Úrræðagóður bóndi í Galtarholti í Hvalfjarðarsveit vorkenndi sauðfé sínu að klæja á bakinu og hannaði græju til að þær gætu klórað sér. Mikil aðsókn er í klóruna og fara kindurnar í beina röð á meðan þær bíða eftir að komast að.
Jón Þór Guðmundsson, bóndi í Galtarholti, hefur verið með kindaklórur á víð og dreif um jörð sína undanfarin tvö sumur. „Upphaflega var hugmyndin að reyna að koma í veg að þær yrðu afvelta. Þær klæjar á bakinu og reyna ýmislegt til að klóra sér. Stundum liggja þær milli þúfna og reyna að nudda sér upp við þær og þá endar oft með því að þær fara á bakið og geta ekki staðið upp. Ég var að missa nokkrar kindur vegna þessa. En síðan ég setti upp klóruna hefur enginn orðið afvelta þannig að ég hef komið þessu upp á nokkrum stöðum um hagann. Þetta er ódýr og góð lausn.“
Aðspurður um verkfræðina á bak við klóruna segir Jón Þór; „Þetta eru nú ekki mikil vísindi. Tveir girðingarstaurar eru reknir niður og svo set ég slá yfir og strákústshaus undir. Svo er bara að hafa þetta í hæfilegri hæð.“
Skildu kindurnar til hvers græjan var? „Já, þær voru ekki lengi að fatta það. Það getur verið gaman að fylgjast með þeim. Eitt kvöldið sá ég að það voru fjórar komnar í beina röð að bíða eftir að komast að. Verst ég náði ekki mynd af því. Ég hélt að þær myndu troðast eins og venjan er þegar þær langar að gera eitthvað, en þær biðu rólegar.“
The post Uppfinning – Græja sem spornar við því að kindur verði afvelta appeared first on Fréttatíminn.