Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Sækir innblástur frá hljóðum í kringum sig

$
0
0

„Ég syng aðallega spunasöng sem gerir hlutverk mitt í óperunni frábrugðið því sem ég er vön,“ segir sænsk-eþíópíska söngkonan Sofia Jernberg sem er meðal flytjenda óperunnar UR_ eftir Önnu Þorvaldsdóttur sem verður frumsýnd hér á landi í Hörpu í kvöld.

Segja má að rödd Jernberg sé heldur óvenjuleg en hún fer tilraunakenndar leiðir við beitingu hennar. Aðspurð um hvernig hún beiti rödd sinni og hvaðan hún fái innblástur segir hún: „Venjulega spinn ég bara á staðnum og breyti röddinni í augnablikinu, ég veit ekki hvernig ég beiti röddinni tæknilega enda vekur það ekki áhuga minn. Innblásturinn sæki ég til allra hljóða í kringum mig. Þegar ég vinn með hljóðfæraleikurum, selló og píanistum, spinn ég til dæmis hljóðið í kringum hljóðfæri þeirra og hermi eftir þeim.“

Hún segir ekki síður skemmtilegt að breyta hlutverki söngvarans þannig hann sé ekki alltaf sólóisti heldur hluti af hljóðinu, skuggi hljóðanna, þannig hafi Anna skrifað óperuna UR_.

En af hverju er Sofia í UR_ óperunni?

„Arnbjörg Þorvaldsdóttir, framleiðandi sýningarinnar, blés til ferðar til Grænlands með Önnu þar sem ég hitti hana í fyrsta skipti og við náðum vel saman. Þannig hófst okkar samstarf.“ Hún segir hlutverk sitt í UR_ ekki hefðbundið heldur eru þrír söngvarar sem leiki eina og sömu persónuna. „Við erum þrír söngvarar sem erum ein persóna, en ég veit ekki hvort ég er karl eða kona, persónan hefur ekkert nafn. Þetta er frekar abstrakt hlutverk en ég veit að ég er næst fæðingunni. Þar sem ég syng ekki óperusönginn, eins og hinir tveir söngvararnir, er ég meira að herma eftir hljóðunum, jörðinni og vindinum í kringum mig. Það er ekki svo auðvelt að útskýra.“

Hvort hlutverk Jernberg í UR_ sé ólíkt hinni hefðbundnu óperurullu segir hún: „Já, ég myndi segja það en ég er enginn hefðbundinn óperusöngvari og get því ekki svarað spurningunni réttilega.“ Það verði áhorfendur að dæma.

The post Sækir innblástur frá hljóðum í kringum sig appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652