Fjörðurinn er heldur rólegur þennan eftirmiðdag. Fastakúnnarnir eru þó á sínum stað – gaflararnir hittast í kaffi, Princess Bjornsson stendur vaktina á Hollywood Trendy Fashion og Sverrir er mættur í „drop-in“ tíma hjá rakaranum. Ef maður ætlar að halda verslun í heimabyggð þá verður maður að versla í heimabyggð, segir einn fastakúnna.

Gaflarar og skynsamir Hafnfirðingar
„Nei, nei, nei. Þessi saumaklúbbur heitir ekki neitt,“ segir Jón í Ertu yfir kaffibolla með félögum sínum. „Við erum kannski bara skynsamir Hafnfirðingar? Og auðvitað gaflarar.“ Strákarnir hittast á hverjum degi í Firðinum á Kaffilist og kemst sá sem kemst hverju sinni. Í dag sitja þeir Jón, Benedikt, Haukur og Þór. „Við erum allir Hafnfirðingar og þekkjumst af togaranum frá því í gamla daga, nema Þór hann er AA.“ Hvað er AA? „Aðfluttur andskoti,“ segir Jón í Ertu og hópurinn skellir upp úr. „Hann er ekki uppalinn hér í Hafnarfirði. Þetta er þó oft besta fólk sem þarf bara aðeins að aðlaga.“
Aðspurðir hvað Fjörðurinn hafi upp á að bjóða segist hópurinn ekki fara mikið út fyrir kaffitorgið. „Ég hef ekki farið á efri hæðina í fimm ár,“ segir Benedikt. „Stiginn er oft bilaður og lítið þangað að sækja.“

Prinsessan í Firðinum
Í gáttinni hjá tískufataversluninni Hollywood Trendy Fashion stendur Princess Bjornsson. Princess fluttist frá Kanada til Íslands fyrir 10 árum. „Það var langþráður draumur að opna fatabúð og ég lét að því verða hér í Firðinum.“ Hún segir reksturinn ganga vel, sérstaklega núna fyrir sumarið. „Ég sel mikið af sumarklæðnaði fyrir konur á öllum aldri.“

Hvað er í pakkanum?
Birgir er ekki á hraðferð en það er heldur ekki slor. Hann býr skammt frá og kom við í póstinum að sækja sendingu. „Ég veit ekkert hvað þetta er, eitthvað af því fjölmarga sem ég panta mér frá Kína. Á ég ekki bara að opna pakkann?“ Birgir opnar hann og í honum er einskonar hreinsigræja. „Já, alveg rétt. Þetta er fyrir fiskabúr dætra minna, þær þurfa að sjá almennilega um dýrin sín. Ég líð ekkert annað.“

Síðasta leikfangabúðin í dalnum
Á meðan mömmurnar kíkja í búðir fá vinkonurnar Nadia og Camilla að kíkja í dótabúðina Leikfangaland sem hóf rekstur í október. Leikfangaland er eina sérhæfða dótabúðin á landinu fyrir utan Toys R Us, samkvæmt eiganda. „Fólk var svolítið hissa þegar ég hugðist opna dótabúð. Það eru engar sérhæfðar dótabúðir eftir, þetta er allt komið inn í aðrar verslanir líkt og Hagkaup. Það gengur vel hjá okkur og fólk hefur orð á því að hér sé öðruvísi úrval en annarsstaðar.“ Vinkonurnar eru að minnsta kosti alsælar með úrvalið og segja bangsadeildina þeirra uppáhald.

Á vappi um búðina er einnig Helga Agnarsdóttir, Hafnfirðingur og aðdáandi Fjarðarins. Hún er á leið til læknis og ákvað að drepa tímann og líta í allar nýju verslanirnar. „Fjörðurinn hefur tekið miklum breytingum undanfarið. Smærri og fleiri búðir opna og mér finnst það frábært. Ef maður ætlar að halda verslun í heimabyggð þá verður maður að versla í heimabyggð.“

Afi minn er húsvörður
Á bekk við eiturgrænan vegg 10/11 situr Garðar einsamall. Vinir hans eru nýfarnir og hann ætlar að hinkra áfram eftir afa sínum. „Afi er húsvörður hérna. Ég kem hingað á næstum hverjum degi,“ segir Garðar, kátur í bragði. Hann býr á Völlunum og tekur oftast strætó í Fjörðinn. Hann kíkir í 10/11, röltir um og spjallar við fólkið.
Líkt og hjá flestum Íslendingum ber árangur karlalandsliðsins í fótbolta á góma. Garðar fylgist með hverjum leik og telur að okkar menn geti gert betur. „Varnarleikurinn er góður en við erum ekki að sækja nægilega á markið. Ég veit við getum gert betur.“

Áfram Ísland
Mikael er stoltur af íslenska karlalandsliðinu á Evrópumótinu og stillir sér upp við íslenska fánann. Framkvæmdastjóri Fjarðarins stendur sáttur á hliðarlínunni eftir að hafa flaggað meistaraverkinu.

Þetta er miðjan
Áslaug Vanessa stendur og bíður eftir strætó. Hún er að vísa ferðamönnum til vegar þegar blaðamaður heilsar. Hún er að koma úr Reykjavík og á leiðinni heim, sem er aðeins ofar í bænum. „Fjörðurinn er miðja bæjarins, hingað fer ég í klippingu, skrepp í búðina og erindast.“ Alla sína tíð hefur Áslaug búið í Hafnarfirði og er ekki á leiðinni neitt. „Mér líður afskaplega vel hérna, þetta er heima.“

„Drop-in“ tímar hjá rakara
„Við tókum við af Halla rakara sem var hér í 30 ár. Hann er goðsögn í Hafnarfirðinum,“ segir Raggi, annar eigandi Basic Barbershop, rakarastofu í Firðinum. Það er nóg að gera á stofunni, sérstaklega eftir að þeir fóru að bjóða upp á opna tíma. „Þetta er svona „drop-in“ svo fólk þarf ekki tímapantanir. Við tökum á móti öllum, konum og körlum í litun og rakstur eða hvað það er.“
Í einum stólnum situr Sverrir sem kemur af og til á stofuna. „Ég kem þegar ég nenni. Það er þægilegt að þurfa ekki að panta tíma.“ Hvers konar klipping verður það í dag? „Ég leyfi þeim alltaf að ráða, fullkomið traust.“
Sjá fleiri verslunarkjarna:
Í hjarta Efra-Breiðholts: Hólagarður




The post Í hjarta Hafnarfjarðar appeared first on Fréttatíminn.