„Amman var alltaf að búa til „crepes“ og mér fannst það agalega gott,“ segir Anna Margrét Ólafsdóttir sem fluttist heim frá Frakklandi í haust og hóf nýverið eigin crepes-rekstur, AMO Crepes.
Anna var au-pair í Frakklandi fyrir þremur árum og bjó hjá ömmu fjölskyldunnar sem hún passaði hjá en þau voru frá Bretaníu þaðan sem „crepes“ kemur. „Fjölskyldan mín í Frakklandi var alltaf að spyrja mig í gríni af hverju ég færi ekki bara heim og seldi „crepes“ á Íslandi. Ég sagði bara já einmitt en eftir að ég kom heim síðasta haust þótti mér þetta ekki svo galin hugmynd,“ segir hún.
Anna sló til og selur nú „crepes“ sem hún býr til sjálf hér á landi. Hún segir Íslendinga vera hrifna af réttinum en hann minni óneitanlega á íslensku pönnukökuna. ,,Hráefnin eru í raun þau sömu en hlutföllinn önnur. „Crepes“ er stærri en íslenska pönnukakan og þykkari.“ Um tvennskonar „crepes“ sé aukinheldur að ræða: matarcrepes sem ber nafnið Galette og síðan eftirréttar-crepes sem heitir einfaldlega Crepes. „Í Frakklandi eru heilu veitingastaðirnir sem heita bara Creperie og þar er hægt að fá hvort tveggja. Það er alltaf borið fram með áfengum síder.“
„Galette er fyllt með eggi, skinku og osti eða frönskum geitaosti, hunangi, valhnetum og salati. Síðan er líka hægt að setja gráðost, perur, hunang eða heimalagað tómatamauk með lauk sem er steiktur upp úr koníaki og kældur með hvítvíni. Í eftirrétta-crepesi er hægt að setja sykur og sítrónu, nutella og banana eða heimalagaða saltkaramellusósu.“ Í matarboðum steikir Anna líka epli upp úr karamellusósu og setur ís með.
Anna Margrét býður ekki einungis upp á þjónustu sína í matarboðum heldur líka veislum og viðburðum fyrirtækja. Þá verður Anna með Crepes-bar á Lunga-hátíðinni á Seyðisfirði í sumar. Hún horfir björtum augum til sumarmánaðanna sem hún segir verða yfirfulla af Crepesi en hægt er að fylgjast með Önnu á Facebook-síðu fyrirtækisins, AMO Crepes.

The post Stærri og þykkari en íslenska pönnukakan appeared first on Fréttatíminn.