Húsnæði gegnir svipuðu hlutverki árið 2016 og hlutabréfaviðskipti gerðu árið 2006. Allir keppast um að fjárfesta í fasteignum og engin leið að sjá hvar þetta endar. Fjármálafyrirtækið Gamma er umsvifamikið, en höfuðstöðvar þess eru í Garðastræti 37. Tveim húsum ofar er viðskiptaráð Kína, sem vinnur hörðum höndum að því að verða mesta efnahagsveldi heims. Hér má sjá samtímann í sinni hreinustu mynd, en sagan býr einnig í götunni.
Á þriðja áratug 20. aldar bar Thorsættin höfuð og herðar yfir aðrar á Íslandi. Ættfaðirinn, Thor Jensen, reisti slot sitt við Fríkirkjuveg 11 fyrir ágóðann af togaraútgerðinni Kveldúlfi, stærsta atvinnufyrirtæki landsins. Synir hans settust í stjórn félagsins að menntaskóla afloknum og þegar þeir fluttu að heiman byggðu þeir sér flestir glæsihús í Þingholtunum. Ólafur Thors, sem var andlit fjölskyldunnar út á við og kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1925, kaus að fara eigin leiðir.
Hinn gyllti tími stórkaupmanna
Ólafur keypti lóð við Garðastræti 41 og gaf Sigurði Guðmundssyni, sem hafði numið arkitektúr í Kaupmannahöfn og teiknað Austurbæjarskóla jafnt sem hús annarra Thorsbræðra, lausan tauminn. Niðurstaðan varð fyrsta landsins byggt í funkis stíl, en stefnan var óðum að ryðja sér til rúms í Evrópu. Tískan breiddi úr sér upp Garðastrætið og áratug síðar hafði önnur funkisvilla risið á Garðastræti 37. Þessi var byggð fyrir Magnús Víglundsson stórkaupmann, sem rak heildverslunina Heklu ásamt fleirum. Arkitektinn hét Gunnlaugur Halldórsson, sem átti síðar eftir að teikna Háskólabíó.
Á meðan hallirnar risu harðnaði í ári hjá Kveldúlfi. Fyrirtækið varð stöðugt skuldugra bönkunum í kreppunni miklu á meðan bræðurnir drógu úr því fé til framkvæmda sinna og var Ólafur þeirra stórtækastur. Vakti þetta gremju margra, ekki síst Jónasar frá Hriflu, sem sat í stjórn Landsbankans og vildi að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Niðurstaðan varð sú að allar eigur Thors Jensen voru settar að veði, þar á meðal Fríkirkjuvegur 11, og Landsbankamenn fengu að hafa tvo fulltrúa í stjórn Kveldúlfs með fullum aðgangi að bókhaldi félagsins.
Fulltrúarnir voru að mestu hunsaðir af Thorsurum og fljótt gekk á veðin, þar til blessað stríðið kom og stríðsgróðinn þurrkaði út skuldirnar, eins og segir frá í bók Guðmundar Magnússonar um ættina. Ólafur Thors sat enn í Garðastrætinu við stríðslok, nú sem forsætisráðherra, og þegar Halldór Laxness gaf út Atómstöðina árið 1948 minnti ein persóna þar meira en lítið á Ólaf. Þegar sagan var kvikmynduð árið 1984 var það þó Garðastræti 37, en ekki 41, sem var notað sem leikmynd.
Ríkið tekur yfir
Kveldúlfur hóf að safna skuldum á ný eftir stríðslok og nokkrum árum eftir að Ólafur Thors lést, árið 1964, var byrjað að gera félagið upp að kröfu bankans, en þeirri vinnu lauk ekki að fullu fyrr en 1977. Vinnuveitendasamband Íslands eignaðist húsið, en Ólafur hafði sjálfur tekið þátt í stofnun þess árið 1934 og bróðirinn Kjartan Thors var formaður allt til 1968.
