Hundruð Íslendinga þurfa að lifa af skertum örorkubótum, þar sem þeir hafa verið búsettir um lengri eða skemmri tíma utan landsteinanna. „Þetta er meðal annars ástæða þess að á Íslandi fyrirfinnst fólk sem býr við mikla fátækt,“ segir formaður ÖBI.
„Síðasta hálmstráið er að kæra þetta til umboðsmanns Alþingis eða að sætta mig við 40 þúsund krónur í örorkubætur,“ segir Jóhanna Þorsteinsdóttir sem er 75 prósent öryrki en fær einungis um 40 þúsund krónur frá Tryggingastofnun vegna þess að hún bjó í Danmörku sem unglingur. „Ég er ekki velkomin neins staðar, þannig er staðan því miður,“ segir hún.
Jóhanna fluttist til Danmerkur 16 ára, ásamt foreldrum sínum, þar sem hún lærði rennismíði. Þremur árum seinna veikist hún alvarlega og þurfti að taka langt frí frá vinnu. Ári seinna er hún látin fara. Sama ár greindist hún með alvarlegan geðrofsjúkdóm, þá tvítug að aldri.
Foreldrar hennar voru þá fluttir til Íslands en faðir hennar fékk þær upplýsingar að hún gæti flust heim og farið í endurhæfingu til þess að komast út á vinnumarkaðinn aftur. Hún flutti til landsins skömmu seinna með alla búslóðina sína. Þegar hún ætlaði að sækja um endurhæfingarlífeyri var henni hinsvegar sagt að hún þyrfti að búa á Íslandi í þrjú ár, áður en hún gæti sótt um endurhæfingu eða örorku. Hún þurfti því að sækja um framfærslu hjá sveitarfélaginu.
Árið 2013 fékk hún loksins samþykkta 75 prósent örorku hjá Tryggingastofnun, en vegna búsetuskerðingar þýðir það að hún fær ekki nema 47 prósent bótanna. Þá fékk hún jafnframt þær upplýsingar, eftir kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga, að hún hefði í raun getað sótt um örorkubætur 2 árum fyrr. Hún krafðist þess því að fá bætur aftur í tímann og vann málið. Við það lækkuðu bæturnar hinsvegar niður í 21 prósent af heildarupphæð vegna óafturkræfrar búsetuskerðingar. Það þýðir í raun að hún fær 40 þúsund krónur í örorkubætur. Það er upphæðin sem hún fær greidda frá TR í dag.
Jóhanna segir að staða sín sé hvergi góð en hún fluttist þó aftur til Danmerkur, þótt fjölskyldan búi núna öll á Íslandi, því þar væri þrátt fyrir allt einhverja hjálp að fá. „Ég er komin í 50 prósent starf og hér get ég farið í viðtalsmeðferð og fengið heilbrigðisþjónustu sem ég ræð ekki við að greiða fyrir heima,“ segir Jóhanna. „Þótt maður geti greitt fyrir hana heima kemst maður heldur ekki alltaf að, biðlistarnir eru endalausir.“
Kvíði og óöryggi
Alls fengu 736 skertar örorkubætur árið 2014, þar af höfðu 446 verið búsettir í löndum ESB fyrir flutning en 281 í löndum utan ESB. „Þessi samningur milli Norðurlandanna um gagnkvæm réttindi er í raun bara blekking þegar á reynir. Fólk er að detta niður í allar þessar holur,“ segir Jóhanna. „Norðurlandasamningurinn tryggir ekki rétt einstaklinga til framfærslu, eins og margir halda, og virkar alls ekki að því leyti,“ segir Ellen Calmon, formaður Örykjabandalags Íslands. „Það sama gildir um aðra milliríkjasamninga, ólík framfærslukerfi þessara landa tala ekki saman.“
Ellen segir að forsendur fyrir því að greiða fólki skertan lífeyri á Íslandi séu í raun ekki fyrir hendi, þar sem hlutfallslegar greiðslur séu hugsaðar þannig að fólk eigi að fá það sem upp á vantar frá hinu landinu þar sem það var áður búsett. „Raunin er sú að yfir 80 prósent örorkulífeyrisþega fá ekkert frá hinu búsetulandinu, þrátt fyrir milliríkjasamninga,“ segir hún.
„Örorkulífeyrsþegum í þessari stöðu er gert að lifa á heildartekjum árum og áratugum saman sem eru langt undir öllum skilgreindum viðmiðum á Íslandi. Þetta eru meðal annars ástæður þess að á Íslandi fyrirfinnst fólk sem býr við mikla fátækt.“
Jóhanna Þorsteinsdóttir segist halda að hún væri löngu komin yfir veikindi sín og farin að vinna fulla vinnu ef henni hefði ekki verið gert jafn erfitt fyrir og raun ber vitni. „Það er búið að svíkja mig svakalega og stöðugur kvíði hjálpar ekki upp á sakirnar. Það er ekki góð blanda að vera veikur, geta varla skrimt og fá ekki heilbrigðisþjónustu, eins og á Íslandi.“
The post Ég er hvergi velkomin segir ung íslensk stúlka með alvarlegan geðsjúkdóm – 40 þúsund í örorkubætur appeared first on Fréttatíminn.