Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Alltaf með nokkrar byltingar í gangi

$
0
0
Margrét Júlíana Sigurðardóttir er söngkona, tónskáld og framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins Rosamosa sem vinnur nú að því að klára tónlistartölvuleiksapp fyrir börn sem nefnist Music Box of Mussiland. Leikurinn hefur þegar vakið athygli og hlaut nú síðast styrk frá Nordic Games á stórri ráðstefnu í Svíþjóð.

Hugmyndin að leiknum er alfarið upprunnin í höfði Margrétar Júlíönu, en hún segist þó ekki hafa hugmynd um hvers vegna hún lenti inn í tölvuleikjasköpun.
„Ég fékk þessa hugmynd og byrjaði að vinna að henni árið 2011. Var bara ein í þessu lengst framan af en svo fór ég að fá minni styrki frá Nýsköpunarmiðstöð og gat ráðið teiknara í að hanna karakterana og ítalskan tæknistjóra sem býr á Íslandi til að vinna með mér í leikjaþróuninni. Í gegnum hans komst ég í samband við Studio Evil á Ítalíu sem fóru að vinna þetta með mér. Í desember í fyrra fór ég í útvarpsviðtal um Mussikids og það skilaði mér nýjum samstarfsaðila. Hilmar Þór Birgisson hafði verið að þróa tónlistarleiki út frá mastersverkefni sínu í tölvunarfræði og við ákváðum að slá okkur saman. Um áramótin fengum við svo stóran styrk frá Rannís, gátum ráðið starfsfólk og nú er allt komið í fullan gang og vonandi verður fyrsti leikurinn tilbúinn til markaðssetningar í haust.“

Margrét fer að hlæja þegar hún er spurð hvort hún sé tölvuleikjanörd og hristir höfuðið. „Nei, sko alls ekki. Mín reynsla á því sviði takmarkast nánast við Candy Crush, Angry Birds og Pacman og það síðasta sem mér hefði dottið í hug er að ég myndi lenda inn á þessa braut. Ég var að vinna með Hallfríði Ólafsdóttur sem skapaði Maxímús Músíkus en svo skildi okkar leiðir og ég ákvað að byrja upp á nýtt með mitt eigið konsept. Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun því þetta er búið að vera hrikalega gaman og maður þarf að nýta allar heilastöðvar við sköpunina á þessum heimi.“

Annar af tveimur kommum í Garðabæ

Margrét Júlíana stundaði klassískt söngnám í Royal Academy of Music í London en hún segist hafa komið mjög víða við á ferlinum. „Ég gæti alveg horft til baka og sagt að þetta hafi nú verið meira ruglið en í raun og veru má horfa á ferilinn eins og ég hafi verið í doktorsnámi fyrir nákvæmlega þetta verkefni. Ég var ein af þeim sem voru með sjónvarpsþáttinn Kolkrabbann á sínum tíma, 1998 til ’99, og þar á undan hafði ég verið eitt ár í námi í söngleikjadeild Konservatorísins í Vínarborg og verið í ýmsum hljómsveitum hér heima.“

Förum aðeins lengra aftur í tímann, hvaðan ertu?
„Ég ólst upp í Garðabæ, pabbi var kennari og síðar skólastjóri og mamma hjúkrunarfræðingur en ég fæddist í Hafnarfirði, bjó þar fyrstu árin í kjallaranum hjá ömmu og afa. Amma kenndi mér að spila á píanó og gítar þegar ég var fjögurra ára og æskuárin einkenndust af því að ég hlustaði á Led Zeppelin með pabba og mömmu og fór svo upp til ömmu og afa og hlustaði á Berlínarfílharmóníuna með þeim þannig að tónlistarsmekkurinn varð strax ansi breiður. Amma var minn dyggasti hvetjandi í tónlistinni og fannst allt sem ég gerði alveg æðislegt, sem er auðvitað stórkostleg hvatning fyrir ungan tónlistarmann.“
Spurð hvort hún hafi þá fengið dæmigert miðstéttaruppeldi fer Margrét Júlíana aftur að hlæja. „Ekki alveg. Eins og ég sagði þá bjuggum við í Garðabænum og sagt var að pabbi væri annar af tveimur kommum í bænum sem þótt ekki alls staðar fínt. Við liðum pínulítið fyrir það systkinin. Það var ekki fyrr en ég kom í MR sem ég fór að blómstra félagslega. Þar fór það fyrst að skipta einhverju máli að ég kynni að spila á píanó og gæti dansað og leikið. Ég varð mjög virk í félagslífinu þar, tók þátt í Herranótt og naut þess alveg í botn.“