Á svipuðum tíma, eða árið 1965, seldi Magnús Víglundsson Garðastræti 37 og keypti ríkið þá húsið. Var það notað undir Síldarútflutningsnefnd næstu árin, en sendiráð eins helsta viðskiptalandsins, Sovétríkjanna, var neðar í götunni þar sem Rússar eru enn.
Áratugina eftir stríð hófst það sem breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawn kallar „Gullöldina”. Stríð og kreppa voru að baki, hagvöxtur var meiri en dæmi voru um, jöfnuður jókst og hvert glæsihýsið á fætur öðru komust í eigu almennings. Jafnvel hið gamla ættaróðal Thorsaranna á Fríkirkjuvegi 11 varð að höfuðstöðvum Æskulýðssamtakanna, síðar ÍTR.
En í undir lok aldarinnar gengu nýir tímar í garð. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hóf að einkavæða ríkiseignir af miklum móð og auglýsingastofan Fíton keypti Garðastræti 37. Margmiðlunarfyrirtækið Atómstöðin kom sér einnig fyrir í húsinu og dró nafn sitt af ádeilu Laxness. Nú var það póstmódernismi en ekki pólitík sem var tímanna tákn. Ekkert hafði sömu merkingu og áður.
Auglýsingastofur, útrásarvíkingar, fasteignasölur
Í Garðastræti 41 hafði Vinnuveitendasambandið orðið að Samtökum atvinnulífsins, en árið 2002 keyptu Kínverjar hið gamla hús Ólafs Thors undir viðskiptaráð sitt en fluttu sendiráðið sjálft í stórhýsi í Bríetartúni. Ólafur hafði setið á fyrirmennapallinum á Þingvöllum þegar Ísland lýsti yfir sjálfstæði undir bandarískri hervernd árið 1944, en nú var kínverska öldin komin til Íslands.
Hlutirnir gerðust hratt á fyrsta áratug 21. aldar. Sumarið 2008 keypti Björgólfur Thor Björgólfsson, langafabarn Thors Jensen, húsið á Fríkirkjuvegi 11, en Björn Ingi Hrafnsson, þá formaður ÍTR, átti hugmyndina að sölunni. Var þá hringnum lokað frá því húsið var reist árið 1908. Hundrað ár höfðu liðið og allt var að komast aftur í sama horf.
Sumarið 2008 var einnig fjárfestingasjóðurinn Gamma stofnaður og þremur árum síðar keypti hann Garðastræti 37. Hann rekur nú margvíslega starfsemi í húsinu, svo sem Gamma gallerí, Borfélag Íslands og GAM Management. Einnig hefur hann stofnað námslánasjóðinn Framtíðina, sem á að koma námsmönnum til hjálpar þegar lán frá LÍN duga ekki til. Einkavædd námslán eru ef til vill liður í áframhaldandi þróun sem hófst með sölu hússins sjálfs árið 2000. Fyrir þá sem vilja sjá hvernig umhorfs var á heimili þeirra allra ríkustu fyrir 100 árum er verið að breyta neðri hæðinni á Fríkirkjuvegi 11 í safn Thors Jensen, sem kann að opna á næsta ári. Á efri hæðinni ætlar síðan Björgólfur Thor sjálfur að búa.
Garðastræti 37 kom fyrir í kvikmynd Þorsteins Jónssonar um Atómstöðina og átti þá að tákna innviði valdsins í Reykjavík kalda stríðsins, sem í raun lágu tveimur húsum ofar í 41.
En húsið hefur oftar birst á skjánum, nú síðast í þáttunum Ligeglad. Þar eiga það vera höfuðstöðvar raunveruleikaþáttarins „The Lick”, sem Helgi Björnsson vill ólmur taka þátt í, og fer Anna Svava á fund leikkonunnar Birgittu Hansen til að koma sínum manni að. Það er gaman að hugsa til þess að þetta hús, sem á sínum tíma hýsti valdamesta mann Íslands, eigi hér að vera staðsett í Danmörku.
The post Saga Íslands í þrem húsum appeared first on Fréttatíminn.