Hjónakornin Vilborg og Ólafur hafa unnið saman sem dagforeldrar í Breiðholti í fimm ár. Ljóst er að þar fer mikið barnafólk en hjónin eru með tíu ungbörn í sinni umsjá.
„Ég hef verið dagmamma í 21 ár en Óli byrjaði með mér í þessu fyrir fimm árum,“ segir Vilborg.
„Ég vann hjá fyrirtæki sem þjónustaði verktaka og hrundi allt í einu. Ég stóð uppi atvinnulaus en ekki leið á löngu þar til ég fór á dagforeldranámskeið og við fórum að vinna saman,“ segir Ólafur.
Þau segja samstarfið ganga vel. „Ég vissi alveg hvað hann var mikill barnakarl en var meðvituð um að þetta væri dálítil ákvörðun. Við ákváðum strax að ef þetta hefði áhrif á hjónabandið þá myndum við hætta þessu,“ segir Vilborg.
„Við Vilborg förum saman í rómantískar ferðir í Bónus og svona,“ bætir Ólafur glettinn við.
En hvers vegna dagforeldrar?
Vilborg: „Ég hef rosalega gaman af börnum, að fylgjast með þeim og sjá þau þroskast. Viðurkenni að ég hef ekki mikla trú á reglum. Finnst frekar að börnin eigi að vera eins og þeim líður best. Í leikskólanum eru oft ákveðin þemu en eina þemað hjá okkur er ást og umhyggja. Það virkar best.“
Þau eru sammála um að máli skipti að hafa áhuga á starfinu. „Við erum ekki að þessu út af laununum. Maður verður að hafa gaman af þessu. Ég hef alltaf sagt að þegar ég missi metnaðinn þá hætti ég,“ segir Vilborg.
„En þetta er erfitt, maður er rosalega bundinn. Það gengur til dæmis bara að vera veikur um páska, jól og á tyllidögum.“
En er algengt að hjón séu dagforeldrar?
„Það er algengt að þau byrji að vinna saman og skilji síðan,“ segir Vilborg og þau Ólafur hlæja.
„Síðan eru einhverjir karlar í þessu líka. Á dagforeldranámskeiðinu voru ungir strákar sem mér þótti alveg frábærir. Reyndar hef ég ekki séð þá síðan en þeir voru voðalegir töffarar og pöntuðu bara tilbúinn mat fyrir börnin,“ segir Óli.
Eru hjónin vinsælustu dagforeldrar á höfuðborgarsvæðinu?
„Ja, við erum allavega ánægð með það að við þurfum ekkert að auglýsa,“ og Óli tekur undir með henni. „Þetta er voða fínt, fer bara frá manni til manns, það er nefnilega svo mikilvægt að okkur komi vel saman við foreldrana. Maður elskar alltaf börnin en foreldrarnir geta verið snúnari.“ Mörg börn eru á biðlista eftir að koma til þeirra í pössun.
En hver eru áhugamál þeirra fyrir utan vinnuna?
„Barnabörnin,“ segir Vilborg hlæjandi.
„Ég er að lyfta fimm til ellefu sinnum í viku. Vakna mjög snemma á morgnana og er komin út hálf sex. Er að æfa mig fyrir landsmót 50 ára og eldri. Þetta fer vel saman við vinnuna.“
„Hann fer bara í háttinn á sama tíma og börnin,“ segir Vilborg að lokum og hjónin hlæja dátt.
The post Vinsælustu dagforeldrar landsins appeared first on Fréttatíminn.