Íslensk bæjarfjöll er fjörug útivistarbók þar sem finna má fjöldann allan af gönguleiðum fyrir alla fjölskylduna um íslensk bæjarfjöll. Þorsteinn Jakobsson, eða Fjalla-Steini eins og hann er betur þekktur, hefur gengið á ótal fjöll og á ferðum sínum um landið gekk honum erfiðlega að finna bæjarfjall hvers bæjar fyrir sig. Hann efndi því til kosningar í öllum bæjarfélögum landsins og afraksturinn má finna í bókinni.
„Áhugi á fjallamennsku og útivist hefur blundað í mér alveg síðan ég var krakki. Þetta er ekkert nýtt í blóðinu á mér,“ segir Steini, sem hefur nýtt áhuga sinn á útivist til að láta gott af sér leiða. „Ég kynntist Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra, fyrir nokkrum árum og heillaðist af þeirri uppbyggilegu og jákvæðu starfsemi sem þar fer fram og vildi leggja mitt að mörkum fyrir félagið.“ Það vakti því mikla athygli fyrir nokkrum árum þegar Fjalla-Steini fór sjö ferðir upp og niður Esjuna sama daginn og safnaði áheitum fyrir Ljósið. Árið eftir gekk hann á 365 fjöll til að vekja athygli á starfsemi Ljóssins og bætti um betur ári seinna þegar hann gekk á 400 fjöll á einu ári.

Íslensk bæjarfjöll er útivistarbók fyrir alla fjölskylduna. Í henni má finna 90 gönguleiðir um fjöll á Íslandi við byggð, svokölluð bæjarfjöll.
Styrkir Félag krabbameinssjúkra barna
Bókin Íslensk bæjarfjöll kom út um síðustu jól og með henni langaði Steina að minna á hvað útivist og útivera gerir fólki gott. „Á ferðum mínum um landið átti ég erfitt með að finna upplýsingar um einkennisfjall hvers bæjar og því kom ég af stað kosningu um bæjarfjall í hverjum bæ, og afraksturinn má finna í bókinni,“ segir Steini. „Sums staðar urðu reyndar fleiri en eitt bæjarfjall fyrir valinu þar sem bæjarbúar komu sér ekki saman um eitt ákveðið fjall, og því eru fleiri fjöll en bæir í bókinni.“
Í bókinni má finna 90 fjöll og það tók Steina um tvö ár að ganga á þau öll, ásamt góðu fylgdarliði. Hann ákvað að halda áfram að nýta útivistina til að láta gott af sér leiða og í þetta skiptið ákvað hann að láta höfundarlaun sín af bókinni renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. „Þar er unnið mjög gott starf og þetta er því verðugt málefni,“ segir Steini. Nýverið afhenti hann félaginu fyrstu ávísunina, að upphæð 500.000 krónur.
Fjallgöngur fyrir alla
Í bókinni er sagt frá hverju fjalli fyrir sig, gönguleiðum og helstu einkennum. Upplýsingar um erfiðleikastig fylgja hverri gönguleið. „Flest öll fjöllin eru við hæfi allra. Eina fjallið sem ég myndi ráðleggja fólki að hafa einhvern vanan með sér er Kirkjufell í Grundarfirði, önnur fjöll á landinu eru aðgengileg öllum,“ segir Steini. Hann er staddur á Tenerife um þessar mundir þar sem hann lauk nýverið við að klífa hæsta fjallið þar, þannig fjallamennskan er aldrei langt undan. Fjalla-Steini mun svo halda áfram samvinnu sinni við Ljósið í haust þegar félagið fagnar 10 ára afmæli. „Í nóvember fer fram ljósaganga þar sem við munum fylkja liði upp Esjuna og þegar tekur að rökkva kveikja allir á ljósi sem þeir hafa meðferðis og mynda þannig ljósafoss niður hlíðar fjallsins.“
The post Hver bær á sitt einkennisfjall appeared first on FRÉTTATÍMINN.