Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fær ekki endurhæfingarlífeyri þar sem hún stundaði nám í Danmörku

$
0
0

„Ég fæ um 70 þúsund krónur á mánuði hjá félagsþjónustunni meðan verið er að afgreiða málið mitt í kerfinu,“ segir Dagný Björk Egilsdóttir sem veiktist þegar hún var í námi í Danmörku og þurfti að snúa heim til að hefja langtíma endurhæfingu eftir veikindi.“

Á Íslandi var Dagnýju Björk Egilsdóttir tekið eins og útlendingi í almannatryggingakerfinu, þegar hún veiktist og þurfti að snúa heim úr námi. Henni var sagt að bíða í þrjú ár eftir endurhæfingarlífeyri.

Dagný kærði niðurstöðu Tryggingastofnunar en hún greindist með tauga- og verkjasjúkdóminn vefjagigt fljótlega eftir að hún byrjaði í námi í rannsóknarlæknisfræði og þurfti í fyrstu að taka sér hlé frá námi og síðan hætta alveg.

„Ég hafði verið í rúmlega eitt og hálft ár í Danmörku þegar ég kom aftur heim og Tryggingastofnun synjar mér um endurhæfingarlífeyri á þeim forsendum að ég hafi ekki búið hérlendis síðastliðin þrjú ár,“ segir hún.

Námsmenn sem fara í nám á Norðurlöndum þurfa að flytja lögheimili sitt þangað meðan á námi stendur. Án lögheimilis er ekki hægt að leigja húsnæði og erfitt að sækja læknisþjónustu auk annarrar þjónustu. „Fólk veit ekki hverju það er að fórna þegar það breytir um lögheimili. Það eru fleiri í þeirri stöðu að hafa lent í þessari glufu milli reglugerða á Norðurlöndum. Norðurlandasamningurinn virðist heldur ekki tryggja samstarf milli landanna og grunnréttindi í almannatryggingum eins og hann á að gera,“ segir hún. „Þá gætir misræmis í reglum sem snúa að rétti til endurhæfingarlífeyris. Endurhæfingarlífeyrinn fellur undir lög um félagslega aðstoð. Réttur til félagslegrar aðstoðar er samkvæmt þeim ekki áunninn og ætti því í raun ekki að vera neinn biðtími til að öðlast hann. Einnig má benda á samlagningarreglu EES–landanna en samkvæmt henni er möguleiki að stytta biðtímann niður í eitt ár. „Þetta misræmi þarf að laga,“ segir Dagný.

Í síðustu viku ræddi Fréttatíminn við Jóhönnu Þorsteinsdóttur sem fær einungis 40 þúsund á mánuði í örorkubætur þrátt fyrir 75 prósenta örorku en hún var búsett um skeið í Danmörku. Formaður ÖBI segir þetta eina ástæðu þess að fólk býr við sára fátækt á Íslandi.

„Endurhæfingarlífeyrir er skammtímaúrræði, sem ætlað er að gera þeim sem á þurfa að halda fjárhagslega kleift að stunda endurhæfingu og ná heilsu og jafnvel starfsorku á ný eftir sjúkdóma eða slys. Ef fólk hefur ekki endurhæfingu fyrr en að þremur árum liðnum aukast líkurnar á því að það þurfi að búa við varanlega örorku.“ Vegna þessara reglna þyrfti Dagný að bíða í þrjú ár áður en hún öðlaðist rétt á endurhæfingarlífeyri hér á landi en í hennar tilfelli yrði hann á bilinu 212.000 kr. og 247.000 kr.

„Það var í rauninni ekkert annað í stöðunni en að flytja aftur heim því í Kaupmannahöfn stóð mér ekki til boða endurhæfing þrátt fyrir mikla leit né virtist ég hafa rétt á neinni framfærslu, ég var því tekjulaus í rúmt ár eftir að ég missti námslánin,“ segir Dagný. Úrskurðarnefnd almannatrygginga, sem fór með slík mál þar til í fyrra, hefur áður úrskurðað í svipuðu máli árið 2014, eftir að lögum var breytt og staðfesti synjunina. „Ég er því ekki bjartsýn á jákvæða niðurstöðu í mínu máli,“ segir Dagný. „Næsta skref er þá að fara með málið til umboðsmanns Alþingis,“ segir hún. „Ég viðurkenni að þetta mál hefur tekið mikið á mig. Ég er með síþreytu á háu stigi sem fylgir mikið orkuleysi og finnst skítt að þurfa að eyða minni litlu orku í standa í baráttu við kerfið. Ég þarf á allri minni orku að halda til að stunda þá endurhæfingu sem ég er í svo ég komist vonandi sem fyrst aftur í nám,“ segir Dagný Björk sem hefur bæði rætt við alþingismenn og velferðarvaktina um málið en ekki fengið mikil viðbrögð.

The post Fær ekki endurhæfingarlífeyri þar sem hún stundaði nám í Danmörku appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652