Það hefur samt ekki komið til greina að verða leikkona?
„Jú, mig dreymdi alltaf um að verða leikkona. Ég reyndar setti upp gestasýninguna The Big Cry í Þjóðleikhúsinu árið 2006, sýningu sem ég gerði úti í London og var multimediasýningu sem samanstóð af kvikmyndum og lifandi tónlistarflutningi. Ég held reyndar að enginn hafi skilið hvað ég var að gera þá, en myndu eflaust fleiri skilja það í dag. Þegar ég velti því fyrir mér í dag hvers vegna ég hafi ekki valið leiklistina þá held ég að ástæðan hafi verið sú að ég átti alltaf erfitt með það í leikhúsinu að þurfa að leggja mig svona undir vald annarra. Þar er framtíð manns algjörlega undir öðrum komin, alveg eins og í söngnum. Þess vegna líður mér svo ofboðslega vel í því sem ég er að gera núna. Ég er sannfærð um að ef ég sái vel og rækta garðinn minn þá uppskeri ég í samræmi við það. Í leikhúsinu, og reyndar söngnum líka að vissu leyti, er maður alveg háður því að einhver annar vilji ráða mann í verkefni.“

Ástandið í tónlistarkennslu varhugavert

Sköpun Mussikids-appsins hefur heltekið Margréti Júlíönu undanfarin ár og gefur hún sér varla tíma til að sinna öðrum áhugamálum. „Þetta er búið að vera hrikalegt undanfarin ár. Ég var að syngja með Scola Cantorum, ég var að vinna á RÚV, og alltaf að reyna að halda öllum boltum á lofti. Svo á ég dóttur sem er að verða átta ára en ég get eiginlega varla sagt að ég sé einstæð móðir því öll fjölskylda mín kemur að uppeldinu með mér og svo á hún alveg frábæran pabba, þannig að ég er svo langt frá því að vera ein. Þessi síðustu ár hafa samt verið mjög „hektísk“ og ég hef varla einu sinni tekið eftir því hvernig veðrið er. Þessi tölvuleikjabransi er svo harður að það er ekkert sem maður getur gert með hangandi hendi, maður verður virkilega að vera vakin og sofin allan sólarhringinn til að ná fótfestu þar.

Ég er svo ótrúlega heppin að hafa með mér einvalalið samstarfsfólks, án þess hefði þessi draumur aldrei orðið að veruleika. Mussiland er algjör „mission“ hjá mér því mér er virkilega annt um tónlistarkennslu barna og finnst ástandið í dag mjög varhugavert. Þessi elítuhugsun í tónlist, að vera að ala upp eitthvert afreksfólk, finnst mér svakalega röng. Eins og það er frábært að eiga afburðatónlistarfólk afreksfólk í tónlist og þess njótum við auðvitað öll, þá verð ég að segja að ég nýt þess ennþá meira og allt öðruvísi að iðka tónlist sjálf. Ég held þú getir spurt hverja einustu manneskju sem hefur tekið þátt í tónlistarflutningi og þær munu allar svara því að slíka upplifun finni þær hvergi annars staðar. Við höfum búið illa að tónmenntakennslunni þannig að hún er gríðarlega krefjandi og nú er það þannig að tónmennt er ekki einu sinni skyldufag. Þannig að fjölmörg börn fara í gegnum allan grunnskólann án þess að fá nokkurn tímann nokkra tónlistarkennslu. Á sama tíma eru rannsóknir alltaf að sýna betur og betur hvað tónlistariðkun hefur mikil áhrif á þroska barna.

Allar þessar Bjarkir og Sigurrósir

Spurð um önnur áhugamál en tónlistar- og tölvuleikjahönnun nefnir Margrét Júlíana strax pólitík, hefur hún beitt sér eitthvað í henni? „Ekki beint, en Facebook er reyndar orðinn ansi öflugur miðill til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Mér er til dæmis mjög annt um íslenska náttúru og finnst hrikalegt að fólk virðist ekki sjá og skilja að í þeim efnum erum við að naga af okkur fótinn. Og fyrir hvað? Fyrir einhver álver sem er löngu ljóst að eru óþörf? Þetta er svo mikil skammtímahugsun að það er bara sorglegt að horfa upp á þetta.“

Margréti Júlíönu hitnar í hamsi við þetta umræðuefni og spurð um fleiri pólitísk mál sem valdi henni hugarangri stendur ekki á svörum. „Ég er reyndar alltaf með nokkrar byltingar í gangi. Ein þeirra er DoGood Indexinn sem mig langar að verði að veruleika. Það er alltaf verið að tala um einhverja nasdac vísitölu sem enginn skilur neitt í, en ég vil að þegar viðskiptafréttir eru sagðar þá sé líka talað um barnaþrælkun og óviðunandi aðbúnað sem fyrirtæki veiti starfsfólki sínu í þriðja heiminum, til dæmis, og að þau fyrirtæki sem verða uppvís að slíku falli um nokkur stig á DoGood skalanum og neytandinn geti þannig valið að sniðganga þau.

