Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hópur hælisleitenda hefur snúist frá íslam til kristni

$
0
0

Laugarneskirkja, klukkan er þrjú á þriðjudegi. Á þriðja tug karla og tvær konur frá Miðausturlöndum sitja í bænahring undir handleiðslu Toshiki Toma, prests innflytjenda í Reykjavík, og Kristínar Þórunnar Tómasdóttur, sóknarprests í Laugarneskirkju. Hópur hælisleitenda hefur snúist til kristni undir handleiðslu Toshiki. Þeir segjast hafa heillast af kristninni þar sem hún sé friðsamari trúarbrögð og leiði til betri lífshátta. Sjálfur segir Toshiki að þeim finnist sem íslamskir lifnaðarhættir séu of herskáir en útilokar ekki að þeir líti á trúskiptin sem aðgöngumiða að betra lífi.

Sextán snerust til kristni

„Ég veit ekki um múslima hér á landi sem tóku kristna trú á öðrum stöðum á Íslandi, en ég hef skírt 16 manns, 15 fullorðna og 1 barn, síðan í fyrrasumar. Þá eru um 10 aðrir hjá mér í skírnarfræðslu. Þeir eru frá Afganistan, Írak og öðrum Miðausturlöndum eða Norður Afríku, en ég get ekki verið nákvæmari af ótta við að samlandar þeirra ráðist á þá.“

26887 Norskir haelisleitendur 03085

Toshiki segir að ástæðan fyrir trúskiptunum sé mismunandi og einstaklingsbundin, sumir hafi haft trúarlegan bakgrunn en aðrir ekki. Það sé þó algengt að þeir hafi fengið alveg nóg af íslam í heimalöndum sínum vegna átaka og segist hafa fengið nóg af því að fólk sé jafnvel drepið í nafni trúarinnar. „Fyrir fólkið sem sækist eftir trúskiptum er kristnin oftar en ekki tákn fyrir nýjan heim, nýtt líf og nýja von. Ástæðan sé þó sjaldan mjög einföld heldur verki margir þættir saman. Þannig er kristnin í augum sumra eins og miði til Evrópu en aðrir vilja raunverulega breyta einhverju í lífi sínu,“ segir Toshiki. „Sumir eru haldnir þeim misskilningi að kristnitaka geti greitt fyrir hælisumsókn en ég útskýri fyrir þeim að þannig sé það ekki. Það er þó engu að síður staðreynd að víða í Evrópu er sterk andúð gegn múslimum og það er því ekki útilokað að kristnitaka geti haft einhver áhrif.“
Þetta er síður en svo einsdæmi, í Þýskalandi er þetta þekkt fyrirbæri, þar aðstoðar kirkjan flóttamenn með fæði og húsaskjól, sem ýtir undir samskipti kristinna og múslima. Hér er því ekki þannig farið en engu að síður hafa sumir prestar innan þjóðkirkjunnar haft faðminn opinn fyrir fólk sem sækist eftir alþjóðlegri vernd hér á landi og fjölskyldur þeirra sem oft búa við mikla einangrun í samfélaginu.

Ekki að leika í leikriti

Margt fólk sækir bænastundir saman tvisvar í viku, bæði í Laugarneskirkju og Hjallakirkju í Kópavogi. Bænastundirnar fara fram á ensku, en þótt sum þeirra tali enga ensku, hjálpast þau að og þýða hvert fyrir annað. Nokkur sækja einnig íslenskar messur.

Toshiki segir að sem vanur prestur geti hann fullyrt að fólkið sé ekki að leika eitthvert leikrit, það komi af því að því líði vel í kristnu samfélagi. Þau séu hinsvegar stundum viðkvæm fyrir því að aðrir viti að þau sæki kirkju, það komi fyrir að samlandar þeirra ráðist á þau eða þau verði fyrir aðkasti vegna trúskiptanna.
Hann segir að trúskiptin geti haft alvarleg áhrif verði fólk sent til baka til heimalanda sinna. Þetta sé því mjög stór ákvörðun. Ef fólk er sent til baka til Írans eða Afganistan geti þetta varðað dauðarefsingu. Fyrir fólk frá Írak eða öðrum múslimalöndum geti þetta þýtt talsverða erfiðleika eða vandræði.

26887 Norskir haelisleitendur 03063

Miði til Evrópu

En líta flóttamennirnir á trúskiptin sem aðgöngumiða að betra lífi? Mohammed Reza Moghadam er 27 ára Kúrdi frá Íran sem fékk nýlega dvalarleyfi á Íslandi en hann var á flótta frá heimalandinu í tólf ár, þar af átta ár í Noregi, þar sem líf hans var meira og minna bak við luktar dyr, enda var hann pappírslaus og réttlaus í landinu og gat því ekki haldið áfram með líf sitt. Hann segist hafa átt erfiða daga í Noregi en ástandið hafi þó versnað mikið síðustu árin enda mikil ásókn flóttamanna þangað. Hann snerist til kristni hér á landi en hann segist trúa á vestræn gildi. „Á Íslandi er gott og fallegt samfélag fólks. Það eru svo margir hlutir sem hafa farið á versta veg í íslam. Ég vil bara segja að það sé fallegra að vera kristinn,“ segir hann.

