 55 ár.
- 26 ára gömul settist hún að í frumskóginum við Gombe, sem nú er þjóðgarður í Tansaníu. Þar hélt hún til og skrásetti lifnaðarhætti og samskipti simpansa í áraraðir. Uppgötvanir hennar hafa valdið straumhvörfum í dýrafræðum.
- Hún er friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna og rekur Stofnun Jane Goodall sem vinnur að þeirri hugsjón að veita fólki innblástur og hvatningu til virkrar þátttöku í verndun og velferð dýra, sem og verndun jarðarinnar allrar.
- Hún stofnaði Roots & Shoots hreyfinguna sem nær til þúsunda ungmenna í yfir 100 löndum og eflir þau og virkjar til að leggja sitt af mörkum við verndun jarðarinnar.
- Hún starfar sem fyrirlesari um allan heim og safnar peningum til umhverfisverndarmála

Spennt fyrir hýenum og kolkröbbum
Jane segir okkur einnig geta lært margt um hvernig simpansar leysa ágreining. „Þó þeir séu árásargjarnir og grimmir í ágreiningi við simpansa utan hópsins, eru þeir mjög lunknir í að greiða úr ágreiningi innan hans. Ég hef séð hvernig þeir stilla til friðar, ganga á milli stríðandi fylkinga og komast að niðurstöðu sem virt er af öllum í hópnum. Samheldnin í hópnum er öllum mikilvæg.“
Það er ekki bara atferli simpansa sem heillar Jane. „Hýenur, fílar, og fuglar heilla mig mjög og gefa okkur vísbendingar um mikla greind. Ekki síst kolkrabbar sem reynast vera einstaklega vel gefnir og hafa til dæmis hæfni til að nota verkfæri, leika sér með bolta og eiga í samskiptum sem vitna til um að þeir hugsi.“
Vill sporna við náttúruspjöllum
Þó hún sé komin á níræðisaldur heldur hún ótrauð áfram að ferðast um heiminn og segja frá því sem hún hefur séð og lært, í von um að vekja neista hjá öðrum og löngun til að hlúa að hnettinum. Hún gerir sér vel grein fyrir því hve mikil hvatning hún hefur verið öðrum. „Hvert sem ég fer, hvar sem er í heiminum, kemur einhver til mín og segir að ég hafi haft áhrif á starfsval þess. Að fólki hafi valið sér starf af því að las bók eftir mig eða blaðagrein. Þetta gerist nánast daglega og er ólýsanlegur heiður. Ég er uppnumin yfir að hafa öðlast slíkan áhrifamátt. Mér finnst líka yndislegt að heyra að ég hafi verið hvatning fyrir aðrar konur í fræðasamfélaginu. Það er mín einlæga von að áhrif mín verði til þess að gengið verði betur um náttúruna og hlúð sé að dýralífi, hvar sem er í heiminum. Að brugðist verði við hlýnun jarðar og að mannfólkið taki sig á til að sporna við frekari náttúruspjöllum.“
Hún bendir á að 98% af erfðamengi manna og simpansa sé eins. En mannfólkið sé með stærri heila og meiri greind. „Það er furðulegt að greindasta dýr jarðarinnar sé jafnframt það sem eyðileggur hana. Það er stressandi tilhugsun sem knýr mig áfram í að vilja virkja fólk í baráttu fyrir umhverfisvernd.“

Uppgötvanir Jane Goodall
- Árið 1960 komst hún að því að simpansar búa til og nota verkfæri, meðal annars við að afla sér matar. Fram að því var talið að einungis mannfólk gerði slíkt.
- Hún uppgötvaði að simpansar væru ekki eingöngu grænmetisætur, líkt og talið var, heldur veiða þeir og éta smærri dýr, svo sem apa og villisvín.
- Árið 1964 komst hún að því að simpansar geta skipulagt aðgerðir og framkvæmt þær. Þeir geta notað greind sína til að ávinna sér mikilvæga stöðu í hópnum og komast til valda.
- Árið 1970 taldi Jane sig sjá simpansa dansa, ekki ólíkt mannfólki.
- Árið 1974 varð Jane vitni að því að átök brutust út milli tveggja ólíkra simpansahópa, Kasekela og Kahama. Átökin hafa verið kölluð fyrsta skrásetta dýrastríðið í heiminum en það stóð í fjögur ár, þar til síðasti simpansinn í Kahama hópnum var dauður.
- Árið 1987 sá Jane kvendýrið Spindle sýna munaðarlausa apaunganum Mel mikla samkennd. Hún gekk unganum í móðurstað eftir að móðir hans lést úr lungnabólgu, þrátt fyrir að engin líffræðileg tengsl væru á milli þeirra. Tilfinninganæmi kvendýrsins var merkileg uppgötvun og þótti bera vott um meiri greind en áður var þekkt meðal apa.
- Árið 1995 taldi hún ljóst að simpansar legðu sér lækningajurtir til munns, gagngert til að lina magaverki og hreinsa þarmaflóruna.
Hitaðu þig upp fyrir námskeiðið með bíómyndum um Jane Goodall
Jane’s Journey (2010)
Jane Goodall’s Wild Chimpanzees (2002)
Hvar og hvenær?
Jane Goodall kemur fram í Háskólabíói miðvikudaginn 15. júní, klukkan 17.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir
Nánari upplýsingar á https://www.facebook.com/JGIceland/
The post Það sem við getum lært af simpönsum – viðtal við Jane Goodall appeared first on Fréttatíminn.