Svo er það ukulelebyltingin. Það er svo rosalega einfalt að spila á það hljóðfæri og hvaða barn sem er getur lært hljómaganginn með því. Um leið og þú skilur hljómaganginn verður svo auðvelt að fara hvert sem er í tónlistinni. Mér finnst að öll börn í öllum skólum eigi að fá ukulele og læra á þau svona fimm til sex ára. Hugsaðu þér hvað það gætu komið margar Bjarkir og Sigurrósir út úr því!“

Þú ert sem sagt baráttukona?
„Já, eina vandamálið er að ég hef stundum tekið inn á mig aðeins of mörg hugðarefni og reyni að berjast fyrir þeim, en nú reyni ég að einbeita mér að fáum málum en gera það vel. Ég myndi segja að það að vera með Mussiland og eina plötu og kannski svona þrjár, fjórar byltingar í gangi sé nokkuð hæfilegt. Ég ræð við það.“

Virðingin er lykilatriði

Ertu þá ennþá kommi úr Garðabænum?
„Ég varð reyndar alltaf ofsalega reið þegar fólk var að kalla pabba komma í gamla daga, og ég veit ekki alveg hvar ég myndi staðsetja mig í pólitík í dag. Fólk heldur sjálfsagt að ég sé hætt að vera vinstri sinnuð af því að ég sé komin út í bisness, en það er ekki málið. Ég hef bara fundið svo vel hversu mikill kraftur fylgir því að hafa frelsi til að gera það sem hugurinn stendur til. Íslensk jafnaðarmennska held ég að leyfi það alveg og jöfnuður skilar líka frelsi ef fólk gætir sín á forræðishyggjunni. Það má ekki njörva fólk niður, það verða allir að fá að njóta sín á eigin forsendum. Mér finnst það til dæmis dýrmætt að hafa alist upp í Garðabæ með alls konar fólki, farið í ballett með alls konar fólki og svo framvegis. Ég held að stéttaskipting sem leiðir til þess að við erum með einn ríkan hóp hérna, fátækan hóp í einhverju öðru hverfi og sitt hvorn kúltúrinn þar sem fólk talar sitt hvort lingóið sé það hættulegasta sem getur komið fyrir Ísland. Þessi skipting er alltaf að aukast og mér finnst það mjög mikið áhyggjuefni. Ég held að þeir sem stjórna geri sér ekki grein fyrir því hversu mikið ríkidæmi er fólgið í því að allir upplifi sig jafngilda. Ég vil ekki sjá svipaða stéttaskiptingu hér og í Englandi til dæmis. Þegar ég kom inn í Royal Academy of Music með krökkum úr efstu lögum samfélagsins þar var ég alls staðar gjaldgeng. Gat talað við hvern sem var og var ekki með minnimáttarkennd gagnvart einum eða neinum. Svo var einhver við hliðina á manni sem bugtaði sig og beygði fyrir einhverjum sem maður var að tala við af því hann var af ákveðinni stétt. Sérstaða Íslands hefur verið fólgin í þessum jöfnuði, og þá er ég ekki bara að tala um fjárhagslegan jöfnuð, heldur að við erum öll inni á gafli hvert hjá öðru og erum ekki að aðgreina okkur í einhver box. Það hefur verið mikill styrkur fyrir okkur alls staðar og það eigum við að halda í, ekki vera að búa til einhverja fáránlega stéttaskiptingu út frá peningum.“

Er ekkert undarlegt fyrir konu með þessar skoðanir að vera farin að gegna starfsheitinu framkvæmdastjóri?
„Nei, mér finnst það bara gaman, en ég viðurkenni að ég nota starfsheitið mjög sparlega. Við í fyrirtækinu Rosamosa vinnum öll á sama plani, en ég geri mér fulla grein fyrir því að það þarf að stjórna og hef stigið það skref til fulls. Hins vegar held ég að það sé ekki vænlegt til árangurs að stjórnendur setjist í eitthvert hásæti og séu úr öllum tengslum við fólkið sem vinnur með þeim. Stjórnun þarf ekkert endilega að fylgja einhver valdníðsla, það er einhver misskilningur. Ég er líka svo heppin að vera alin upp í fjölskyldu þar sem virðing er grundvallarhugtak. Í fjölskyldunni er fólk í alls konar störfum; pabbi starfaði lengst af sem skólastjóri, mamma stýrir Læk geðathvarfi í Hafnarfirði, annar bróðir minn er myndlistarmaður og sendibílstjóri, hinn bróðir minn vinnur í banka, yngri systir mín í grafískri miðlun og svo er alls konar fólk í frændgarðinum að fást við alls konar hluti og það er borin virðing fyrir því öllu. Það er enginn sem setur sig á háan hest gagnvart öðrum eða lítur á eitthvert starf sem merkilegra en hitt. Ég held þetta sé svona í mjög mörgum íslenskum fjölskyldum og mér finnst mjög mikilvægt að við hugum að því að sýna hvert öðru virðingu og þá náttúrulega byrjar maður á sjálfum sér. Það að vera framkvæmdastjóri er til dæmis ekkert merkilegra en eitthvert annað starf í fyrirtækinu þannig, mér finnst gaman að vera í þessu hlutverki en það stígur mér ekkert til höfuðs.“

Friðrika Benónýsdóttir
ritstjorn@frettatiminn.is

 

The post Alltaf með nokkrar byltingar í gangi appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652