Engin landamæri

„Einn vinur okkar, Kúrdi sem dvaldi lengi í Noregi og hefur reyndar verið sendur þangað aftur, vildi fá skírn í norsku kirkjunni en fékk það ekki vegna þess að hann var pappírslaus og ekki inni í kerfinu. Í Danmörku hafa stjórnmálamenn skipt sér af starfi presta með hælisleitendum og hvatt til þess að enginn án gildra pappíra fái skírn,“ segir Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Laugarneskirkju. Hún segir að trúarafstaðan sé ekki atriði í starfi þjóðkirkjunnar með hælisleitendum. „Við spyrjum ekki um trúarlegan bakgrunn þeirra sem koma á Seekers fundina okkar heldur bjóðum alla velkomna. Sumir hælisleitendur sem koma í starfið okkar vilja taka skírn, því það er áþreifanlegt og sýnilegt skref í þá átt að tilheyra samfélaginu sem þau vilja vera hluti af. Þau sem vilja skírast fá fræðslu og undirbúning hjá presti og þetta verður því mikilvægt og merkingarbært fyrir þau. Við lítum ekki á skírnina sem stjórnsýsluaðgerð heldur leið til að miðla náð Guðs og kærleika sama hvernig stendur á – því að í guðsríkinu eru engin landamæri,“ segir hún.

 

Hissa á Norðmönnum

„Þeir sem vilja skírast þurfa að sækja fræðslu til mín sex sinnum áður en af skírninni getur orðið. Fræðslan fjallar um Biblíuna, boðorð Móses, líf Jesús, fyrirgefninguna og merkingu hennar, hina heilögu þrenningu, faðirvorið og trúarjátninguna,“ segir Toshiki Toma.

Hann segist vera mjög hissa á þeirri afstöðu norsku kirkjunnar að skíra ekki flóttamenn til kristinnar trúar ef þeir eru ekki með vegabréf. Hann hafi stundum boðið upp á styttri fræðslu vegna þessa svo hælisleitendur geti látið skírast ef til stendur að senda þá til Noregs. Ég lít svo á að skírnin sé á grundvelli guðlegrar náðar en ekki eitthvað sem hann geti haft stjórn á.

26887 Norskir haelisleitendur 03066

„Það er svo gott og einfalt að vera kristinn,“ segir Sabah, einn þeirra fyrrverandi múslima sem hafa snúist til kristni hér á landi. Hann er 35 ára Íraki sem Útlendingastofnun lét flytja nauðugan til Noregs klukkan fimm á þriðjudagsmorgun.  „Kristni og íslam eru ekki svo ólík trúarbrögð, munurinn er minni en margir halda. En kristna samfélagið er svo fallegt og ekki jafn herskátt og í íslam,“ segir hann. Sabah var í íraska hernum og vann þar við bílaviðgerðir. Hann vann líka fyrir mannréttindasamtök við að afla upplýsinga um spillingu í stjórnkerfinu og vegna þess lenti hann upp á kant við lögreglusveitir sem réðust inn á heimili hans og höfðu í hótunum við hann og konu hans. Konan hans fór aftur til fjölskyldu sinnar en hann flúði til Noregs. Í Noregi dvaldi hann í móttökumiðstöð fyrir flóttamenn, fyrst í Trysil og síðan í Hönefoss, og hitti fáa eða enga Norðmenn. „Ég var í tvo mánuði í Noregi. Mér leið ekki vel, það voru mjög margir saman og óþrifalegt, sérstaklega í Hönefoss. Ég var veikur fyrstu dagana í Noregi en enginn læknir kom til mín.“ Hann sagðist vera afar sorgmæddur yfir flutningunum, enda líkaði honum vel á Íslandi en hér dvaldi hann í rúma 6 mánuði. „Norðmenn líta svo á að það sé í lagi með ástandið í Suður Írak og senda mig sjálfsagt til baka þangað. Ég er bara að biðja um að geta verið öruggur. Í dag veit ég ekkert um framtíðina, ég er bara leiður og sorgmæddur.“

Abbas, 25 ára fyrrverandi hermaður og vélvirki frá Írak, sem var fluttur með sömu vél til Noregs á þriðjudag hefur líka skipt um trú. Hann segist hafa flúið undan vopnuðum öryggissveitum stjórnvalda sem vildu að hann gengi til liðs við þær. Hann flúði til Noregs þar sem hann var í tvo og hálfan mánuð áður en hann fór til Íslands. „Ég er mjög hræddur við framtíðina,“ segir hann en ekkert blasir við nema ferð aftur til Íraks þar sem óöryggið tekur við.

26887 Norskir haelisleitendur 03080

Íslam tekur öll völd af einstaklingum

Tahseen, sem dvelur í Arnarholti á Kjalarnesi, en verður fluttur nauðugur til Noregs á miðvikudag, segir að íslam taki öll völd af einstaklingum. Hann er núna í skírnarfræðslu undir handleiðslu Toshiki. „Ég vil ráða hvernig manneskja ég er, í íslam eru allar ákvarðanir teknar fyrir þig og þú hefur mjög takmörkuð mannréttindi. Ég er ekki túristi, ég er á flótta og hef lifað mjög hættulegu lífi. Ég gerði þau mistök að skilja eftir fingraförin mín í Noregi og verð því  sendur þangað aftur. En af hverju má ég ekki ráða því hvar ég vil vera.“

26887 Norskir haelisleitendur 03077

„Ég get ekki sótt kirkju í Noregi og ekki heldur í Írak,“ segir Raisan sem er 39 ára Íraki sem var dæmdur í fangelsi fyrir liðhlaup en komst undan til Noregs. Hann snerist til kristinnar trúar fyrir tveimur mánuðum.Hann segir að Norðmenn setji alla frá Suður Írak undir sama hatt og sendi þá sjálfkrafa til baka. Þeir sem verði fluttir héðan til Noregs verði sendir þangað með hraðpósti, án tillits til aðstæðna. Ástandið í íröskum fangelsum sé þó hræðilegt. Hann segir að þeir sem snúist til kristinnar trúar eigi ekki sjö dagana sæla í múslimskum löndum, þeir séu í raun réttdræpir samkvæmt íslam.

 

The post Hópur hælisleitenda hefur snúist frá íslam til kristni appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652